fbpx
Fimmtudagur 09.október 2025
Fókus

„Það er tætandi og erfið reynsla fyrir börn að vera í sífellu sett í aðstæður sem þau valda ekki og brýtur niður von og trú þeirra á eigin getu“

Fókus
Fimmtudaginn 9. október 2025 08:30

Jóhanna Birna Bjartmarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhanna Birna Bjartmarsdóttir hefur verið áberandi í umræðunni undanfarið um skólamál barna sem þurfa stuðning í grunnskólakerfinu. Jóhanna er nýjasti gestur hlaðvarpsins 4. vaktin sem þær Lóa Ólafsdóttir og Sara Rós Kristinsdóttir stýra en þær hafa einmitt fjallað um skólamál þessa hóps og eru með Facebook hópinn Skólamálin okkar sem er hugsaður sem sameiginlegur umræðuvettvangur fyrir foreldra og fagaðila.

Þættirnir eru inni á öllum helstu hlaðvarpsveitum en þá  er hægt að nálgast hér:

Jóhanna er einhverf, með hamlandi lesblindu og ADHD. Hún hefur ekki góða reynslu af sinni grunnskólagöngu og segir að kerfið eins og það er byggt í dag hafi ekki verið fyrir hana. Í viðtalinu segir hún frá öllu á einlægan máta og það má greinilega heyra að hún brennur fyrir því að gera menntakerfið betra fyrir nemendur með ýmsa örðugleika.

Jóhanna ræðir hvernig það var að taka þá ákvörðun að opna sig um eigin reynslu og árekstra úr skólakerfinu og hvaða áhrif sú reynsla hafði til að mynda á hennar eigin sjálfsmynd. Jóhanna segist vera: „týpísk stelpa að greinast ekki með einhverfu fyrr en 17.“ En það er vitað í dag að stelpur eru oft að greinast með einhverfu mun seinna á lífsleiðinni en strákar. Þá segir Jóhanna: „það er tætandi og erfið reynsla fyrir börn að vera í sífellu sett í aðstæður sem þau valda ekki og brýtur niður von og trú þeirra á eigin getu.“

Í tengslum við þá umræðu ræðir Jóhanna enskt hugtak sem er „twice exceptional“, en í þættinum ræða hún Lóa og Sara meðal annars að það sé ekki til neitt gott íslenskt heiti yfir það. En hugtakið merkir að einstaklingur getur verið með framúrskarandi hæfni á einu sviði en verið með slaka færni á öðru sviði. Til dæmis gæti nemandi verið með yfirburðagetu í stærðfræði en með afar slakan lesskilning.  Þetta getur skapað flóknar og krefjandi námsaðstæður fyrir barnið og kennara. Það er knýjandi þörf á að veita meðal annars þessum börnum athygli og stuðning í menntakerfinu.

Persónuverndarlög hindra fullan aðgang að tækninni

Jóhanna hefur rætt við ýmsa aðila undanfarið um menntamálin og meðal annars farið í ráðuneyti og segist hún hafa komist að því að ákveðnar hindranir séu til staðar sem geti gert erfiðara fyrir að veita stuðning. Þá bendir hún á að krakkar megi til dæmis ekki nota ákveðinn forrit á tölvunni sem þau fá í skólanum vegna persónuverndarlaga. Jóhanna, Lóa og Sara eru sammála um mikilvægi persónuverndarlaga en segja að það sé samt leiðinlegt að þetta hindri aðgang að ákveðnum forritum sem geta nýst nemendum.

Gervigreindin

Í viðtalinu myndaðist skemmtileg og áhugaverð umræða um gervigreind og notagildi hennar í skólastarfinu. Jóhanna ræddi meðal annars um hvernig gervigreindin og tæknin hjálpar henni í námi og hún hræðist þessa tækni ekki. Án þessarar tækni hefði hún ekki getað komist í gegnum sitt nám á háskólastigi og þar nefnir hún meðal annars forritin Grammarly og Málfríði.

Jóhanna minnist einnig á hvernig hún nýtir gervigreindarforrit eins og ChatGpt til að hjálpa sér að halda utan um sitt skipulag. En í viðtalinu er líka rædd sú gagnrýni sem gervigreindin hefur fengið þegar kemur að ungu fólki og tekið dæmi af nýlegri umræðu um að gervigreind hafi ýtt fólki út í að fremja sjálfsvíg en þá segir Sara: „svo var annar vinkill sem einn kom með, það má líka skoða hversu mörgum lífum hefur ChatGpt kannski mögulega bjargað á móti.“ Jafnframt er farið inn á mikilvægi þess að nemendur fái góða fræðslu um gervigreind.

Er að vinna í rannsókn á geðheilsulæsi

Í þættinum segir Jóhanna frá rannsókn sem hún stendur að ásamt rannsóknarteyminu sínu og eru þau búin að vera að vinna að þessu verkefni, geðheilsulæsis námskrá, í um tvö ár. Markmiðið með verkefninu er að skoða hvernig hægt er að innleiða betur geðheilsulæsi inn í námskrár á Íslandi.

„Það væri frábært sem fyrsta forvörn við þessum vandamálum sem við erum að eiga við núna að bara sjálfsvíg sé helsta dánarorsök ungs fólks á Íslandi,“ segir Jóhanna. Hún bendir jafnframt á það að við þurfum að taka ábyrgð á þessum vanda sem samfélag og taka bæði Sara og Lóa undir það.

Mikilvægt að allir vinni saman

Að vinna hlutina er flókið og ekki ókeypis eins og Jóhanna bendir á: „það er rosa dýrt að spara.“ En réttilega eins og Lóa svarar: „því við vitum að heildaráhrifin að gera vel þau munu skila sér alls staðar og það er sparnaður til lengri tíma í að gera hlutina vel.“

Það eru ýmis flækjustig sem koma að því að vinna betur að menntamálum barna og margar raddir sem heyrast um hvernig sé best að vinna að skólamálum, Lóa spyr Jóhönnu: „hvernig getum við komið að borðinu saman.“ Það skipti máli að að starfsfólk skóla og foreldrar vinni saman og fari ekki í vörn því þá séum við ekki að fara að róa bátnum í sömu átt.

Þá segist Jóhanna upplifa það að fá kennara upp á móti sér þegar hún talar um þessi mál en segist einmitt vera með kennurum í liði og sé líka að tala fyrir því að kennarar eigi ekki að vera í öllu og eigi að fá meiri stuðning. Jóhanna, Lóa og Sara taka fram að ábyrgðin sé ekki kennaranna að taka þetta allt á sig heldur þurfi þetta að koma ofan frá þ.e.a.s að það þurfi að laga eða bæta ákveðna hluti í menntakerfinu í heild til að breyta því þannig að það geti mætt þörfum þessa hóps.

Vill að fólk viti að það skipti máli

Í lokin segir Jóhanna: „það er í rauninni bara eitt stórt áfall fyrir einhvern eins og mig að fara í gegnum menntakerfið og það tók mig bara mjög langan tíma að byggja upp sjálfsmyndina mína eftir þetta og ég bara vil að fólk viti að það skipti máli. Það er ótrúlega mikið virði í þessum einstaklingum.“

Jóhanna hefur verið að bjóða upp á fræðslu og námskeið. Það er hægt er að skoða upplýsingar á heimasíðunni hennar harts.is og senda henni skilaboð á tölvupóstfangið johanna@harts.is

Viðtalið má nálgast í heild hér:

Hlaðvarpsþættirnir 4. vaktin eru styrktir af:

Góðvild styrktarsjóð og Mobility verslun

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Fékk ótrúleg viðbrögð á TikTok: „Þá vissi ég að ég væri ekki að fara að hætta þessu“

Fékk ótrúleg viðbrögð á TikTok: „Þá vissi ég að ég væri ekki að fara að hætta þessu“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þess vegna áttu ekki að nota eyrnapinna – Sjáðu myndbandið

Þess vegna áttu ekki að nota eyrnapinna – Sjáðu myndbandið