Erna Marín Kvist Baldursdóttir átti erfiða æsku sem lituð var af ofbeldi og röð áfalla. Erna ákvað ekki fyrir löngu að höfða dómsmál vegna þessa og sóttist því eftir því að fá öll gögn sem til voru á hennar nafni í kerfinu. Meðal skjala sem hún fékk voru athugasemdir frá sálfræðing sem hún fór til þegar hún var tólf ára gömul.
Erna Marín deildi broti af athugasemdunum inn í Facebook-hópinn Jákvæð Líkamsímynd og hafa yfir tvö hundruð manns brugðist við færslunni og lýst reiði sinni og andstyggð á orðum sálfræðingsins.
Sálfræðingurinn skrifaði: „Erna er stór, feitlagin, mjög grófgerð telpa. Hún er klunnaleg og sérkennilega klædd, döpur og inn í sig til að byrja með.“
Umrætt viðtal var 19. mars 1991 og segir Erna í samtali við DV að hún muni ennþá eftir því hvernig viðmót sálfræðingsins var. Hvað hún skrifaði var mjög lýsandi fyrir hegðun hennar gagnvart Ernu. „Ég man alveg eftir því hvernig hún var við mig, hún var svona við mig. Hún kom svona fram. Þannig ég opnaði mig ekkert mikið fyrir henni,“ segir hún.
Erna segir að þetta sé skaðleg hegðun af hálfu fagaðila vegna þess að það bitnar á sjálfsmynd og uppbyggingu viðkomandi og öllu ferlinu. „Hún brást mér. Skilaboðin voru að ég væri vandamálið, eða ekki þess virði að grípa inn í ofbeldið sem ég var beitt,“ segir hún.
Varpar ljósi á brengluð skilaboð
Erna Marín ákvað að deila þessu með hópnum í dag og segir að það hafi mikil áhrif á sjálfsmyndina og líkamsímynd að lenda í ofbeldi og áföllum.
Hún þróaði með sér átröskun nokkrum árum eftir umrætt viðtal. „Þá fékk ég mikið af hrósum og var álitin voða sæt og flott, fékk allt annað viðmót,“ segir hún.
Erna hafði samband við sálfræðinginn þegar hún fékk gögnin í hendurnar til að ræða málin en hún sagðist vera upptekin og ekkert meira varð úr því. Sálfræðingurinn er ekki lengur starfandi í dag.
Í dag er Erna Marín markþjálfi og hefur gert jákvæð samskipti að uppbyggingu að lífsstarfi sínu. „Ég vinn meðvitað að því að varpa ljósi á svona brengluð skilaboð og legg mikla áherslu á valdeflingu, uppgjör og að skila skömminni,“ segir hún.
Ert þú að verða fyrir ofbeldi? Smelltu hér fyrir upplýsingar hvar þú getur leitað þér hjálpar.