fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Örlögin gripu í taumana hjá Lilju – „Allt í einu sit ég í stólnum hans“

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 25. júní 2021 19:30

Lilja Katrín Gunnarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja Katrín Gunnarsdóttir kom sem stormsveipur inn í morgunútvarpið á Bylgjunni í vikunni þar sem hún sest tímabundið í stól Heimis Karlssonar í Bítinu. Lilja Katrín er annáluð fyrir hressleika og mikla uppátækjasemi. Við tókum hús á þessum nýja liðsmanni Bítisins.

Hvað kemur til að þú ert byrjuð í Bítinu?

„Ætli það hafi ekki verið örlögin sem gripu í taumana. Ég var búin að lauma því að Heimi Karlssyni í framhjáhlaupi að ég yrði geggjuð í útvarpinu. Svona í meiri gríni en alvöru. Heimir greip það á lofti og allt í einu sit ég í stólnum hans fyrir framan míkrafón og blaðra í beinni útsendingu fyrir landsmenn. Ég verð þá líklegast að titla Heimi sem örlagavald í mínu lífi. Hann fílar það örugglega í botn. Svo má ég ekki gleyma því að eiginmaður minn, hann Gummi, er svo mikill peppari í minn garð og færir fjöll svo ég geti látið mína drauma rætast. Hann stappar í mig stálinu og leyfir mér að skína. Hann er náttúrulega stærsti örlagavaldurinn og alltaf með mér í liði, í gegnum súrt og sætt.“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir í Bítinu í morgun.

Þú átt að baki langan fjölmiðlaferil en hefur þú unnið áður í útvarpi?

„Úff, þegar ég rifja upp að ég hafi verið í fjölmiðlum í nærri tvo áratugi þá líður mér eins og ég sé miklu eldri en ég er. Ég hóf ferilinn á Fréttablaðinu árið 2004, nánar tiltekið í fylgriti sem þá var og hét Birta. Starfsmenn Birtu voru eintómir snillingar og fengu klukkutíma á viku á Talstöðinni sálugu í Skaftahlíðinni, stöð sem Illugi Jökulsson átti veg og vanda að. Það er nú öll útvarpsreynslan. Ég hef nánast gert allt annað í fjölmiðlum; var með innslög í Íslandi í dag, ritstjóri Séð og Heyrt, pistlahöfundur í tímaritum, ritstjóri DV og vann líka á sjónvarpsstöðinni Sirkus hér í den. Útvarpið hefur alltaf heillað og verið blautur draumur hjá mér. Nú hefur sá draumur ræst, eftir allan þennan tíma.“

Hvað finnst þér mest spennandi við að vinna í útvarpi?

„Að vera á tánum, alltaf. Vera settur fyrir framan míkrafón í beinni og þurfa að standa sig. Engar afsakanir. Ekkert til að fela sig á bak við. Mér finnst þessi berskjöldun ákaflega heillandi, þó hún taki líka á taugarnar. Útvarpið er líka miðill sem stendur allt af sér, hvort sem það eru viðamiklar tækniframfarir eða kreppur, og á alltaf helling inni. Að sama skapi eru viðmælendur líka í beinni, ekkert ritskoðað og ýmislegt látið flakka. Útvarp grípur mómentið. Og mómentið getur oft verið ansi hressandi.“

Hvernig líst þér á að vera alltaf mætt svona snemma í útsendingu í sumar?

„Það hentar mér afskaplega vel. Yngsta barnið mitt er nýorðið sex ára og lýsi ég því sem brjáluðum snillingi. Barnið, hin yndislega Anna Alexía, hefur aldrei verið mikið fyrir svefn og því er ég alvön því að vakna fyrir allar aldir til að reyna að uppfylla allar hennar kröfur og tjúlluðu hugmyndir – allt frá því að útbúa litla verslun úr pappakassa svo hún geti gengið í hús í hverfinu og selt heimabakaðar pítsur og rabarbara, til þess að föndra ruglaða búninga sem engum öðrum en henni gæti dottið í hug. Ætli verði samt ekki erfitt að vakna á mánudaginn eftir helgina? Æi, framtíðar Lilja dílar við það!“

Félagar þínir í Bítinu hafa þegar lofað bökunarhæfileika þína eftir að þú mættir með bakkelsi fyrsta daginn. Heldurðu að þú eigir oft eftir að koma með heimabakað í vinnuna?

„Ég er stressbakari. Ég baka þegar að stressið í amstri dagsins verður of mikið. Bakstur er eins og hugleiðsla fyrir mig og því lá það alveg fyrir að ég myndi reyna að róa taugarnar kvöldið fyrir fyrstu útsendingu með bakstri. Ég efa það hins vegar stórlega að ég muni baka marga daga því þau Vala og Gulli eru þeim æðislega eiginleika gædd að láta mér líða vel, róa taugarnar og taka mér með opnum örmum. Því var ofurstressið fljótt að fara. Eftir situr kitl í maga og smá efasemdarpúki sem læðist stundum á öxlina, en ekkert sem ég get ekki yfirstigið. Ég held að mesta stressið hafi verið yfir því að ganga í hlutverk örlagavaldsins Heimis Karlssonar. Hann er náttúrulega hálfgerð þjóðargersemi og það olli mér miklum kvíða að ætla að reyna að koma í hans stað. Og ekki bara að koma í stað Heimis heldur að vera á móti annarri persónu sem Íslendingar elska og dá – honum Gulla. Ég vona bara að Bylgjuhlustendur geti tekið þessum breytingum, tekið mér eins og ég er með mínum kostum og göllum og haft það hugfast að eftir Verslunarmannahelgi falli allt í ljúfa löð og Gulli og Heimir sameinast á ný.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta