fbpx
Miðvikudagur 20.janúar 2021
Fókus

Völvuspá DV 2021 – „Það hefur átt sér stað hreinsun“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 9. janúar 2021 18:30

Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftirfarandi er brot úr Völvuspá DV 2021

Völva DV vill ekki láta nafns síns getið. „Ég verð að geta tjáð mig frjálst, þú skilur, án þess að fólk vilji mér illt. Ljósið er ekki alltaf allsráðandi,“ segir hún og leggur spilin á borðið.

„Ég nota bæði spil og innsæið til þess að fá svör við spurningum þínum,“ segir hún og horfir fast á blaðamann. Bandar svo frá sér. „Svona, vertu ekki fyrir mér, segir hún og bendir á stól hinum megin í myrkvuðu herberginu. Hún er á óræðum aldri, með sítt, óstýrilátt sítt hár og frá henni streymir kynngimögnuð orka en um leið er eitthvað sem gefur til kynna að hún láti ekki segja sér hvað henni finnst. Hún er sinn eigin herra. Og minn næstu klukkustundirnar.

Blaðamaður sest á stólinn sem hún bendir á og dregur sig í hlé. Við gefum hinu óútskýrða og dulmagnaða orðið.

„Hér í byrjun árs kemur fram einhver ólga í Heklu. Jörðin titrar og dýrin á túnum eru á flótta, óttaslegin. Í febrúarbyrjun sér íslenska þjóðin loksins að það birtir sannarlega til. Við höldum einbeitt áfram og horfum fram á við. En það eru einhverjir erfiðleikar sem koma hér fram á leið okkar, en það sem er skýrt hér er þetta bjarta upphaf.

Nýjar áskoranir sem þjóðin tekst á við og hjálpin berst úr óvæntri átt, myndi ég halda – við sjáum fyrir lok faraldursins – við erum með raunhæfa áætlun. Veiran mun samt fylgja okkur áfram út veturinn. Það verður holóttur vegurinn í átt að hjarðónæmi. Ég sé fram á nokkra bið eftir nægjanlegum skömmtum, en á sama tíma finnst mér glitta í mikinn liðsstyrk. Það er þó ekki hann Kári okkar Stefánsson? En seinni hluti ársins verður okkur auðveldari og ég sé fram á að margir Íslendingar nái að ferðast út fyrir landsteinana með haustinu.”

Völva DV rýnir inn í það sem framundan er á árinu 2021.

Ferðaþjónustan

Ferðaþjónustan okkar hefur staðið í ströngu. Það fer að birta í þeim geira með sumrinu en ég sé líka mörg fyrirtækjanöfn sem þurfa að skella í lás. Úrræði stjórnvalda fyrir atvinnugreinina munu áfram sæta gagnrýni og ég sé hana eflast nokkuð á fyrstu mánuðum ársins. Hér er einnig sterk kona með veglegar tengingar í viðskiptalífið. Hún er hér til að bera þjóðina yfir erfiða hjalla. Ný útkoma. Hér er tækifæri sem blasir við okkur og talan sjö birtist hér. Við höldum ótrauð áfram og gerum það sem við byrjuðum á að vinna að í ársbyrjun. Hjól atvinnulífsins byrja loksins að snúast. Ferðamenn koma hingað í enn meira mæli en áður í júlí, ágúst og september, þar sem við tökum á móti erlendum gestum á annan máta en áður. Ný hugmynd skilar sér vel hér.

Síðustu þrír mánuðir ársins sýna að allt sem við höfum unnið að þegar kemur að ferðaiðnaðinum þá gerum við hér áherslubreytingar og mikill árangur næst. Jú, einhver hópur birtist hér sem öskrar hátt og gagnrýnir þessar nýju aðferðir landans þegar kemur að ferðamönnum. Neikvæðnin nær alltaf athygli en þessi hópur fær ekki hljómgrunn.

Nýjungar koma hér fram þegar ferðaþjónustan er annars vegar. Menn byrja að hugsa út fyrir kassann og skapa tækifæri í kreppunni. Við drögum heiminn bókstaflega til okkar. Allt er til staðar hér. Við erum með öll verkfærin og vættir landsins sjá um okkur og vernda og milda höggið af faraldrinum.

Mikið púður verður lagt í landkynningu og þessi blessaða breska auglýsingastofa, ég skynja nokkra óánægju með hana og finnst eins og stjórnvöld sjái eftir ákvörðun sinni að ráða hana í verkið og ákveði að fela það innlendum aðila.

Farþegar á Keflavíkurflugvelli Mynd/Valli

Flugfélög

Hér er ekki að sjá að ný flugfélög bætist við árið fram undan. Icelandair blómstrar sem aldrei fyrr og stjórnendur fagna þegar haustar árið 2021. Hlutabréf í fyrirtækinu hækka. Sigurbogi birtist hér yfir flugfélaginu. Fögnuður mikill hér. Lærdómurinn hefur verið numinn. Hér er eins og Icelandair sé á sterum miðað við síðasta ár. Starfsmenn endurráðnir og jafnvægi næst. Ég sé samt einhverja örðugleika sem munu hafa áhrif á gengi hlutabréfanna til hins verra, en þó er þetta engin ástæða til að örvænta því mér sýnist ástandið vara stutt, enda menn þar á bæ snillingar í að rétta úr kútnum.

Ég sé nokkuð stóran starfsmannafögnuð þegar starfsemi flugfélagsins kemst aftur á fullt skrið eftir veirufaraldurinn, svo stóran að fjallað verður um hann í fjölmiðlum.

mynd/Anton Brink

Veitingahús

Hér er komið inn á erfiða stöðu veitingastaða í miðborg Reykjavíkur og nágrenni en hér birtir til og það er eins og frjór jarðvegurinn sé að skila góðri uppskeru þegar ágústmánuður árið 2021 líður undir lok. Kórónuveirufaraldur er hættur að lama samfélagið og það er eins og gjaldþrotin nái ekki yfir töluna tíu. Öll þessi tómu rými fyllast á ný í Reykjavík og hér er hröð uppbygging. Verslunargatan Laugavegur mun blómstra og Austurstræti iðar af lífi og gleði borgarbúa. Lundabúðirnar eru ekki eins smitandi og áður. Það hefur átt sér stað hreinsun. Ný verslun ýtir undir vinsældir Laugavegs.

Veitingarekstur í Perlunni lifir þetta af. Grillið deyr hinsvegar. Það hverfur af yfirborðinu eins og það hafi aldrei verið til.

Menntamál

Menntamál, skýrari samskipti í stað reiði, gagnrýni og ótta. Hér er talan fimm öflug þegar heildarmyndin er skoðuð. Nýjar leiðir í menntamálum fá hljómgrunn. Listir skipta þar sköpum.

Ástrík konan sem stendur hér fremst í flokki er með alla þjóðina á bak við sig sem traustur leiðtogi. Þessi nýi kafli byrjaði á nýju tungli 14. desember og núna erum við á leiðinni inn í nýja tíma. Þjóðin stendur saman. Regnboginn birtist hér yfir okkur.

Brottfall úr skólum er minna en búist var við í kjölfar aukinnar ásóknar í nám á COVID-tímum. Þó eru einstaklingar sem gefast upp.

Menntakerfið hefur tekið mikinn þroska eftir faraldurinn og ég sé spennandi, nýjar leiðir kynntar í náminu sem mun auka aðsókn, einkum hjá fullorðnu fólki sem er nú þegar komið á vinnumarkaðinn.

Stafrænar lausnir spila þar stórt hlutverk og möguleikar í fjarnámi eflast gífurlega. Ég sé þó gagnrýnisraddir innan fræðasamfélagsins sem telja að slegið sé af árangurskröfum með þessu nýja fyrirkomulagi, en þessi ástríka kona sem ég minntist á áðan mun snúa þá gagnrýni niður eins og eins og hinn öflugasti MMA-kappi.

Erfiðleikar

Myrk teikn eru á lofti í andlegum málefnum þjóðarinnar í byrjun nýs árs. Þunglyndi, atvinnuleysi, einangrun og fátækt liggja þungt á landanum.

Sjálfsvíg hér á landi verða allt of mörg. Hér er einn tugur mér greinilega sýndur á árinu fram undan þar sem Íslendingar og tveir aðfluttir útlendingar taka eigið líf. Hér vil ég stoppa stutt við. Hræðilegt að sjá þetta.”

Völvan þagnar stundarkorn og fær sér sopa úr dökkum leirbolla með óræðu innihaldi. Hendur hennar skjálfa.

„Alveg hræðilegt, en þetta mun leiða til enn frekari vitundarvakningar og stjórnvöld munu finna fyrir miklum þrýstingi að veita fjármagni í sálfræðiþjónustu á næstu fjárlögum. Svo það er víst ljósið í myrkrinu, þótt við kærum okkur fæst um að bíða lengur eftir úrbótum.

Könnun meðal unga fólksins í framhaldsskólum og efstu bekkjum grunnskóla mun valda áhyggjum, en hún mun sýna fram aukna nikótínneyslu ungmenna. Vegna þessa verður farið í lagabreytingar og sérstakt átak til að spyrna við þessari þróun. Ég sé rafrettur ná auknum vinsældum á kostnað nikótínpúðanna. Ég sé mörg stór fíkniefnamál á komandi ári og munu þau í auknum mæli varða innlenda framleiðslu, enda áttu fíkniefnasalar erfitt með að anna eftirspurn í faraldrinum sem gerði það erfiðara að flytja hingað inn efni. Ég sé mál koma upp sem varðar mikil veikindi meðal þeirra sem neyta efna sem hafa verið framleidd innanlands. Alvarleg veikindi þar sem nokkrir þurfa að leggjast inn á sjúkrahús og einn tapar lífinu.

Kári Stefánsson

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar mun blómstra á árinu 2021. Hann heldur áfram að vera áberandi í sviðsljósinu fyrri hluta næsta árs, en með sumrinu sé ég hann draga sig í hlé og einbeita sér að fjölskyldunni og skrifum. Hann vill skilja eftir sig meira á prenti. Fyrirtæki hans mun standa að nokkrum athyglisverðum rannsóknum sem tengjast COVID sem verður tekið eftir og vitnað í um allan heim. En ég sé líka mikinn þunga yfir honum. Þunga sem líklega er þreyta. Undir lok næsta árs verður Kári sestur í helgan stein eða farinn að hugsa um það af verulegri alvöru. Ég skynja að hann sé nú þegar farinn að leita af arftaka sínum, þó tilhugsunin um að láta barn sitt, Íslenska erfðagreiningu, í hendur einhvers annars sé erfið.

Skemmtanalíf

Daði og Gagnamagnið taka Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og pakka henni saman. Daði verður sterk landkynning en því miður sigrum við ekki þetta árið heldur náum í þriðja sinn í annað sætið á keppninni. Enda er það hinn íslenski sigur þar sem fæstir kæra sig um þau útgjöld sem fylgja því að halda Eurovision-keppnina hér á landi, auk þess yrði allt of mikið af túristum á landinu og við rétt að venjast því að eiga miðborgina aftur fyrir okkur. Daði sigrar hins vegar því hans stjarna skín skært í Bandaríkjunum þetta árið.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verður sú allra veglegasta í ár. Landsmenn flykkjast á útihátíðina sem fer fram um Verslunarmannahelgina. Fjölmenni verður óvenju mikið og því miður sé ég nokkur alvarleg brot koma upp á hátíðinni, bæði ofbeldis- og fíkniefna. Í aðdraganda hátíðarinnar verður lögreglan í Vestmannaeyjum fyrir mikilli gagnrýni og háværar áskoranir berast frá nokkrum baráttuhópum um að blása hátíðina alfarið af.

Það verður rækilega fagnað í mars þegar skemmtistaðir mega aftur hafa opið fram eftir nóttu. Jafnvel of mikið fagnað og mun lögregla standa í ströngu við að eiga við drykkjulæti í miðborginni. Ástandið varir þó stutt og margir munu áfram tileinka sér COVID-siðinn að fara snemma út og koma heim snemma.”

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslenskar stjörnur á vinsælli fótasíðu – Baráttan um efsta sætið hnífjöfn

Íslenskar stjörnur á vinsælli fótasíðu – Baráttan um efsta sætið hnífjöfn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Manstu eftir ítalska kyntröllinu Fabio? – Svona lítur hann út í dag

Manstu eftir ítalska kyntröllinu Fabio? – Svona lítur hann út í dag