Það þykir óheppilegt að heita Karen þessa daganna enda hefur nafnið orðið að uppnefni á netinu yfir konur sem telja sig yfir aðra hafna sem veiti þeim rétt til að ganga fram með frekju og yfirgang.
Ida Lorenzo var uppnefnd Karen eftir að myndband birtist af henni á TikTok þar sem hún togaði niður pils hjá ungri konu á veitingastað. Lorenzo var fyrir vikið ákærð fyrir kynferðislega áreitni en málið hefur nú verið lokið með dómsátt.
Það var í apríl sem atvikið átti sér stað. Þar vék hin 49 ára Lorenzo sér að táningsstúlkum, en hún taldi að ein þeirra væri í alltof stuttu pilsi sem væri óviðeigandi þar sem um fjölskyldustað væri að ræða.
Myndbandinu var deilt á TikTok með textanum: „Karen kemst í uppnám því að vinkona mín er í stuttu pilsi svo hún grípur harkalega í það, togar það niður og segir: þú ert líklega ólögráða, og þú ættir líklega ekki að klæðast þessu. Svo olli hún uppákomu á veitingastað á háanna tíma.
Á myndbandinu sést Lorenzo hella sér yfir ungu konuna fyrir klæðnað hennar og meðal annars hóta því að hringja í barnavernd.
„Svo vill til að ég er opinber starfsmaður og ef ég þarf að horfa á rasskinnarnar þínar hanga þarna úti aftur þá hringi ég í barnavernd,“ segir Lorenzo við stúlkuna. Vinkonur ungu konunnar koma henni til varna og benda á að hún sé 19 ára og því lögráða. Lorenzo hafi því engan rétt til að skipta sér að.
Eftir að myndbandið birtist á netinu, degi eftir atvikið, hafði Lorenzo samband við lögregluna og tilkynnti að þar sem hún væri ríkisstarfsmaður þá væri myndbandið að stofna lífi hennar í hættu. Hún lýsti atvikum svo að unga konan hafi verið í óviðeigandi fötum, stuttu pilsi og engum nærfötum svo að sást í kynfæri hennar á veitingastaðnum þar sem börn voru að fá sér að borða með fjölskyldum sínum.
Hún hafi því ekki haft um annað að velja en að grípa inn í aðstæður. Hún hafi því togað pils konunnar niður til að hylja kynfæri hennar. Lorenzo sagðist ekki hafa snert konuna heldur bara pilsið þegar hún togaði það niður.
Degi síðar hafði unga konan samband við lögreglu og kærði Lorenzo fyrir kynferðislega áreitni. Hún lýsti atvikum svo að Lorenzo hafi vikið sér að henni. Unga konan sneri baki í Lorenzo en áður en hún náði að snúa sér við fann hún kalda hendi snerta á sér rassinn áður en pils hennar var togað niður. Henni hafi brugðið mikið og fannst brotið gegn sér. Sjö vitni gáfu sig fram í málinu. Unga konan lýsti því að hún hafi verið í ósköp venjulegu pilsi og þar að auki í bæði nær- og stuttbuxum undir því svo ekki hafi mögulega sést í kynfæri hennar.
Svo fór að Lorenzo var ákærð fyrir kynferðislega áreitni en hún gerði dómsátt í síðustu viku og þarf ekki að sæta refsingu svo lengi sem hún stendur við skilyrði dómsáttarinnar. Hún þarf að gangast undir geðmat og má ekki setja sig í samband við þolanda eða fremja fleiri glæpi.
Daginn sem Lorenzo var ákærð barst henni uppsagnarbréf frá vinnu sinni en hún var á reynslutíma hjá saksóknaraembætti Utah sem lagaritari.