Í umfjöllun Mail Online kemur fram að þegar Suplee var 24 ára hafi hann verið tæp 230 kíló. Ekki löngu eftir að hann lék í þáttunum My Name is Earl, sem voru sýndir á árunum 2005 til 2009, fór að bera á þyngdartapi leikarans og síðla árs 2010 hafði hann lést um rúm 90 kíló.
En hvernig fór hann að þessu?
Suplee hefur leyft fylgjendum sínum á Instagram að fylgjast með ferðalagi sínu í átt að betri heilsu. Hann stundar mjög reglulega kröftugar styrktaræfingar og leggur áherslu á að borða matvæli sem eru sem næst náttúrulegu formi sínu, án mikillar vinnslu eða viðbótarefna.
Þá nýtur hann góðrar aðstoðar frá einkaþjálfara sínum, Jared Feather.
Suplee var svo í viðtali við Men‘s Health-tímaritið í vikunni þar sem hann sýndi, svart á hvítu, hversu mögnuðum árangri hann hefur náð.
„Ég er á hápunktinum núna,“ segir hann í viðtalinu og bætir við að í 35 til 40 ár hafi hann aldrei þorað að fara úr að ofan og sýna líkama sinn – ekki fyrr en núna.
Suplee greindi frá því á síðasta ári að hann hafi náð því markmiði að ná fituprósentunni undir 10 prósent, eða í 9 prósent nánar tiltekið. Suplee segist ekki ætla að ganga lengra að sinni, en þess í stað reyna að viðhalda árangrinum um ókomna tíð.