fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Hugur Sigga reikar aldrei til Hollywood – Útilokar ekki endurkomu með Spaugstofugenginu: „Það er aldrei að vita hverju við tökum upp á”

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 7. mars 2020 12:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Sigurjónsson, eða Siggi Sigurjóns, er einn ástsælasti leikari þjóðarinnar. Spaugstofustimpillinn er vafalaust einn sá langlífasti á ferli Sigga en árið 1985 spratt fyrsti vísir Spaugstofunnar. Siggi var þá að leikstýra áramótaskaupinu og komst í fyrsta sinn í kynni við Karl Ágúst Úlfsson.

„Ég fann strax hvað við áttum vel saman, en við vorum valdir saman félagarnir fimm fyrir hálfgerða tilviljun. Fyrsti þáttur Spaugstofunnar kom svo út 1989. Fram að þeim tíma hafði grín í íslensku sjónvarpi verið á öðru plani þar sem ekki þótti til siðs að gera grín að forseta eða biskupi en þarna færðum við mörkin aðeins. Grín er auðvitað breytingum háð og breytist daglega með Netinu og öllu því, þó í grunninn breytist það ekki. Auðvitað eldist maður og hefur ekki smekk fyrir sama gríni, en það er líka allt í lagi, við þurfum ekkert öll að fíla það sama. Að mínu mati á allt grín rétt á sér svo framarlega sem það er á gráu svæði og ögrandi en það má ekki vera ósmekklegt – það þarf samt helst að vera fyndið svo það virki. Við í Spaugstofunni höfum unnið mjög náið í langan tíma og erum í dag algjörlega frábær fjölskylda. Það hefur aldrei slitnað slefið á milli okkar og ég fullyrði að það muni ekki gera það. Við vinnum alltaf annað slagið saman, tveir eða þrír, og hittumst alltaf í morgunkaffi einu sinni í viku eins og gamlir menn gera. Það gefur okkur mikið og við erum ansi sperrtir – það er aldrei að vita hverju við tökum upp á.“

Mynd: Eyþór Árnason

Aðspurður hvort aðdáendur megi gera sér vonir um endurkomu gengisins segir Siggi að fæst orð beri minnsta ábyrgð og glottir í kampinn.

„Það er ýmislegt verið að hugsa og bralla, við nennum ekkert að hætta. Spaugstofan kemur held ég aldrei aftur, en það er engu að síður enn bensín á tankinum. Við höfum aldrei deilt okkar á milli sem er alveg einstakt í svona löngu samstarfi, þrátt fyrir að vera allir mjög ólíkir. Það er einhver kemistría á milli sem límir okkur saman og í dag eru fjölskyldur okkar jafnframt mjög nánar, svo þegar maður horfir í baksýnisspegilinn sér maður að þetta er auðvitað svolítið sérstakt allt saman.“

Leikhúsið lifir allt af
Siggi hefur samhliða leik starfað talsvert við leikstjórn og sett til að mynda upp fjöldann allan af barnasýningum. Hann segir leikstjórnina þó ekki vera ástríðu hans.

„Ég er fyrst og fremst leikari, þótt ég hafi mjög gaman af því að leikstýra því sem hentar mér og mér finnst að ég ráði við. Það er alveg frábært að leikstýra börnum en tekur auðvitað á þolinmæðina, það vill til að ég hef hana. Ég er ekkert að leikstýra í augnablikinu en leik mikið þótt ég sé nú ekki tvítugur lengur. Að mínu mati er svo mikilvægt að hafa, ekkert endilega mig, en leikara sem eru í eldri flokki og eru í leikrænu ástandi. Ég held að hver þjóð þurfi að passa upp á það. Þú vilt eiga nokkrar gamlar kerlingar og karla á sviðinu sem enn eru í formi. Það sem hefur bjargað mér er hvað ég hef fengist við margar rullur sem láta mig fást við mikið líkamlegt „action“, það hefur svona verið mín líkamsrækt.“

Aðspurður hvort það sé ávanabindandi að láta klappa fyrir sér á hverju kvöldi segir Siggi svo ekki vera.

„Ég upplifi það ekki þannig en auðvitað nýtur maður þess að það hafi tekist vel til og þakkar fyrir það. Mér þykir afskaplega vænt um það hvað fólk elskar leikhús og er duglegt að sækja leikhúsið. Þess vegna eru ákveðin forréttindi að vinna við það sem manni finnst svona gaman. Leikhúsið breytist auðvitað og fer í gegnum hæðir og lægðir, ferðast í gegnum tískusveiflur og allt það. Þetta er háð svo mörgu en það sem er merkilegast, hvað sem má segja um gæði leikhússins, er það að leikhúsið hefur lifað allt af, hvort sem það er vídeó, sjónvarp, kvikmyndir eða internet. Alltaf stendur Þjóðleikhúsið, og öll leikhús í heiminum, og við erum að gera nákvæmlega sömu hlutina uppi á sviði. Samt er þessi ógnartæknibylting fyrir utan – það er alveg merkilegt. Sjálfum finnst mér í grunninn bara gaman að segja góða sögu, hvort sem hún er á sviði eða hvíta tjaldinu. Auðvitað eru önnur vinnubrögð við kvikmyndagerð en í grunninn er þetta nákvæmlega það sama. Hvernig segjum við þessa sögu á sem áhrifaríkastan hátt. Í leikhúsinu hugsum við það aldrei sem svo að við séum að segja sömu söguna aftur og aftur því þótt þú vitir hvað þú eigir að segja eru alltaf nýir áhorfendur í salnum, þeir eru svo stór partur af þessu. Við vitum aldrei hver viðbrögðin verða, svo kvöldið verður aldrei eins. Það er hlegið meira eða grátið minna og það þarf alltaf að spila með þetta, þannig að þótt sagan sé sú sama segjum við hana alltaf á ólíkan hátt.“

Mynd: Eyþór Árnason

Hefur hugurinn aldrei reikað til Hollywood?

„Nei, ég hugsa aldrei þangað. Ég hef verið svo heppinn að fá að leika mikið hér á landi, bæði á sviði og í sjónvarpi að það fullnægir mér alveg. Tilhugsunin um að verða frægur í Hollywood hefur aldrei náð til mín. Eflaust eru meiri peningar þar, en ég fæ fullnægju í að leika hér heima. Lífið er þó ekki bara í leikhúsinu því það er líka suður í Hafnarfirði með barnabörnunum mínum. Mér finnst svo gott að vera með fólkinu mínu. Maður fer kannski hægar yfir, en ég er mikill útiverumaður, elska að ferðast um landið, er sprækur og spila golf, bara þetta klassíska eins og allir hinir strákarnir og stelpurnar.“

Þetta er hluti af stærra viðtali við Sigga úr nýjasta helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“