fbpx
Mánudagur 11.desember 2023
Fókus

„Ég hef verið að berjast fyrir lífi mínu í 40 ár“

Fókus
Mánudaginn 25. september 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Held að guð hafi geymt mig norður á Ströndum og ég held að ég hafi orðið skáld norður á Ströndum”

Þjóðargersemin Elísabet Kristín Jökulsdóttir, margverðlaunaður rithöfundur og skáld er gestur Mumma Týs Þórarinssonar  í nýjasta þætti Kalda Pottsins frá sviðinu á Gömlu Borg í Grímsnesi. Í þættinum ræða þau á einlægan og opinskáan hátt um lífshlaup hennar, sorgir og sigra og hvað það er að vera manneskja, hluti af náttúrunni. Elísabet hefur skrifað fjölda bóka og leikverka og fór að eigin sögn í forsetaframboð gagngert til að leita að leiðtoganum í sér.

„Ég hef verið að berjast fyrir lífi mínu í 40 ár í rauninni“

Elísabet rekur hvernig árið 1992 hafi hún farið í áfengismeðferð og tekist að vera edrú síðan þá. Hún hafi svo lengi barist við geðhvarfasýki og í raun þrætt sálfræðinga, geðlækna, hefðbundnar og óhefðbundnar meðferðir við sjúkdóminum og í raun hvað sem gæti hjálpað allt síðan hún var tvítug að aldri.

„Ég hef verið að berjast fyrir lífi mínu í 40 ár í rauninni“

Það hafi breytt miklu fyrir hana þegar hún byrjaði að fá lyf við sjúkdómnum og furðar hún sig á þeirri umræðu sem nú á sér stað í samfélaginu um að fólk eigi síður eða í minna magni að taka inn lyf við geðsjúkdómum. Það hafi verið stórt skref fyrir hana sjálfa að byrja að taka inn lyf, enda óttaðist hún að lyfjagjöf hefði áhrif á sköpunargleðina. Svo reyndist þó ekki vera.

Listsköpun Elísabetar hefur í raun verið allskonar, en aðspurð segir hún að forsetaframboð sitt árið 2016 hafi í raun verið eins konar gjörningur.

„Mér finnst oft eins og ég sé að kjafta frá einhverju ef ég segi frá, því sumir kusu mig út frá því að þetta væri gjörningur og aðrir út frá því að þetta væri einlægt forsetaframboð. Og í sjálfu sér er þetta gjörningur. Þetta er það þegar maður býður sig fram og maður fylgir öllum reglunum og maður klárar dæmið – í sjálfu sér er þetta gjörningur. Alveg eins og með Elísabetarstíg, þá er þetta gjörningur þó ég geri þetta í fyllstu alvöru.“

Þetta var þó meira en bara gjörningur. Elísabet fór í þetta framboð til að finna leiðtogann í sjálfri sér. Hún hafði til þessa ekki fundið með sér hugrekkið til að stíga sjálf á mitt sviðið sem leiðtogi. Þarna árið 2016 hafi hún kannski ekki fundið leiðtogann innra með sér með framboðinu einu, heldur frekar með því að vera bara hún sjálf.

„Enda fyrstu vikurnar þá gerði ég mér grein fyrir því að ég var að bjóða mig fram til forseta, og þó ég sé pönkari og anarkisti í grunninn þá gerði ég mér grein fyrir að þetta væri æðsta embætti þjóðarinnar.“

Var ýtt af stað í kósígalla á Gamlárskvöld

Eftir kosningarnar fór hún á heilsuhæli og hitti þar marga sem sögðust hafa verið aðdáendur hennar í þessari kosningabaráttu. Hún hafi verið svo skemmtileg og frábær.

„Þá spurði ég – Þú hefur þá væntanlega kosið mig? En þá var svarið: Nei ég gerði það að vísu ekki.“

Elísabet segir að þetta sé þekkt dæmi. Einhver komi inn í kosningar sem nýtt og ferskt afl sem brýtur niður hefðbundnar staðalmyndir. Fólk taki því fagnandi og dáist að hugrekkinu en þegar á kjörstaðinn er farið sé það hið hefðbundna sem fái atkvæðið.

„Ég er sterk kona og sterk manneskja, en það er stundum er hlutverkið stærri en maður sjálfur, ekki stærri en maður sjálfur, en það er svo gamalgróið að það er ekki víst að mér hefði tekist að gera eitthvað róttækt eða gera eitthvað öðruvísi. Guðna hefur náttúrlega tekist það með því að vera í mislitum sokkum og vera með buff á höfðinu, en það er ósköp svona saklaust.“

Í raun hafi það verið hálfgerð heppni að hún fór í framboð þegar hún gerði það. Það hafi verið Snæbjörn Brynjarsson, safnstjóri á Svavarssafni, sem ýtti henni að stað.

„Hann kom í heimsókn á Gamlárskvöld og þá var ég að hugsa um að bjóða mig fram og ég var í kósígalla þegar ég bauð mig fram með hálfnagað læri og Snæbjörn tók þetta upp og þetta var svo birt á Facebook.“

Þessu hefði Elísabet ekki þorað án Snæbjarnar, ekki kannski fyrr en mikið seinna og þá hefði framkvæmdin ekki verið jafn skemmtileg.

Hlusta má á viðtalið við Elísabet og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ari Bragi og Dóróthea eiga von á syni

Ari Bragi og Dóróthea eiga von á syni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hlín söng á stórtónleikum til heiðurs Mariu Callas

Hlín söng á stórtónleikum til heiðurs Mariu Callas
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dagbjört var í bíl á leiðinni í eftirpartý þegar hún fékk hugboð sem breytti lífi hennar – „Drullaðu þér heim, hvað ertu að gera?“

Dagbjört var í bíl á leiðinni í eftirpartý þegar hún fékk hugboð sem breytti lífi hennar – „Drullaðu þér heim, hvað ertu að gera?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Edda ætlar að læra fram í rauðan dauðann – „Hún er svo happý þetta helvíti“

Edda ætlar að læra fram í rauðan dauðann – „Hún er svo happý þetta helvíti“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Heilsu Bruce Willis hrakar hratt

Heilsu Bruce Willis hrakar hratt
Fókus
Fyrir 3 dögum

Reiði vegna miðaverðs hjá Laufey – Ticketmaster segir listamanninn ráða verðinu

Reiði vegna miðaverðs hjá Laufey – Ticketmaster segir listamanninn ráða verðinu