fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fókus

Líkamsþyngd Íslendinga hærri en flestra annarra Evrópuríkja – „Við þurfum að breyta um kúrs og til þess þurfum við aðstoð“

Fókus
Þriðjudaginn 5. desember 2023 08:43

Steinar B. Aðalbjörnsson. Mynd úr myndabanka Torgs.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinar B. Aðalbjörnsson, næringarfræðingur, biður fyrirtæki um hjálp til að efla heilsu. „Okkur hefur ekki gengið nægilega vel að sporna gegn þyngdaraukningu landsmanna, þar með talið barna, undanfarin 25 ár. Sú leið að höfða eingöngu til einstaklingsins er ekki rétta leiðin, það þarf meira til,“ skrifar hann í vel lesnum pistli á Vísi.

Steinar starfar við forvarnir hjá Krabbameinsfélaginu.

Hann biðlar til sölu- og markaðsaðila á matvælamarkaði. „Aðstoðið okkur við að velja oftar mat sem eykur heilbrigði og vellíðan (sbr. niðurstöður mýmargra, gagnreyndra vísindarannsókna) og útlistaður er á heimasíðu embættis landlæknis.“

Íslendingar þyngri en íbúar annarra Evrópulanda

„Líkamsþyngdaraukning getur skert lífsgæði. Hún getur aukið líkurnar á því að fá hina ýmsu sjúkdóma, þar með talið offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og hin ýmsu krabbamein. Mikilvægt er þó að muna, þegar rætt er um líkamsþyngd, að mælingar á líkamsþyngd eru ekki það eina sem skiptir máli þegar heilsa er metin og ætti til dæmis ekki að nota líkamsþyngdarstuðulinn (e. Body Mass Index, BMI) einan sem sjúkdómagreiningatól. Líkamsþyngd einstaklinga getur þó verið vísbending um heilsu og því eru slíkar mælingar nothæfar, sérstaklega þegar hópar eru skoðaðir.“

Steinar vísar í skýrslu framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins þar sem er gefið til kynna að líkamsþyngd Íslendinga er hærri en íbúa flestra annarra Evrópuríkja. „Þannig hefur Íslendingum í ofþyngd fjölgað og í hópnum sem lifir með offitu hefur hlutfallið á meðal fullorðinna Íslendinga farið úr 20% í tæp 27% á tímabilinu 2007 til 2017.“

Hann segir að samkvæmt samantekt skýrslunnar sé hlutfall 15 ára barna hér á landi sem teljast til ofþyngdar eða lifa með offitu 21 prósent. „Sem sagt, eitt af hverjum fimm 15 ára börnum á Íslandi er í þessum hópi,“ segir hann og bætir við að hlutfallið sé hærra í einungis fjórum löndum sem eiga aðild að EES.

„Nýlegri tölur sem ná auk þess yfir börn í 1., 4. og 7. bekk grunnskóla eru af svipuðum toga; um 25% barna í þessum fjórum árgöngum eru í ofþyngd og rúmlega 7% barna í þessum fjórum árgöngum lifa með offitu (Ársskýrsla heilsuverndar skólabarna 2022-23, óbirt gögn).“

Minni hreyfing, verri næring

Steinar segir að það megi líklega rekja ástæðu þessarar þróunar til þess að færri börn en áður hreyfa sig nægilega mikið dag hvern. „Og að of fá börn fá að staðaldri næringu sem eykur heilbrigði og vellíðan, auk annarra mikilvægra áhrifaþátta,“ segir hann og bætir við:

„Að sjálfsögðu eru svo fjölmargar ástæður fyrir því að börn hreyfa sig ekki nóg og að þau borða ekki ákjósanlegan mat nægilega oft dag hvern.“

En hvað er til ráða?

„Lausnin er ekki einföld og áskorunin er margslungnari en svo að það nægi að segja „Borða bara minna og hreyfa sig meira!“ og meira að segja geta slík skilaboð verið skaðleg. Inn í þetta spila meðal annars áföll, erfðir, umhverfi og aðrir áhrifavaldar. Einnig þarf viðhorfið í samfélaginu að breytast gagnvart þeim sem eru í ofþyngd eða lifa með offitu enda eru viðhorf án fordóma forsendur framfara,“ segir Steinar.

Hann beinir síðan athyglinni að fyrirtækjum og stofnunum.

„Í skýrslu Alþjóðlegu heilbrigðismálastofnunarinnar kemur fram að markaðssetning matvæla hefur ekki bara áhrif á hvað börn vilja borða heldur einnig á þekkingu þeirra á mat og mataræði […] Skýrsluhöfundar segja það sé á ábyrgð markaðsaðila að tryggja rétt barna gegn óæskilegri markaðssetningu enda sé slík markaðssetning brot á friðhelgi einkalífs þeirra og til þess fallin að skerða heilsu og næringarástand barna. Enn fremur segja skýrsluhöfundar að ekkert barn ætti að vera hluti af arðsemiskröfum fyrirtækja,“ segir hann.

„Við þurfum að breyta um kúrs og til þess þurfum við aðstoð. Fyrirtæki og stofnanir verða að vera með til þess að þetta takist – af fullum krafti!“

Lestu pistilinn í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Reglulegt starfsmannasamtal breytti öllu hjá Maren – „Þarna eru öll rauðu flöggin!“

Reglulegt starfsmannasamtal breytti öllu hjá Maren – „Þarna eru öll rauðu flöggin!“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fagnaði 20 ára afmæli Kattarkonunnar fáklædd

Fagnaði 20 ára afmæli Kattarkonunnar fáklædd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stórstjarnan að mestu hætt neyslunni – Eitt getur hann ekki gefið upp á bátinn

Stórstjarnan að mestu hætt neyslunni – Eitt getur hann ekki gefið upp á bátinn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þekkir þú brúðhjónin á þessum myndum? – Ljósmyndara leitað

Þekkir þú brúðhjónin á þessum myndum? – Ljósmyndara leitað
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íbúar ensks þorps afar ósáttir við fjölmenna kynlífshátíð í næsta nágrennni – Kvarta undan orgum og frygðarstunum

Íbúar ensks þorps afar ósáttir við fjölmenna kynlífshátíð í næsta nágrennni – Kvarta undan orgum og frygðarstunum