fbpx
Föstudagur 30.september 2022
Fókus

Haraldur geðlæknir segir að góðmennska nútímans sé að snúast upp í andhverfu sína -„Það er augljóslega eitthvað mikið að“

Fókus
Fimmtudaginn 11. ágúst 2022 12:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haraldur Erlendsson geðlæknir er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar og sá fyrsti eftir um árshlé hlaðvarpsins. Í viðtalinu segir Haraldur, sem er þrautreyndur geðlæknir,  mjög stóran hóp í vanda með geðheilsu eftir Covid tímabilið.

,,Það hefur margfaldast þörfin eftir geðheilsuaðstoð eftir Covid. Sumt fólk var mjög glatt að þurfa ekki að hitta fólk, en það er undantekningin. Við þurfum að vera úti, að hreyfa okkur og hitta fólk. Án þess er heilsan bara ekki í góðu lagi. Við á vesturlöndum erum upp til hópa orðin mjög aftengd og ef við einangrum okkur enn meira er bara voðinn vís. Það er bæði merkingarleysi, skortur á tengslum við náttúru og annað fólk sem býr til stóran hluta geðrænna kvilla nútímans. Vaxandi félagsleg einangrun er orðin stórt vandamál hjá okkur og við vitum hvaða áhrif það hefur á geðheilsu.”

Í þættinum ræða Haraldur og Sölvi meðal annars um trú og trúarbrögð. Haraldur er á því að kirkjan sé að ákveðnu marki týnd í gömlum textum.

,,Þetta eru menningarhefðir sem eru oft orðnar mjög lítið andlegar. Án þess að ég ætli að gagnrýna kirkjuna okkar of mikið, þá er hún fyrst og fremst orðin að félagsmálastofnun. Það er mjög gott að hafa samfélag þar sem fólk kemur saman, en þetta er mjög mikil trú á orðið og lítið farið ofan í dýptina. Lítið farið í að snerta persónulega þjáningu eða reyna að finna kyrrðina sem er handan við þjáninguna. Trúarlífið sjálft er oft orðið að aukaatriði, en aðalatriðið er eitthvað hjal upp í pontu um gamla texta. Prestarnir í guðfræðideildinni eru fyrst og fremst undirbúnir með ákveðinni ritskoðun. Þeir skoða textana, en eru mjög lítið uppteknir af trúarlegri reynslu. Enda er oft sagt að menn finni ekki trúnna í guðfræðideildinni, heldur missi hana þar,” segir Haraldur.

Fólk á stanslausum flótta undan sjálfu sér

Haraldur talar í þættinum um það hve mikill hraðinn er orðinn á vesturlöndum og hvernig það endar með því að fólk sé í raun á stanslausum flótta undan sjálfu sér.

,,Við erum upp til hópa alltaf að forðast að vera og dvelja. Við erum alltaf á ferðalagi frá einhverju en ekki með einhverju. Það er bara tími til að gera, en enginn tími til að vera. Við erum á hlaupum undan því sem er. Það að dvelja í tóminu getur verið mjög erfitt tímabundið, en það gefur þér innri styrk þegar þú æfir þig í því. Ef þú ert alltaf að hlaupa frá tóminu þá verður þú á endanum merkingarlaus aumingi!,” segir Haraldur, sem sér það líka í störfum sínum að oft á tíðum sé góðmennska nútímans búin að snúast upp í andhverfu sína:

,,Við erum komin mjög langt í góðmennsku, sem er yndislegt, en á sama tíma erum við að taka burt þrautseigju. Harkan sem var hérna á árum áður er náttúrulega bara illmennska ef hún gengur of langt, en að sama skapi er of mikil góðmennska bara meðvirkni. Við erum alltaf að leita að hinum gullna meðalvegi í þessu, en núna erum við komin ansi langt í að þurrka út þrautseigju og innri styrk í okkar samfélagi. Geðlæknar hitta oft núna fólk sem er komið á þrítugsaldur sem nánast fer ekki út úr herberginu sínu og er bara eins og það sé ennþá 12 ára. Það hefur enga þrautseigju eða tilgang og hefur aldrei orðið fullorðið. Ef þú gefur fólki aldrei erfiðleika eða eitthvað sem þýðir að það verður að standa í lappirnar endar það illa.”

,,Geðheilsuvandamálin í dag eru orðin svo stór og algeng að það er engin geðheilsuþjónusta sem mun nokkurn tíma ráða við að sinna því. Það er talið að vinnuframlag í þjóðfélaginu sé að meðaltali skert um 30% bara vegna geðrænna vandamála. Bið eftir geðlækni getur verið allt að 10 árum ef þú ert ekki með bráðavanda og vandamálin eru bara að aukast. Þannig að það er augljóst að við sem samfélag þurfum að ráðast í leiðir til að takast á við þetta á annan hátt. Það þarf að breyta kerfinu einhvern vegin á þann hátt að fleiri en bara hámenntaðir sérfræðingar geti aðstoðað fólk. Oft á tíðum eru bestu aðferðinar það einfaldar að ég kalla þær ,,idiot proof” og í raun geta mjög margir framkvæmt þær. Það er augljóslega eitthvað mikið að í því hvernig við lifum lífi okkar miðað það hve líkamlegri og geðrænni heilsu okkar er að hraka mikið og hratt.”

Mikill áhugi á andlegum málefnum

Haraldur, sem hefur átt þátt í að endurvekja Lífsspekifélagið, segir áhuga fólks á andlegum málefnum vera orðinn mjög mikinn, ekki síst vegna þess hve margir séu að upplifa tilgangsleysi og vanlíðan.

,,Kollegar mínir eru mjög umburðarlyndir í minn garð, en sumum þeirra finnst ég líklega vera hálfgerður vitleysingur að vera að vasast í andlegum málum. Guðspekifélagið, sem við köllum núna Lífsspekifélagið lognaðist nánast út af í fleiri fleiri ár, en nú líður fólki upp til hópa svo illa að áhuginn á andlegum málum er að verða mjög mikill. Nú erum við svo heppin að fólki líður nógu illa til að fara að spyrja spurninga og áhuginn er að verða gríðarlegur aftur.”

Faðir Haraldar rannsakaði mikið hvaða áhrif það hefur á fólk að komast í snertingu við dauðann. Fólk sem kemst í mikla lífshættu eða er jafnvel vakið upp frá dauðum eftir slys eða annað. Haraldur hefur sjálfur rannsakað það talsvert hvaða áhrif slíkt hefur á fólk:

,,Við þá reynslu að komast nálægt dauðanum öðlast fólk oft mikinn tilgang. Svokölluð nær dauða reynsla skilur fólk oft eftir gjörbreytt. Oft á tíðum hverfur hræðslan við dauðann og það kemur meiri tilangur og jafnvel einhvers konar unaður. Fólk byrjar oft að spyrja meiri spurninga en áður og jafnvel gjörbreytir lífi sínu í grundvallaratriðum. Við sem samfélag erum mjög hrædd við dauðann og það er nánast ,,taboo” að tala um hann, en margt bendir til að þeir sem sannarlega komast nálægt dauðanum sjái að við ættum ekki að vera á harðahlaupum undan honum.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Harald og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á www.solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Kyntröllið sem hvarf – Hvað varð um Brendan Fraser?

Kyntröllið sem hvarf – Hvað varð um Brendan Fraser?
Fókus
Í gær

Rakar sig ekki og notar ekki svitalyktareyði

Rakar sig ekki og notar ekki svitalyktareyði
Fókus
Í gær

Melkorka afhjúpaði karlmann sem sendi á hana óumbeðna typpamynd – „Þetta var nánast upp á hvern dag þegar ég var ljóshærð“

Melkorka afhjúpaði karlmann sem sendi á hana óumbeðna typpamynd – „Þetta var nánast upp á hvern dag þegar ég var ljóshærð“
Fókus
Í gær

Hannes Þór keypti réttinn að bók Stefáns Mána – „Aðdáendur lögreglumannsins hljóta að gleðjast“

Hannes Þór keypti réttinn að bók Stefáns Mána – „Aðdáendur lögreglumannsins hljóta að gleðjast“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Rýfur þögnina um orðróminn um hann og Khloé Kardashian

Rýfur þögnina um orðróminn um hann og Khloé Kardashian
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hafsteinn missti börnin sín: „Þetta var bara manndráp af gáleysi … Stjórnvöld einhverra hluta vegna leyfðu þessu að gerast“

Hafsteinn missti börnin sín: „Þetta var bara manndráp af gáleysi … Stjórnvöld einhverra hluta vegna leyfðu þessu að gerast“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lísbet Dögg hágrét þegar meintur gerandi sagðist ætla í sama skóla og hún – „Hann sagði að ég þyrfti að passa mig og ég missti það“

Lísbet Dögg hágrét þegar meintur gerandi sagðist ætla í sama skóla og hún – „Hann sagði að ég þyrfti að passa mig og ég missti það“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Harðlega gagnrýnd fyrir að birta nektarmyndir af sér og syni sínum

Harðlega gagnrýnd fyrir að birta nektarmyndir af sér og syni sínum