Hjónin, Aðalsteinn Kjartansson, aðstoðarritstjóri og blaðamaður á Heimildinni, og Elísabet Erlendsdóttir, markaðs- og vefstjóri Ekrunnar, hafa sett íbúð sína við Langholtsveg á sölu.
„Heimilið okkar er komið á sölu. Við sprengdum það utan af okkur fyrir tveimur árum og nú freistum við þess að allir fái sitt pláss. Fjögur svefnherbergi, skjólsæll garður og bílskúr (sem þarf reyndar viðhald). Gróðurhúsið getur fylgt!“ segir Aðalsteinn og Elísabet bætir við:
„Fallega íbúðin okkar komin á sölu. Hér hefur okkur liðið svo vel síðustu ár, komið tveimur börnum á legg, skapað skemmtilegar minningar, hlegið, grátið, drukkið mikið kaffi og haldið mörg kósíkvöld. Garðurinn og svæðið í kring er svo barnvænt, skjólsælt og yndislegt – en ef allt gengur að óskum komumst við í drauma- og framtíðareign ca 400 metrum frá L146,“ segir Elísabet.
Íbúðin er hæð og ris, 168,5 fm, þar af bílskúr 41,1 fm, í tvíbýlishúsi sem byggt var árið 1957.
Íbúðin er með sérinngang þar sem komið er inn í forstofu og upp í íbúðina sjálfa.
Hæðin skiptist í opið hol, eldhús, borðstofu, stofu, tvö herbergi og þvottahús.
Risloftið er skemmtilega innréttað með tveimur herbergjum undir súð ásamt holi/alrými á milli þeirra sem getur nýst sem leiksvæði og sjónvarpsrými svo dæmi sé tekið.
Garðurinn er rúmlega 620 fm. í afar skjólsælu umhverfi, þar er góð grasflöt og svæði fyrir leiktæki ef vill. Bílskúrinn, 41,1 fm. þarfnast viðhalds en býður upp á mikla möguleika í nýtingu, þar var áður íbúð/íverurými og góð gluggasetning tryggir birtuflæði þangað inn.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.