Hárgreiðslumeistarinn Hermann Óli Bachmann Ólafsson vissi það snemma að hann myndi aldrei geta eignast sitt líffræðilega barn. Hann gekkst undir krabbameinsmeðferð sem barn og með aldrinum talið sér trú um að hann væri búinn að sætta sig við þessi örlög. En þegar hugmynd kom, að hann og þáverandi eiginmaður hans myndu eignast barn með vinkonu hans, kveiknaði vonarneisti. En við tók mjög erfitt og langt tímabil.
Hermann segir frá þessu í Fókus, viðtalsþætti DV. Hægt er að horfa á þáttinn, þar sem hann segir meðal annars frá skilnaðinum, í heild sinni hér, eða hlusta á Spotify.
„Ég fór í eina vinnuferð með samkynhneigðri vinkonu minni og átti smá spjall,“ segir Hermann.
„Málið er að ég get ekki átt börn því ég er með Crohns sjúkdóm og þegar ég var yngri þurfti ég að fara í gegnum krabbameinsmeðferð og get því ekki átt börn. Ég útskýrði fyrir vinkonu minni að ég get ekki átt börn, því miður, en einhvern veginn í samtalinu sprettur upp hvort maðurinn minn geti það.“
„Þegar manni langar óstjórnlega mikið í eitthvað, þá getur maður blindast svolítið,“ segir Hermann.
Hann segir þáverandi eiginmann sinn og vinkonu ekki hafa þekkst á þessum tíma þannig við tók tímabil þar sem hann kynnti þau og þau fóru öll að ræða um möguleikann að eignast barn þrjú saman.
„Og að sjálfsögðu, þrír samkynhneigðir einstaklingar að sjá fram á það að geta kannski brotið normið og búið til eitthvað fallegt […] þannig við lögðum af stað í þetta ferðalag, að við héldum, mjög skipulögð, öll mjög þroskuð,“ segir hann og hlær.
Ferlið hafi hins vegar ekki gengið eins og í sögu þrátt fyrir góðan vilja.
„Því miður, þá erum við öll mannleg og öll með tilfinningar og þetta fór í fokk, því miður.“
„Fyrstu þrjú ár barnsins okkar tók við forsjá/umgengnisslagur og peningar, þræti og óþarfa rifrildi sem að enginn græðir á. En sem betur fer þá tókst okkur, með hjálp sýslumanns, og ráðgjafa, að ná sáttum í dómsal.“
„Eins og margir sem hafa staðið í þessu vita, þá er þetta langt ferli. Við byrjuðum þetta liggur við daginn sem hann fæddist,“ segir Hermann.
Þetta hefur verið mjög erfitt því samkvæmt lögum hefur Hermann engin réttindi til barnsins, en löggjöfin á Íslandi leyfir ekki þrjá foreldra, hann var í raun bara maki foreldris.
„Ég trúði því og trúi á það góða í öllum og ég ætla ekki að einblína á það vonda sem getur gerst hjá þér, ég ætla frekar að einblína á það góða í þér. Og svo þegar við fórum í þetta ferli þá fór allt til fjandans og einhvern veginn, miklar tilfinningar. Ég gleymi því aldrei þegar að ég sat heima […] barnið mitt var ekki fætt, hún var bara komin tvo mánuði á leið, og ég fann, ég grét og grét því mér fannst aðstæðurnar ömurlegar. Ég grét af því að hjartað mitt, það var búið að taka part af hjartanu mínu af mér, þetta litla barn sem var ekki fætt,“ segir hann.
„Þurfa að þræta við fólk sem manni þykir vænt um líka, er ennþá verra. En þessi tenging, kom mér svo mikið á óvart, þó svo að barnið mitt væri ekki fætt, þá var einhver búinn að taka helminginn af hjartanu mínu.“
Hann segist ekki geta lýst tilfinningunni þegar hann fékk son sinn í fangið í fyrsta skipti. „Ég átti aldrei að geta þetta.“
Horfðu á þáttinn með Hermanni í heild sinni hér eða hlustaðu á Spotify.