„Þetta var mjög óraunverulegt og ég bara hló í svona klukkutima. Svo kemur yfir mann rosalegur ótti, hvað ef þetta er illkynja og það er ekki hægt að taka það og ýmsar hugsanir sem fara í gang,“ segir Elva Björk Bjarnadóttir.
Elva Björk hélt að doðinn sem hún fann fyrir öðru megin í andlitinu væri ný einkenni tengd mígreni sem hún hefur haft frá því hún var krakki. Hún hundsaði einkennin í fyrstu, en þegar hún loks fór til læknis blasti alvaran við.
Elva Björk segir sögu sína í tilefni af Bleiku slaufunni, árlegu árvekni- og fjáröflunartátaki Krabbameinsfélagsins, sem jafnan fer fram í október. Bleika slaufan er komin út í 25 sinn, hönnuð af Sigríði Soffíu Níelsdóttur, Siggu Soffíu, sem greindist brjóstakrabbamein árið 2020 og þurfti að fara í lyfja- og geislameðferð og aðgerð.
„Ég fæ símtal um að það hefði fundist einhver fyrirferð í hausnum á mér og að sérfræðingur þurfi að hafa samband. Þá tók við biðtími sem var alveg virkilega erfiður.“
„Ég kem í Krabbameinsfélagið á þessum biðtíma sem hjálpaði mér að ná utan um hlutina. Hvað ef ég fæ góðar fréttir, hvað ef ég fæ slæmar fréttir, hvernig á ég að takast á við það?“
Greiningin sem Elva Björk fékk að lokum var góðkynja æxli. Hún segir greininguna hafa verið erfiðari fyrir aðstandendur sína en hana. Hún sá það bara á þeim og fannst hún i kjölfarið þurfa að passa sig á því hvað hún segði við þau til að bæta ekki við ótta þeirra. Í fyrstu hafi þetta verið óraunverulegt en svo hafi komið yfir hana rosalegur ótti.
Hún segir Krabbameinsfélagið hafa gripið sig í þessum aðstæðum.
„Það er ótrúlega gott að vita að það eru svona sterk og góð samtök ef eitthvað gengur ekki einsog það á að gera, hjá Krabbameinsfélaginu er heill hópur af fólki sem veit hvernig manni líður og getur leiðbeint manni!“