Sir Mick Jagger, forsöngvari hljómsveitarinnar Rolling Stones, hefur ýjað að því að hann muni eftir sinn dag láta 500 milljón dollara auðæfi sín renna til góðgerðarmála frekar en til barna sinna.
Jagger sem er áttræður er ekki fyrsti þekkti einstaklingurinn sem hefur greint frá því að ætla að láta auðævi sin renna til góðgerðarmála, frekar en að börnin erfi allt. Leikarinn Jackie Chan hefur sem dæmi sagt að að sonur hans myndi bara eyða öllu, Microsoft konungurinn Bill Gates hyggst gera sama, en segist þó ætla að erfa börnin að einhverju og ákvörðun leikarahjónanna Mila Kunis og Ashton Kutcher um að gera slíkt hið sama vakti mikla umræðu meðal netverja.
Jagger hefur greint frá því að meðlimir Rolling Stones hafi ekki í huga að selja réttinn að lagalista sveitarinnar og að börnin hans þurfi ekki á þeirri risastóru upphæð sem slík sala myndi skila honum, að halda.
Í viðtali við WSJ sagði hann: „Börnin þurfa ekki 500 milljónir dollara til að lifa vel. Í alvöru talað.“ Þess í stað lagði Jagger til að peningarnir ættu að renna til góðgerðarmála. „Þannig gerir maður kannski eitthvað gott í þessum heimi.“
Jagger á átta börn með fimm barnsmæðrum, Karis 52 ára með Marsha Hunt, Jade 51 árs með Bianca Jagger, Elizabeth 39 ára, James 38 ára, Georgia May 31 árs, og Gabriel 25 ára með Jerry Hall, Luca 24 ára með Luciana Morad Gimenez, og síðast en ekki síst, Deveraux sex ára með kærustunni Melanie Hamrick.
Meðlimir Rolling Stones eru þrátt fyrir að vera komnir á ellilífeyrisaldur líklega langt frá því að ætla að setjast í helgan stein. Sveitin var stofnuð árið 1962 og nýlega gáfu þeir út plötuna Hackney Diamonds þar sem söngkonan Lady Gaga leggur þeim lið.
Jagger hefur bent á að þökk sé gervigreindinni þá gætu sveitin lifað áfram og komið fram á tónleikum löngu eftir að meðlimir hennar eru fallnir frá. Vísar hann meðal annars til ABBA Voyage þar sem sænska hljómsveitin stígur á svið með aðstoð gervigreindar í formi avatara á 90 mínútna tónleikum.