Listafélag Verzlunarskóla Íslands setti upp nýja leiksýningu um daginn, Back to the Future. Eins og nafnið gefur til kynna er leiksýningin byggð á þessari geysivinsælu og klassísku kvikmynd sem kom út árið 1985.
Við fylgjum söguhetjunni Marty í gegnum ferðalag um tímann en það sem er áhugavert er að leikritið gerist árið 2019 en ekki árið 1985. Í kvikmyndinni ferðaðist Marty aftur til 6. áratugarins þar sem hann féll inn í æskuást foreldra sinna. Í uppsetningunni hjá Listafélaginu ferðast Marty hins vegar til 9. áratugarins og tekst leikhópnum að negla þessa breytingu ákaflega vel í sýningunni.
Það er Júlíana Sara Gunnarsdóttir sem leikstýrir sýningunni en hún er hvað þekktust úr sjónvarpsþáttaröðinni „Þær tvær“. Júlíana segist hafa verið upp með sér þegar hún var beðin um að taka þetta að sér en hún féll einmitt fyrir leiklistinni með sama leikhópi. „Við vorum öll sammála um að það væri skemmtilegra að sviðsetja eitthvað sem við hefðum ekki séð áður á sviði,“ segir Júlíana en það var ýmislegt sem þurfti að huga að við gerð sýningarinnar.
„Það var ýmislegt sem þurfti að huga að, en ég hef aldrei þurft að pæla jafn mikið í tæknihluta sýningar áður. Ég er virkilega þakklát fyrir þetta hæfileikafólk sem kemur að sýningunni þar sem ég gat deilt hausverknum með þeim og fundið sameiginlegar lausnir á málunum.
Miðað við áhugamannaleikhóp þá eru sumir leikaranna með mikla reynslu á sviði sem og á skjánum. Má þar helst nefna aðalleikarann Gunnar Hrafn Kristjánsson sem leikur Marty. Gunnar hefur til að mynda leikið í uppsetningu Borgarleikhússins á Bláa hnettinum en margir kannast eflaust við hann úr sjónvarpsþáttunum Fólkið í blokkinni. Gunnar Hrafn er frábær í þessari leiksýningu og færir hana upp á hærra plan.
Þá má líka nefna það magnaða hlutverk sem Biff er í þessari sýningu. Það er Killian Gunnlaugur Emanuel Briansson sem leikur Biff og gerir hann það listavel. Killian er án efa í hópi þess unga fólks sem á eftir að gera góða hluti í framtíðinni, hvort sem það verður á fjölum leikhússins eða á skjánum. Hann passar gríðarlega vel inn í hlutverkið sem Biff og hann tekur það og gerir það algjörlega að sínu. Killian er alveg einstaklega náttúrulega fyndinn í hlutverkinu en hlátrasköllin bárust um allan salinn í hvert skipti sem hann birtist á sviðinu.
Niðurstaða: Þessi sýning er frábær fyrir þá sem vilja sjá stjörnuleikara morgundagsins fara á kostum. Hún var ákaflega skemmtileg og flott, sérstaklega í ljósi þess að um menntaskólanema er að ræða.