fbpx
Fimmtudagur 26.maí 2022
Fókus

„Það var eins og öll niðurlæging og vonbrigði undanfarinna vikna breyttust í risastórt kókaínfjall“

Fókus
Sunnudaginn 5. desember 2021 09:00

Grétarsson með nýju handleggina. Mynd/Brynjar Snær Þrastarson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Felix Grétarsson missti báða handleggi í skelfilegu slysi aðeins 25 ára gamall. Barátta hans hefst þó mun fyrr, því stór áföll hafa mætt honum frá fyrstu æviárum.
Í þroskasögunni 11.000 volt fá lesendur rafmagnaða rússíbanareið í gegnum líf Guðmundar Felix en vinna við bókina hófst fyrir átta árum þegar hann flutti til Lyon í Frakklandi og hóf bið sína eftir fyrstu tvöföldu handaágræðslunni í heiminum.

Hér má lesa brot úr bókinni og gripið er niður þar sem hann er nýbúinn að fá fyrstu gervihendurnar í Svíþjóð um aldamótin.

Þegar ég kom heim frá Svíþjóð var ég rosalega vongóður um að ég myndi ná tökum á að nota þessar hendur og síðan væri leiðin bara upp á við. Það hafði alltaf verið talað um þessa handleggi sem tímabundna lausn og ég myndi síðan alltaf fá fullkomnari og fullkomnari hendur. Ég varð einmitt fljótt pirraður á því hvað ég hafði takmörkuð not af þeim og hversu illa mér gekk að stjórna þeim. Það tók langan tíma að finnast þær vera hluti af mér en síðan urðu þær það sannarlega.

Í ágúst, eftir heilt ár á Reykjalundi, dró virkilega til tíðinda en ekki á þann hátt sem flestir höfðu vonast eftir. Dagarnir á undan höfðu reyndar verið heldur tíðindalitlir og mér hreinlega dauðleiddist. Það þurfti ekki meira til. Lyfin mín voru alltaf tekin til fyrir vikuna og sett í box með skammtahólfum og ég var nýkominn með vikuskammt af lyfjum þegar mér datt í hug að fá mér smá rúss með öllu þessu gotteríi og jafnvel stimpla mig út með bros á vör. Ég var orðinn mjög fær í að nota munninn og tunguna til að gera ýmsa hluti og það var því ekki mikið mál fyrir mig að opna boxið með kjaftinum og hvolfa úr því á borðið. Ég var löngu farinn að þekkja töflurnar í sundur og vissi hverjum þeirra væri fútt í þannig að ég flokkaði þær frá með tungunni, saug þær upp í munninn og skolaði niður með vatni sem ég þambaði með röri. Eftir þetta svaf ég samfleytt í tvo sólarhringa.

Þegar ég opnaði augun mættu mér áhyggjufull augu forstöðukonunnar á Reykjalundi. Hún spurði hvað mér hefði gengið til og hvort ég hefði ætlað að svipta mig lífi. Ég hélt nú ekki og sagðist bara hafa viljað ná smá „kikki“ út úr þessu boxi. Innst inni fann ég þó til ákveðinna vonbrigða yfir að hafa vaknað aftur. Til að taka fókusinn af þessari mislukkuðu tilraun til útstimplunar og koma í veg fyrir að enda á Kleppi samþykkti ég að fara í meðferð.

Ég var umsvifalaust sendur á sjúkrahúsið Vog. Venjuleg uppbygging á meðferð hjá SÁÁ er um tíu daga afeitrun á Vogi og svo fjögurra vikna eftirmeðferð. Ég var í mánuð á Vogi. Af skiljanlegum ástæðum er ekki gert ráð fyrir handalausum á meðferðarstofnunum. Hvorki starfsfólk né aðbúnaður bjóða upp á það. Þarna eyddi ég því mínum fjórum verstu vikum frá því að ég álpaðist upp í rangan staur.

Það að missa lúkurnar kemur í veg fyrir að maður geti sinnt ýmsum persónulegum þörfum eins og að matast eða nota salerni. Fram til þessa hafði það ekki verið tiltökumál innan um sérþjálfað hjúkrunarfólk og nána aðstandendur. En þarna inni var allt annað upp á teningnum. Starfsfólkið á Vogi hafði enga reynslu af umönnun á þessu stigi og ég fann fljótlega að því leið óþægilega við þessi verk sem svo aftur lét mér líða óþægilega. Þegar ég bað um aðstoð á salernið fékk ég tilsvör eins og „já, svo framarlega sem þú ert ekki að fara að skíta“, eins og það væri eitthvað valkvætt af minni hálfu.

Guðmundur Felix fékk gulu vegna skertrar lifrarstarfsemi. Aðsend mynd.

 

Inni á Vogi eru flestir í herbergjum með öðrum en fyrstu dagana eru menn oft settir í sérstakt sjúkraherbergi meðan ástand þeirra er sem viðkvæmast. Guli handalausi karlinn fékk þó að vera einn þar allan tímann. Ég komst fljótlega upp á lagið með að krækja buxunum mínum í nibbu á rúminu og draga þær niður. Þannig gat ég svo migið í vaskinn inni á herbergi og sparað mér frekari óþægindi. Ég gekk þó aldrei svo langt að reyna að skíta í hann.

Versta tilfellið kom þó þegar tvær eða þrjár vikur voru liðnar af meðferðinni. Þarna var ég; tuttugu og sex ára karlmaður án handa en með fulla kynorku. Einhverja nóttina hefur hugurinn tekið málin í sínar eigin „hendur“ og skellt í gott partí. Ég vaknaði svo með frjókorn lenda minna út um alla brók. „Guð minn góður,“ hugsaði ég. Ef þeim þykir mál að kljást við hversdagslegar salernisþarfir mínar, hvernig verður þetta þá?

Guðmundur Felix með gervihendur. Aðsend mynd

Skömmustulegur trítlaði ég inn á vakt og bað um aðstoð. Ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að koma orðum að þessu þannig að ég sagði að ég hefði lent í smá „náttúruspjöllum“ og þyrfti að komast í sturtu. Ung stúlka var send með mig inn á baðherbergið. Þegar hún svo dró niður um mig brókina og áttaði sig á hvers eðlis var fölnaði hún upp og labbaði út. Þarna stóð ég, að mér þótti í heila eilífð, með brækurnar niðri á hnjám og beið.

Einhverju síðar kemur karlkyns hjúkrunarfræðingur og smúlar mig í sturtunni.

Þó að margt gott hafi vissulega farið fram þarna á Vogi þá eyðilagði þessi fötlun mín vissulega mikið fyrir og kom í veg fyrir að ég gæti tekið fullan þátt í prógramminu. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór út úr stuðningsnetinu mínu og virkilega fann fyrir fötlun minni. Og það sem verra var; allt þetta gerðist í bullandi fráhvörfum.

Þegar ég útskrifaðist loksins leið mér ekki vel. Ég fann ennþá fyrir fráhvörfum af uppsöfnuðu læknadópinu. Ég minntist þess þegar ég hafði farið í fyrstu meðferðina átján ára hversu hátt uppi ég hafði verið og fullur af orku og bjartsýni. Það var svo sannarlega ekki raunin núna. Eyþór vinur minn úr Lambhaganum hafði verið edrú líka í einhverja mánuði og hann var duglegur að heimsækja mig og reyna að rífa eitthvað í sjálfsvorkunnarslæðuna sem ég hafði vafið mig inn í. Það var svo sannarlega gott að eiga góða að en ég hef líklega ekki verið eins góður fyrir hann og hann var fyrir mig.

Guðmundur Felix án handleggja. Aðsend mynd.

Á þessum tíma var ég búinn að fá einhverja fyrirframgreiðslu af fyrirhuguðum slysabótum og ég náði að telja Eyþór á að skella sér meðmér til London. Hugmyndin var ósköp saklaus og gekk bara út á að komast í nýtt umhverfi og út í lífið á ný. Eyþór er einn af þessum traustu vinum sem veigra sér ekki við að aðstoða mig í hverju því sem til fellur. Þegar við svo komum út leið ekki á löngu þar til við vorum dottnir í það. Það var eins og öll niðurlæging og vonbrigði undanfarinna vikna breyttust í risastórt kókaínfjall sem þyrfti að komast í nefið á mér hið allra fyrsta. Ég var gjörsamlega óseðjandi. Eyþór, sem sjálfur var veikur alkóhólisti með stuttan edrútíma, sogaðist með mér inn í þetta svarthol. Í örvæntingu sinni reyndi hann að halda í við sig og hafa eftirlit með fársjúkum æskuvini sínum sem virtist staðráðinn í að enda þetta allt saman. En þrátt fyrir veika lifur og veiklulegt holdafar þoldi ég ótrúlegt magn. Það var ekki inni í myndinni fyrir mig að stoppa.

Þegar kom að heimför keypti ég slatta af kókaíni sem ég hugsaði fyrir eigin neyslu og fékk Eyþór til að troða því inn í nýju gervihendurnar mínar. Þær voru holar að innan þannig að þetta var lítið mál.

 

Umsagnir um bókina:

„Þetta er marglaga frásögn um ótrúlegar áskoranir og átök í lífi hans. … Frásögnin er lituð af húmor og heiðarleika og er klárlega saga sem á eftir að gefa mörgum bæði kraft og von en er um leið skemmtilestur.“ Tolli Mortens, myndlistarmaður.

„Húmor Guðmundar skín í gegn en einnig sorgin og örvæntingin sem að gerði það að verkum að ég varð reglulega meyr við lesturinn. … Ég get ekki mælt nógsamlega með þessari bók.“ Björn Þorfinnsson, ritstjóri.

„Heillandi og mannbætandi saga. … Lifandi og skemmtileg frásögn sem rígheldur.“ Karen Kjartansdóttir, almannatengill og bókmenntafræðingur.

„Bókin er efnismikil, grípandi, stórfróðleg og afskaplega áhrifamikil. Hún dregur upp ógleymanlega mynd af persónunni Guðmundi Felix, þessum stórbrotna karakter sem er annars vegar svo breyskur og veikur og hins vegar svo óendanlega þrautseigur og bjartsýnn.“ Ágúst Borgþór Sverrisson, fréttastjóri.

Guðmundur Felix Grétarsson. Mynd/Brynjar Snær Þrastarson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Íþróttaálfurinn selur 343 fermetra hönnunarhöll

Íþróttaálfurinn selur 343 fermetra hönnunarhöll
Fókus
Fyrir 2 dögum

Matur&heimili: Hönnunarmars í aðalhlutverki í þætti kvöldsins

Matur&heimili: Hönnunarmars í aðalhlutverki í þætti kvöldsins
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sviðsetti rán á kærustunni í örvæntingarfullri von um kynlíf

Sviðsetti rán á kærustunni í örvæntingarfullri von um kynlíf
Fókus
Fyrir 2 dögum

Áhrifavaldurinn Camilla Rut greinir frá skilnaði í einlægri Instagram-færslu – „Búið ykkur undir single-mom content“

Áhrifavaldurinn Camilla Rut greinir frá skilnaði í einlægri Instagram-færslu – „Búið ykkur undir single-mom content“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Umdeild færsla Andrésar setti allt í uppnám á Twitter – „Hvaða rugl er þetta?“

Umdeild færsla Andrésar setti allt í uppnám á Twitter – „Hvaða rugl er þetta?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndasyrpa: LXS-dívurnar taka yfir Lundúnaborg

Myndasyrpa: LXS-dívurnar taka yfir Lundúnaborg