fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Fókus

Skaftáreldar 1783–1784 – Voru þeir örlagavaldur í þróun vestrænna samfélaga?

Pressan
Sunnudaginn 9. júní 2024 17:30

Kötlugos 1918. Mynd: Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Sól tér sortna,

sígur fold í mar,

hverfa af himni

heiðar stjörnur.

geisar eimi

við aldurnara

leikur hár hiti

við himin sjálfan.“

 

Þessari heimsendalýsingu úr Völuspá hefur kannski skotið upp í huga einhverra þegar eldgos, sem kennt er við Skaftárelda, hófst í júní 1873. Eftir mikla jarðskjálftahrinu hófst eldgosið þann 8. júní og stóð fram í febrúar 1784. Þetta er eitt mesta gos Íslandssögunnar og raunar sögu mannkyns og hafði mikil áhrif á land og þjóð og móðuharðindin svokölluðu, sem fylgdu gosinu, stráfelldu landsmenn en þau eru líklegast mestu harðindi sem hafa dunið yfir þjóðina frá upphafi byggðar. Um 600 ferkílómetrar lands fóru undir hraun í gosinu. En getur verið að Skaftáreldar hafi haft áhrif langt út fyrir landsteinana? Vitað er að þeir höfðu áhrif á veðurfar og þar af leiðandi uppskeru víða um heim. En hvað með þróun vestrænna þjóðfélaga, komu Skaftáreldar þar við sögu?

Aska, flúorsambönd og brennisteinsagnir bárust meðal annars til Noregs, Hollands, Bretlandseyja, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Spánar, Norður-Ameríku og jafnvel Egyptalands. Askan og brennisteinsagnirnar mynduðu þoku sem hafði mikil áhrif. Skip urðu að liggja í höfn því sjófarendur sáu ekki nægilega langt frá sér og því var lítið sem ekkert hægt að stunda fiskveiðar hér við land. Uppskera brast vegna öskufalls og óvenjulega heits sumars. Skepnur drápust unnvörpum vegna flúoreitrunar og skorts á æti. Þessu fylgdi hungursneyð hér á landi frá 1783 til 1786. Vetur voru harðir og sumur köld og vætusöm. Ekki bætti úr skák að bólusótt barst til landsins haustið 1785. Þegar mannfjöldatölur eru skoðaðar sést að um mitt ár 1783 voru landsmenn 48.810 en þremur árum síðar voru þeir 38.973. Þeim hafði sem sagt fækkað um 10.000 á þremur árum eða um fimmtung.

Ýmislegt er að finna um þetta í samtímaheimildum, til dæmis skrifaði Benjamin Franklin, einn af stofnendum Bandaríkjanna, „sífelld þoka liggur yfir allri Evrópu og stórum hluta Norður-Ameríku“.

Þetta hafði áhrif á veðurfarið og veturinn var óvenjulega harður og er sagt að Mississippi hafi frosið við New Orleans. Talið er að gosið hafi raskað monsúnhringrásinni í Asíu og valdið hungursneyð í Egyptalandi.

Víkur þá sögunni til Frakklands

Frá skaftáreldum

Sagnfræðingar hafa bent á að gosið hafi haft mikil áhrif á efnahag í Norður-Evrópu og matarskortur hafi átt stóran þátt í Frönsku byltingunni 1789. John Murray eldfjallafræðingur segir að eldgos geti haft mikil áhrif á veðurfar í tvö til fjögur ár og það hafi síðan félagslegar og efnahagslegar afleiðingar og ekki megi útiloka hugsanlegar pólitískar afleiðingar.

Evrópubúar fengu tvo harða vetur vegna gossins auk blautra sumra, uppskerubrestur fylgdi þessu hörmungaveðurfari. Í Frakklandi var veðurfarið með undarlegra móti fram til 1788, kröftugir stormar og haglél sem var að sögn svo stórt að það drap nautgripi.

Í Frakklandi var röð atburða hafin sem á endanum leiddi til Frönsku byltingarinnar í júlí 1789 en þá réðst almenningur á Bastilluna alræmdu sem var fangelsi og mikilvægt vopnabúr hersins. Það er líklegast fulldjarft að segja að Skaftáreldar hafi hrundið Frönsku byltingunni af stað en þeir blönduðust líklega inn í þá flóknu atburðarás sem varð til þess að byltingin var gerð en hvort þeir voru dropinn sem fyllti mælinn er annað mál.

Franska byltingin er talin með merkilegri atburðum í sögu Vesturlanda og hún, ásamt ýmsum öðrum atburðum, breytti evrópskri sögu til frambúðar. Yfirleitt er talað um að byltingin hafi hafist í júlí 1789 en kannski má segja að hún hafi hafist löngu áður. Menningar- og efnahagslegar ástæður lágu að baki byltingunni en samfélagslegur óróleiki hafði um hríð sett mark sitt á samfélagið. Menntamenn höfðu lengi hist og rætt samfélagsleg málefni fram og aftur og gefið ýmis rit út um þessi mál. Yfirleitt var þess krafist í þessum ritum að menntafólk hefði meira að segja um samfélagsleg málefni og að réttindi fólks til að mótmæla yfirvöldum yrðu aukin. Iðnbyltingin var rétt að hefjast og mikill fjöldi fátækra verkamanna var í stóru bæjunum og borgunum. Þeir höfðu það slæmt og áttu erfitt með að sjá sér og sínum farborða. Korn og brauð hækkuðu stöðugt í verði og margir sultu. Það var því nægilegur eldiviður í frönsku samfélagi fyrir byltingu gegn því óréttlæti sem almenningur taldi sig búa við. Fólk taldi sig einfaldlega ekki hafa neinu að tapa.

Mikil óstjórn var á frönsku samfélagi á þessum tíma, skuldir ríkisins voru löngu farnar úr böndunum en aðallinn og kirkjan, sem öllu réðu, létu sem ekkert væri að. Franskt samfélag var því illa undir það búið að takast á við veðurfarslegar hörmungar og uppskerubrestinn sem fylgdi Skaftáreldunum í ofanálag við samfélagslegan óróa.

Í kjölfar árásarinnar á Bastilluna sá Loðvík 16. konungur sér ekki annað fært en boða frjálslyndari stjórnarhætti en það dugði ekki til að lægja öldurnar því fólk var komið með meira en nóg af ólýðræðislegum yfirvöldum og aðalsmönnum sem töldu sig öðrum fremri. Í ágúst var lagt fram skjal, sem byltingin er helst kennd við, en þar er fjallað um réttindi borgaranna og kjörorð byltingarinnar sem voru: jafnrétti, frelsi og bræðralag. Ljóst var að völd og áhrif kirkjunnar og aðalsins yrðu aldrei söm á ný.

Allt þetta gæti hafa ýtt undir frekari kröfur um lýðræðislegar umbætur og hrundið byltingunni af stað fyrr en ella en væntanlega verða aldrei færðar sönnur á bein orsakatengsl Skaftárelda og Frönsku byltingarinnar. Það má til dæmis velta fyrir sér hvort hún hefði ekki orðið, kannski svolítið seinna, þótt ekki hefði gosið á Íslandi með fyrrgreindum hörmungum.

Hitt er þó ljóst að Franska byltingin hafði mikil áhrif á franskt samfélag og teygði sig síðan til annarra vestrænna ríkja og væri heimsmyndin kannski allt önnur í dag ef franskur almenningur hefði ekki ráðist á Bastilluna. Aldagamalt kerfi, þar sem eignir og gæði voru aðallega í höndum aðalsins og kirkju, var lagt af. Forréttindi voru ekki lengur sjálfgefin í mörgum Evrópuríkjum og borgarastéttinni óx ásmegin með tímanum. Franska byltingin markaði upphaf endaloka lénskerfisins. Kjörorð hennar um jafnrétti, frelsi og bræðralag hafa allt frá átjándu öld haft áhrif á stjórnmál í Evrópu og munu væntanlega gera áfram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem borðaði heila flugvél – Svona fór hann að því

Maðurinn sem borðaði heila flugvél – Svona fór hann að því
Fókus
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem var fyrirmyndin að Stjána bláa

Maðurinn sem var fyrirmyndin að Stjána bláa
Fókus
Fyrir 3 dögum

Falska söngkonan biðst afsökunar á að hafa slátrað þjóðsöngnum – „Ég ætla ekkert að skafa utan af því, ég var full“

Falska söngkonan biðst afsökunar á að hafa slátrað þjóðsöngnum – „Ég ætla ekkert að skafa utan af því, ég var full“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Simmi Vill með umdeilanlega fullyrðingu í morgun um íslenska hamborgara

Simmi Vill með umdeilanlega fullyrðingu í morgun um íslenska hamborgara
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð
Fókus
Fyrir 5 dögum

Logi var tekinn af lærisveinunum – „Mér líður eins og kennara sem er stoltur af nemendum sínum“

Logi var tekinn af lærisveinunum – „Mér líður eins og kennara sem er stoltur af nemendum sínum“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri
Fókus
Fyrir 6 dögum

Heilabrot: Sú mynd sem þú sérð fyrst lýsir persónuleika þínum

Heilabrot: Sú mynd sem þú sérð fyrst lýsir persónuleika þínum