Tobba Marinós opnar sig um systurmissinn í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kom út í dag. Systur Tobbu, Regína, var bráðkvödd í maí 2016. Tobba á erfitt með að ræða um það, en hún kom að Regínu látinni á heimili foreldra þeirra.
„Ég er eiginlega ekki komin á þann stað að geta rætt það. Þetta er eitthvað sem maður er enn þá að vinna úr og langt í það að ég geti mikið rætt það. En ég get sagt að síðan hún dó er lífið verra og verður verra og maður sjálfur verri. Það er eiginlega engin leið til að lýsa því, þetta er bara svarthol. Sumir dagar ganga betur en aðrir en stundum er maður alveg ónýtur. Mér finnst svo skrýtið hvað fólk virðist eiga erfitt með að skilja það. Ekkert mjög löngu eftir að systir mín dó var fólk farið að spyrja hvort mamma og pabbi væru eitthvað að koma til. Eins og þau hefðu fengið flensu. Það er alveg sturlað,“ segir Tobba við Mannlíf.
Tobba segir að jólin séu erfiður tími fyrir fjölskylduna.
„Það er ekkert hægt að mæla sorg í mánuðum eða árum. Ég ef farið í sálfræðimeðferðir og svo framvegis og reynt að stytta mér leið eins og hægt er, en það virkar ekki. Foreldrar mínir hafa staðið sig ótrúlega vel og við reynum öll að hjálpast að við að komast í gegnum þetta, ekki síst á þessum tíma í kringum jólin,“ segir hún.
Þú getur lesið viðtalið við Tobbu í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.