Leikkonan Olivia Munn hefur opnað sig um erfiða lífsreynslu í hlaðvarpinu Armchair Expert. Þar segir hún að ónefndur kvikmyndagerðarmaður hafi reynt að gera út af við feril hennar. Þetta frétti hún frá umboðsmanni hennar sem sagði:
„Hey, þú færð hlutverkið, en fyrst þarf ég að láta þig vita að það er annar leikstjóri sem þeir þekkja til og hann heldur því fram að við tökur á The Newsroom hafir þú ítrekað mætt of seint og verið átakasækin.“
Leikkonan kom af fjöllum og kannaðist ekkert við slíka hegðun. Hún hafi hins vegar látið heyra í sér þegar hún var ósátt. Munn lék blaðamanninn Sloan Sabbith í þáttunum sem átti að vera þaulreynd og sérhæfð á fjármálamarkaði. Hins vegar hafi leikstjórinn viljað að hún léki Sabbath eins og ástsjúkan ungling. Það vildi Munn ómögulega gera og fannst það fyrir neðan virðingu persónunnar, sem var reyndur blaðamaður.
„Það var söguþráður þar sem mín persóna og persónan sem Tom Sadoski lék eru að skjóta sig saman. Leikstjórinn vildi sífellt að ég væri einhliða að þróa þá sögu áfram. Hann sagði: Hey, geturðu horft á hann og brosað? Og ég spurði á móti: Hvers vegna myndi hún gera það þegar hún er upptekin við annað? Eða hann sagði: Geturðu hætt því sem þú ert að gera og hallað þér að honum eða daðrað við hann? Eða: Geturðu kysst hann smá? Og ég benti á að persónan var í miðju verkefni.“
Leikstjórinn bað hana sífellt um að þykjast daðra og hegða sér eins og tálkvendi. Loks steig Munn í lappirnar og sagði Nei, ég ætla ekki að gera þetta svona.
„Ég mun aldrei gleyma þessu. Bara sökum þess að við vorum ósammála um hvernig ætti að nálgast hlutverkið ætlaði hann að koma í veg fyrir að aðrir myndu ráða mig.“
Ekki er víst hvaða leikstjóra Munn er að tala um, en alls störfuðu 11 karlkyns leikstjórar við þættina sem voru í sýningu á árunum 2012-2014. Munn er þekkt fyrir að sætta sig ekki við ósæmilega framkomu í vinnunni. Árið 2017 sakaði hún leikstjórann Brett Ratner um kynferðislega áreitni, en hún sagði að hann hefði stundað sjálfsfróun fyrir framan hana á tökustað kvikmyndarinnar After the Sunset árið 2005.