fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Fókus

Tannlæknir heldur tónleika – Minnkar lætin í tannlæknabornum með söng

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 21. maí 2019 15:00

Kristín syngur lög Noruh Jones.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það sem heillar mig við hana, fyrir utan hvað hún er ljúf og notaleg, er hvað hún syngur frá hjartanu. Í henni er einhver dýpt sem ég tengi við og fíla. Það væri kannski hægt að halda að lögin hennar séu ekki krefjandi en það er lúmsk áskorun í að finna sína eigin tengingu við lögin og gera þau áhugaverð,“ segir söngkonan og tannlæknirinn Kristín Stefánsdóttir. Kristín hefur vakið talsverða athygli síðustu ár fyrir að brydda reglulega upp á tónleikum þar sem hún syngur lög frægra listamanna. Nú er komið að Kristínu að syngja lög Noruh Jones í Bæjarbíói, en tónleikar sem þessir krefjast mikils undirbúnings og stífra æfinga.

„Ég er búin að vera að pæla í henni í nokkra mánuði og er bara mjög sátt við stefnuna sem lögin tóku. Hlynur Þór Agnarsson, píanóleikari útsetti lögin og við ásamt þessu frábæra bandi höfum við alveg fundið okkar takt í lögunum en verðum henni samt trú, svo þetta verður áhugaverð blanda.“

Komst inn í söngskóla með lagi Noruh

Kristín segir að lög Noruh Jones hafi lengi átt sérstakan sess í hjarta hennar, eða allt frá því söngkonan kom fram á sjónarsviðið rétt eftir aldamótin 2000.

„Ég á margar góðar minningar við þessi lög. Ég og dóttir mín hlustuðum á sum af þessum lögum endalaust og það er gaman að rifja upp þá tíma. Einnig var ég á þessum árum að byrja að sinna þessari söngástríðu minni og söng Turn me on í inntökuprófi við söngskólann sem ég var í hér heima áður en ég fór í söngnám til Danmerkur. Það gekk alveg glimrandi vel, þannig að ég hef alltaf hugsað til Noruh með hlýju síðan. Svo eru bara ófá matarboð og sumargrill sem hafa verið haldin með Noruh á fóninum,“ segir Kristín og brosir.

Hæstánægð með að syngja lög annarra

Eins og áður segir hefur Kristín verið iðin við að halda tónleika með ábreiðum annarra tónlistarmanna. Blundar ekkert í henni að halda tónleika með sínu eigin efni?

„Ég hef eitthvað verið að semja, gefið út tvö lög, en það er ekkert sem ég hef verið að setja í neinn forgang eins og er. Allt hefur sinn tíma, það getur vel verið að ég gefi mig meira að því einhvern tíma. Ef ég finn þörfina mun ég gera það. Eins og er er ég alveg hæstánægð með að syngja lög eftir aðra. Það stendur samt til að ég gefi út lag í haust en það verður ekki eftir mig að þessu sinni. Það sem er þó áhugavert við að semja sjálfur er að það kemur manni oft á óvart hvað fæðist og maður kynnist sjálfum sér og hljóðfærinu sínu betur með því að leyfa því sem kemur að flæða óhindrað út.“

Sungið yfir sjúklingum

Kristín er tannlæknir og rekur tannlæknastofu í Kópavogi, en hún segir tannlækningar og tónlistina fara mjög vel saman.

„Það fer mjög vel saman að vera tannlæknir og með brennandi ástríðu fyrir tónlist, þó þetta séu samt á margan hátt ólíkir heimar. Ég ræð mér sjálf sem er ákveðinn kostur fyrir tónlistarfólk. Ég get líka sungið yfir sjúklingunum og lært lög á meðan sem er annar mjög góður kostur. Fólk róast við sönginn og býst eiginlega orðið við því að ég syngi svona létt með bornum,“ segir hún og hlær.

Beint í kærkomið sumarfrí

Varðandi tónleikana í Bæjarbíói næsta fimmtudag segir Kristín að þar muni áhorfendur heyra blöndu af rólegum lögum og fjöri, þó aðallega af plötunum Come Away With Me sem kom út árið 2002 og Feels Like Home sem kom út árið 2004.

„Einnig munum við deila fróðleik um Noruh á sviðinu svo þetta ætti bæði að vera veisla fyrir eyru og augu. Það er svo gaman að skipuleggja öll smáatriði í svona tónleikum með það í huga að tónleikagestir njóti sem best. Að fylgja hugmynd eftir frá því að hún fæðist og sprettur svo fullsköpuð á sviðinu er alveg ótrúlega skemmtilegt ferli. Við erum með valinn mann í hverju rúmi og ég hlakka alveg þvílíkt til,“ segir Kristín. Hún hélt tvenna Burt Bacharach tónleika í fyrra og nú er það Norah Jones. Hvaða tónlistarmaður verður næst fyrir valinu hjá tannlækninum knáa?

„Fljótlega eftir tónleikana fer ég með fjölskyldunni í kærkomið sumarfrí í sólina. Það verður frábært að hlaða batteríin og vera með fólkinu mínu. Ég mun pottþétt pæla í næstu skrefum og laginu sem ég ætla að koma áfram seinna í sumar. Við Hynur erum með fullt af hugmyndum um hvað við viljum taka fyrir næst, en ekkert fast í hendi ennþá. Við erum búin að henda á milli okkar nokkrum nöfnum og sjáum hvað setur. Ég læt þetta bakast í sólinni og kem úthvíld til baka klár í næsta verkefni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson
Fókus
Fyrir 3 dögum

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni