Kryddpían Mel B gekk í það heilaga með unnusta sínum, Rory McPhee, í London í dag. Að sjálfsögðu var fjöldinn allur af frægum einstaklingum viðstaddir brúðkaupið en athygli vakti þó að þrjár aðrar Kryddpíur voru fjarri góðu gamni, þær Victoria Beckham, Geri Halliwell og Mel C. Emma Bunton, betur þekkt sem Baby Spice, var sú eina af hljómsveitarmeðlimunum sem mættu fögnuðinn og studdi vinkonu sína.
Victoria lét duga að birta færslu á samfélagsmiðlum til heiðurs brúðhjónunum. Geri hunsaði hins vegar hátíðarhöldin með öllu en ekki hefur gróið um heilt milli hennar og brúðurinnar eftir að sú síðarnefndi greindi frá því árið 2019 að þær hefðu átt í stuttu ástarævintýri á árdögum hljómsveitarinnar heimsþekktu. Geri var afar ósátt með að hulunni skyldi varpað af því og hafa stöllurnar ekki talast við síðan.
Um er að ræða annað hjónaband Mel B. en hún giftist Stephen Belafonte árið 2007 en upp úr hjónabandinu slitnaði árið 2016. Í kjölfarið steig söngkonan fram og sakaði Stephen um líkamlegt og andlegt ofbeldi í sambandinu.
Rory og Mel B. hófu samband sitt árið 2018 og vakti aldursmunur þeirra nokkra athygli en Rory er þrettán árum yngri en söngkonan. Hefur hún dásamað eiginmann sinn í viðtölum og sagt að hann láti henni líða öruggri og elskaða.
Á hátindi frægðar sinnar átti Mel B. í ástarsambandi við Fjölni Þorgeirsson, eins og alþjóð veit, og er hún án efa ein þekktasta „tengdadóttir Íslands“.