fbpx
Þriðjudagur 11.ágúst 2020
Fókus

Hugmynd að hamingjuleit spratt upp í prófalestri

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 8. september 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórhildur Magnúsdóttir hafði lengi velt fyrir sér andlegri líðan en hún hefur haldið fjölda fyrirlestra um naumhyggju lífsstíl. Í beinu framhaldi varð núvitund og leitin að hamingjunni henni hugleikin og hún stendur nú fyrir námskeiði sem einblínir á hamingjuna. Námskeiðið hefst þann 12. september og heldur Þórhildur það ásamt vinkonu sinni, Ernu Geirsdóttur.

Áður hafði Þórhildur stofnað hópinn: Áhugafólk um mínimalískan lífsstíl, þar sem hún vakti athygli á leiðum til að einfalda fólki lífið. Hópurinn vakti umtalsverða athygli og í kjölfarið flutti hún fyrirlestra víðs vegar um borgina en þeir fjölluðu allir um naumhyggju lífsstíl. „Þetta var árið 2015 og umræðan um mínimalískan lífsstíl mjög hávær. Með tímanum fann ég hvernig fókusinn minn fór að færast meira yfir á núvitund og síðan hamingju sem útskýrir á einhvern hátt af hverju ég fór að læra hagfræði.“

„Mig langar að skilja betur hvernig samfélög geta haft áhrif á vellíðan fólks og hvernig hægt er að auka hana, meðal annars með því að halda námskeið um hamingju.“

Hugmyndin að námskeiðinu kviknaði þegar Þórhildur var í óða önn að læra undir próf í þjóðhagfræði en hluti af námsefninu var fyrirlestur sem nefndist Hagfræði hamingjunnar og var fluttur af Richard Layard. „Hann fjallaði um góðgerðasamtök sem vinna að því að auka hamingju í heiminum. Eitt af því sem samtökin gera er að halda námskeið sem fræðir þátttakendur um hamingju og hvetur til þess að fólk taki skref í sínu lífi til að auka hana. Áhugi minn var þegar vakinn og mig langaði að skrá mig á svona námskeið. Vandamálið var bara að þau voru ekki boði hér á landi. Þetta er uppsett þannig að sjálfboðaliðar taka að sér að halda þessi námskeið í sínu heimalandi og eftir örstutta umhugsun ákvað ég að slá til og gera þetta bara sjálf. Í kjölfarið hafði ég samband við Ernu og bað hana um að halda námskeiðið með mér. Hún var ekki lengi að slá til og segja já við því. Hún er menntuð í lögfræði en þetta er í fyrsta skipti sem hún heldur fyrirlestur um hamingju. Hún hefur þó lengi stúderað mínimalisma eins og ég ásamt því að stunda hugleiðslu af miklum krafti svo hún var vel til þess fallinn,“ segir Þórhildur og heldur áfram.

„Það sem heillaði mig sérstaklega við þetta námskeið er að námsefnið byggir á niðurstöðum rannsókna um með hvaða hætti við getum haft áhrif á eigin líðan.“

„Þetta er því einstakt tækifæri til að kafa dýpra ofan í hamingju okkar því þótt hún skipti okkur öll máli er hún sjaldnast til umræðu hjá flestu fólki. Staðreyndin er samt sú að við höfum mikið vald yfir henni sjálf og það er vísindalega sannað. Þess vegna finnst okkur tilvalið að fræðast betur og gera lífið í kjölfarið miklu betra.“

Mynd: Eyþór Árnason

Greiðsla valfrjáls

Námskeiðið er haldið einu sinni í viku, tvo tíma í senn, en það stendur yfir í átta vikur. „Það verður haldið í Andrými á Bergþórugötu og í hverri viku vinnum við með eitthvað eitt þema sem skiptir máli fyrir hamingju okkar. Við horfum á fimmtán mínútna fræðsluerindi og svo fylgja umræður á eftir þar sem hvert okkar finnur út hvernig okkar líf er og hvað við getum bætt í því. Þannig munum við á þessum átta vikum reyna að koma okkur upp nýjum venjum sem munu vonandi skila sér í betri líðan og meiri hamingju.“

Athygli vekur að greiðsla fyrir námskeiðið er valfrjáls en þær stöllur taka engin laun fyrir námskeiðið. „Við áætlum að kostnaður fyrir hvern þátttakanda nemi um fjórtán þúsund krónum og við vonumst til að fólk greiði þann kostnað en fyrir þá sem ekki sjá sér fært að borga er frjálst að láta af hendi rakna það sem hægt er.

„Við fáum ekki greitt fyrir að halda námskeiðið heldur gerum við það í sjálfboðastarfi. Við erum auðvitað fyrst og fremst að þessu til að styrkja okkar eigin hamingju.“

Ekki peningar, frægð og frami

„Hugmyndin spratt frá góðgerðasamtökunum Action for Happiness en þau eru fjármögnuð með styrkjum. Námskeiðið er haldið í gegnum þau og byggir á niðurstöðum úr rannsóknum á hamingju og er markmið þess að hvetja fólk til að gera meira af því sem vitað er að gefur fólki sanna lífsfyllingu „ og það er ekki peningar, frægð og frami!“

Þegar talið berst að íslensku samfélagi og hvað megi þar betur fara nefnir Þórhildur fyrst og fremst mikilvægi þess að fókusa á aðra þætti en þá efnislegu. „Við verðum að leggja ríkari áherslu á aðra þætti en efnisleg gæði í lífinu. Það er mjög auðvelt að berast með straumnum á samfélagsmiðlunum eða öðru ytra áreiti og upplifa skort vegna þess að okkur finnst við ekki hafa það jafn gott og næsti maður. Við tölum oft um unglingana í þessu samhengi en mín upplifun er sú að þessi þróun hafi ekki síður áhrif á okkur fullorðna fólkið. Ég tel því að okkur sé öllum hollt að líta inn á við og spyrja okkur hvað það sé raunverulega sem skipti okkur máli. Ég held að við getum öll verið sammála um að efnisleg gæði umfram það sem nauðsynlegt er til að hafa í sig og á séu ekki það sem geri okkur hamingjusöm. Að sama skapi held ég að of fáir hafi raunverulegt gefið sér tíma til þess að velta því fyrir sér hvaða þættir það eru sem veita þeim raunverulega hamingju og hvernig þeir geti sjálfir haft áhrif á og jafnvel stýrt sinni líðan.“

Fyrir áhugasama eru enn nokkur sæti laus á námskeiðið en frekari upplýsingar er að finna á heimasíðunni: https://www.eventbrite.co.uk/e/the-action-for-happiness-course-reykjavik-12-sep-2019-tickets-64963083331?aff=ebdssbdestsearch

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 4 dögum

Hrafnhildur Gunnars: Áður fyrr óhugsandi að tvær lesbíur og tveir hommar myndu eignast barn saman

Hrafnhildur Gunnars: Áður fyrr óhugsandi að tvær lesbíur og tveir hommar myndu eignast barn saman
Fókus
Fyrir 4 dögum

Góður undirbúningur skilar sér í vel heppnaðri útilegu

Góður undirbúningur skilar sér í vel heppnaðri útilegu
Fókus
Fyrir 6 dögum

Óttaðist að enda sem versta martröð súkkulaðinuddarans

Óttaðist að enda sem versta martröð súkkulaðinuddarans
Fókus
Fyrir 6 dögum

„Ok svo þið vitið það fyrirfram þá er ég að stela hugmyndum af…“

„Ok svo þið vitið það fyrirfram þá er ég að stela hugmyndum af…“
Fyrir 1 viku

Dóttir mín er alltaf í iPadnum

Dóttir mín er alltaf í iPadnum
Fókus
Fyrir 1 viku

Ég var alltaf að fresta hlutum því allt yrði betra þegar ég yrði grönn

Ég var alltaf að fresta hlutum því allt yrði betra þegar ég yrði grönn