Tónlistargagnrýnandinn Jónas Sen hefur vakið athygli fyrir harðsnúna og neikvæða tónlistargagnrýni undanfarin misseri. Í dag birtist á Vísir.is umsögn Jónasar um tónleika bandarísku tónlistarkonunnar Norah Jones í Hörpu. Jónas er ánægður með tónleikana, sem hann gefur fjórar stjörnur, en ekki eins ánægður með ljósastýringuna:
„Eldborgin var troðfull og eftirvæntingin var slík að það var eins og Elvis sjálfur væri að fara að troða upp. Tónleikarnir byrjuðu engu að síður skringilega. Skær ljósin fyrir ofan neðstu svalir voru kveikt – líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð. Fólk hallaði sér fram og leit í kringum sig í forundran.
Nóra kommentaði glaðlega að hún sæi „sætu andlitin okkar“ – sem var kannski fallega sagt. Enginn þráir þó að vera sætt andlit í flúorljósabaði þegar það á að vera myrkur. Það dróst í heilan hálftíma að slökkva, og þegar það gerðist var það við dynjandi lófaklapp. Þá loksins gátu allir andað léttar.“
Jónas var raunar ósáttur við fleira, þ.e. hljóðið í salnum:
„Hljóðið olli hins vegar vonbrigðum. Flygillinn, sem átti að vera hjarta settsins, hljómaði hvass og óþægilega bjartur – meira eins og hnífasett en hljóðfæri. „Come Away With Me“ af samnefndri plötu var leikið í notalegri Keith Jarrett-útgáfu. En hljóðið? Það hefði allt eins mátt bjóða manni að slaka á í tannlæknastól. Hljómborðið var enn verra – hrátt og með þvílíku urgi, urri eiginlega, að það hefði þurft að kalla á dýralækni til að róa gripinn niður.“
Jónas var hins vegar hæstánæður með söngkonuna sjálfa og hljómsveitina og segir meðal annars:
„Nóra var þó frábær. Hún hefur dásamlega þýða og ljúfa rödd, og lögin hennar eru grípandi. Unaður var að hlusta á „Don‘t Know Why“ í hjartnæmri sálarútgáfu með gospelkryddi. Nóra sló í gegn árið 2002 með frumraun sinni, áðurnefndri Come Away With Me, en þar er einmitt þetta lag. Á plötunni blandaði hún saman djassi, blús, þjóðlagatónlist og poppi á einstakan hátt. Platan seldist í yfir 27 milljónum eintaka og hlaut fimm Grammy-verðlaun, þar á meðal fyrir plötu ársins og besta nýja listamanninn.
Nóra hefur nefnilega stórfenglega hæfileika, bæði sem lagasmiður og söngkona. Lögin hennar eru hnitmiðuð og ljóðræn, vissulega dálítið keimlík, en ekki þannig að það sé leiðigjarnt. Þvert á móti býður hún manni inn í veröld þar sem allt er svo yndislegt og rólegt. Ekki hefði komið á óvart þarna ef einhver hefði tekið upp prjóna og farið að hekla.“
Sjá umsögnina í heild hér.