fbpx
Miðvikudagur 21.maí 2025
Fókus

Hefnd Diddu Morthens – Bráðskemmtileg saga um einbeittan brotavilja sextugrar konu

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 21. maí 2025 14:18

Sigríður Pétursdóttir. Mynd: Sunna Ben/Forlagið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin Hefnd Diddu Morthens eftir Sigríði Pétursdóttir vann Nýjar raddir handritasamkeppni Forlagsins. 

Bókin fjallar um Diddu Morthens, konu um sextugt, (enginn skyldleiki við Bubba Morthens), sem hefði getað orðið fræg á leiksviðinu, en lífið, börnin, þvottakarfan og stuðningur við eiginmanninn tóku yfir. Nú eru börnin fullorðin og flogin að heiman til útlanda, annar sonurinn í læknanámi í Búdapest, hinn vinnur í íslenska sendiráðinu í London og dóttirin er samfélagsmiðlastjarna sem ferðast um allan heim í beinni á Instagram þar sem hún póstar öllu nema myndum af foreldrum sínum, nokkuð sem veldur móðurinni hugarangri. 

Æskuást og eiginmaður Diddu, Elli, stritar nær allan sólarhringinn á veitingastaðnum sem hann byggði upp en tapaði 70% af til eins ríkasta manns landsins, sem Didda kallar Litla Hitler. Didda hefur haldið vextinum, en hennar elskulegi Elli er eins og Þ í laginu, bugaður af vinnuálagi, peningaáhyggjum og kæfisvefni. 

Dagar Diddu litast af heimilisstörfum, að fylgjast með börnunum á samfélagsmiðlum, enda svara þau sjaldnast þegar hún hringir, og að hugsa um aldraðra tengdamóður sína. Hjónasængin er löngu kulnuð af allri ástríðu en Didda elskar eiginmanninn þó enn heitt. 

Dag einn fær Didda nóg af fyrrum skólasystur sinni sem sífellt reynir að gera lítið úr Diddu þegar þær hittast í Melabúðinni eða annars staðar. Didda stofnar gerviaðgang á Facebook, þar sem hún þykist vera bandarískur einhleypur herramaður sem rekist hafi á prófíl vinkonunnar. Vinkonan bítur á agnið og þar með hefst atburðarás sögunnar. 

Bókin er fyrsta skáldsaga Sigríðar og hreint bráðskemmtileg frumraun. Mögulega mun hún helst slá í gegn meðal (miðaldra) kvenna, sem standa á ákveðnum krossgötum í lífinu, þar sem meta þarf stöðuna þegar ekki þarf lengur að sinna börnunum og engir atvinnumöguleikar eru til staðar. Með hverju á að fylla dagana?

Didda ákveður að hætta að vera þæga eiginkonan og lætur til skarar skríða gegn óvinum sínum, með nokkuð kostulegum og stundum ævintýralegum afleiðingum og þó……

Gamall skólafélagi kemur einnig aftur til sögunnar og úr verður mikil vinátta milli þeirra Diddu, en skólafélaginn er ekki lengur sá sami og hann var. 

Hefnd Diddu Morthens er ekta sumarlesning, skemmtileg, meinfyndin og hæfilega spennandi. Mun Didda ná fram hefndum eða renna á rassinn með fyrirætlanir sínar?

Í raun má segja að það er ótrúlegt að Sigríður hafi ekki tekið upp pennann fyrr og fyrsta bókin hennar komi út þegar hún er sjálf á svipuðum aldri og söguhetjan, 64 ára.  Bókin er lipurlega skrifuð og enginn nýgræðingur sem hér heldur á penna. Margir ættu að þekkja Sigríði sem er kvikmyndafræðingur að mennt og var hún dagskrárgerðarmaður á RÚV í útvarpi og sjónvarpi. 

Sigríður Pétursdóttir. Mynd: Sunna Ben/Forlagið

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta eru sletturnar sem Íslendingar hata – Að join-a eða dodge-a acturally frústrating debad

Þetta eru sletturnar sem Íslendingar hata – Að join-a eða dodge-a acturally frústrating debad
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eurovision: VÆB fengu stig frá þessum löndum og löndin sem Ísland gaf stig

Eurovision: VÆB fengu stig frá þessum löndum og löndin sem Ísland gaf stig
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslensk friðarljóð sungin í fyrrum hergagnaverksmiðju í Austur-Berlín

Íslensk friðarljóð sungin í fyrrum hergagnaverksmiðju í Austur-Berlín
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sirrý fór á húsbíl um Vestur-Evrópu og skrifaði handbók fyrir húsbílafara

Sirrý fór á húsbíl um Vestur-Evrópu og skrifaði handbók fyrir húsbílafara