fbpx
Mánudagur 09.september 2024
Fókus

Sakamál: Konan sem hvarf og fannst í gegnum Google Maps

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 12. desember 2020 20:30

Maribel Ramos hvarf vorið 2013. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lífið brosti við hinni 36 ára gömlu Maribel Ramos þegar hún hvarf sporlaust vorið 2013. Sagan gerist í Orange-sýslu í Kaliforníu. Þar hafði Maribel alist upp í fátækri fjölskyldu mexíkóskra innflytjenda. Hún skráði sig í herinn árið 2001 og þjónaði síðar á átakasvæðum í Írak. Maribel vann sig upp í stöðu liðþjálfa en lauk herþjónustu árið 2009.

Hún þjáðist af áfallastreituröskun í kjölfar herþjónustunnar. En hún var staðráðin í að koma lífi sínu í lag og stefndi á störf innan lögreglunnar. Þar kom háskólagráða sér vel og hún skráði sig í Kaliforníuháskóla. Hún átti skammt eftir í útskrift þegar hún hvarf.

Maribel leigði tveggja svefnherbergja íbúð í Orange City en meðleigjandi hennar var kínverskur maður á sextugsaldri, Kwan Chol Joy, ávallt kallaður KC Joy. Þau voru nánir vinir og það var KC sem tilkynnti um hvarf hennar til lögreglu og var hann mjög áhyggjufullur. Sólarhring síðar hafði lögregla lýst eftir Maribel og fjölskylda hennar dreifði flugritum með mynd af henni.

Síðast sást til hennar hjá leigusalanum

Maribel hafði horfið sporlaust. Engar myndir fundust til dæmis af henni í eftirlitsmyndavélum eftir 2. maí. Haft var samband við fjölda fólks sem þekkti til hennar og enginn vissi hvar hún hélt sig. Síminn hennar og bíllyklar voru horfnir en bíllinn var fyrir utan heimili hennar. Inni í íbúðinni var handtaska hennar og seðlaveski.

Eftirlitsmyndavél sýndi Maribel fyrir utan skrifstofu framkvæmdastjóra fjölbýlishússins þar sem hún bjó en hún var að borga leiguna. Þetta var að kvöldi 2. maí 2013, laust eftir kl. 20. Eftir þetta sást ekki til hennar. Það furðulega var að hún var svo léttklædd á myndbandinu að erfitt var að sjá fyrir sér að hún væri að fara að heiman. En það virtist hún hafa gert.

Meðleigjandinn KC Joy var mjög samvinnufús við lögreglu og áhugasamur um að hún leysti málið. Hann veitti lögreglu greiðlega leitarheimild í íbúðinni og lét af hendi snjallsíma sinn og fartölvu. Ekkert grunsamlegt fannst í íbúðinni eða tölvubúnaði í eigu KC.

Maribel hafði oft hringt í neyðarlínuna

Kærasti Maribel hét Paul Lopez. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði hann að samband þeirra hefði ekki verið mjög alvarlegt. Þau væru að deita en hann hitti líka aðrar konur. Síðar kom í ljós að Maribel hitti nokkra aðra menn og kvöldið 8. maí, fimm dögum eftir að hún hvarf, átti hún stefnumót við annan mann. Yfirheyrslur yfir honum og Paul Lopez leiddu í ljós að þeir höfðu báðir fjarvistarsönnun fyrir kvöldið sem Maribel hvarf.

Tíð símtöl Maribel í neyðarlínuna 911 vörpuðu grun á meðleigjanda hennar, KC Joy. Hún hafði hringt alloft, sagt að ekki væri um neyðartilvik að ræða, en hún væri hugsanlega í hættu. Henni var mikið í mun að símtölin væru hljóðrituð og upptökur geymdar, sem er vaninn hjá neyðarlínunni. Hún sagði að ef eitthvað alvarlegt kæmi fyrir væri mikilvægt að hafa í huga að hún hefði verið að verja líf sitt. Lét hún að því liggja að komið gæti til hættulegra átaka milli sín og vinar hennar og hún gæti gert honum mein.

Maðurinn sem hún var að ræða um var KC Joy og hún nafngreindi hann. Kom í ljós að vaxandi ágreiningur hafði verið milli þeirra. KC hafði misst vinnuna og gat ekki staðið í skilum með sinn hluta leigunnar. Vildi Maribel þess vegna að hann flytti út. KC var ástfanginn af Maribel og vildi að samband þeirra þróaðist úr vináttusambandi yfir í ástarsamband. Hún sagði að hann væri of gamall fyrir hana.

KC og Maribel voru nánir vinir. Mynd: Yelp

Netnotkun kom upp um hann

Lögregla yfirheyrði KC nú af meiri hörku en áður en hann neitaði að eiga nokkurn hlut í hvarfi Maribel. Engin sönnunargögn gegn KC fundust og ekki var hægt að handtaka hann.

Náin vinkona Maribel, Emily C, birti tilkynningu á vefnum Yelp.com þar sem hún lýsti eftir vinkonu sinni og skildi eftir símanúmer foreldra hennar fyrir hvern þann sem gæti búið yfir upplýsingum um afdrif Maribel. Þetta var nokkuð sérkennilegt þar sem umræddur vefur snýst aðallega um veitingahúsarýni. Enn skrýtnara var þó hvernig KC blandaði sér í umræðurnar. Hann lýsti með hástemmdum og hjartnæmum hætti vináttu sinni og Maribel, að hann myndi fórna lífi sínu fyrir hana og að hann hefði gert hana að arfþega að líftryggingu sinni.

Aðrir þátttakendur í umræðunum töldu grunsamlegt að KC talaði um Maribel í þátíð og þeim þótti hann veita óviðeigandi upplýsingar um vináttu þeirra og samskipti.

Lögregla fylgdist nú náið með ferðum KC og sá að hann var daglegur gestur á almenningsbókasafni. Hann notaði tölvur safnsins en hans eigin tölva var hjá lögreglunni. Lögregla fékk heimild til að fylgjast rafrænt með tölvunotkun KC á safninu. Kom þá í ljós að hann var sífellt að fara inn á svæði á Google Maps sem var utan við þjóðveginn, ekki langt frá Orange City.

Lögreglan fór á þetta svæði og fann þar líkamsleifar Maribel í grunnri gröf. Þær voru það mikið rotnaðar að ekki var hægt að kveða upp úr um dánarorsök hennar.

En KC Joy var ákærður fyrir morðið á Maribel Ramos og var réttað yfir honum árið 2014. Hann neitaði staðfastlega sök og engin bein sönnunargögn tengdu hann við morðið. En sú staðreynd að hann hafði gúgglað í sífellu svæði þar sem líkið af Maribel fannst var kviðdómi nægileg til að sakfella hann. Var KC Joy fundinn sekur um morð af annarri gráðu dæmdur í 15 ára til ævilangs fangelsis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fær borgað fyrir að borða – Opnar sig um skuggahliðarnar

Fær borgað fyrir að borða – Opnar sig um skuggahliðarnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórleikari hótaði að berja mann og annan um síðustu helgi

Stórleikari hótaði að berja mann og annan um síðustu helgi