fbpx
Laugardagur 30.maí 2020
Fókus

Friðgeir kokkar fyrir stórstjörnurnar: Stal eiturlyfjum fyrir Nick Cave – „Ég var agaleg fyllibytta“

Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 21. október 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðgeir Trausti Helgason, matreiðslumaður og ljósmyndari með meiru, hefur búið í Bandaríkjunum um árabil og var illa farinn af áfengis- og fíkniefnaneyslu. Neyslan kom honum á götuna í Los Angeles þegar hann var búinn að missa allt og bjó hann í pappakassa á götum borgarinnar þegar hann neyddist til að taka á sínum málum. Auk þess var hann heppinn að sleppa lifandi frá skotárás í New Orleans og horfði hann upp á marga góðvini sína deyja þegar tímar voru sem verstir.

Friðgeir náði að snúa við blaðinu að lokum, hefur haldist edrú í hálfan annan áratug og frami hans í eldamennsku hefur verið skjótur. Hann hefur getið sér gott orð sem bæði kokkur og ljósmyndari. Næsta markmið hans er að koma sér á framfæri í Los Angeles sem glútenlausi kleinukóngur Kaliforníu.

Friðgeir er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1966 en flutti upp á land í kjölfar gossins 1973 og ólst upp í Fellahverfinu í Breiðholti hjá afa sínum og ömmu. Að sögn Friðgeirs steig hann sín fyrstu skref í eldhúsinu hjá ömmu sinni þegar hann var fjórtán ára og varð þá ekki aftur snúið. Í New Orleans var hann svo heppinn að fá vinnu á mjög góðu, litlu veitingahúsi og í framhaldinu vann hann að eigin sögn á nokkrum af bestu veitingahúsum borgarinnar. Hann var á mjög góðri siglingu í bransanum vestanhafs en var mikil fyllibytta.

Friðgeir segir áfengisvandamál oft fylgja þessari starfsstétt og leiddi það til þess að hann brenndi ýmsar brýr að baki sér og varð að lokum heimilislaus í Los Angeles árið 2004. Friðgeir segir að hann hafi byrjað að drekka fimmtán ára gamall og bættist við eiturlyfjaneysla ofan á þetta tímabil.

Rændur og skotinn í verslun

Snemma á tíunda áratugnum var Friðgeir staddur í lítilli verslun þar sem hann var rændur af tveimur vopnuðum mönnum. „Ég var svo mikil bytta á þessum tíma og var alltaf fullur. Þar að auki bjó ég í verstu gettóunum því ég var alltaf blankur á þessum tíma,“ segir Friðgeir. „Þennan dag kom upp að mér maður sem bara hreinlega rændi mig. Þetta var um miðjan dag og ég fór í búðina til að kaupa mér viskípela.“

Þá komu tveir blökkumenn að Friðgeiri og hleypti annar þeirra af skoti sem fór í fótinn á Friðgeiri. „Ég stökk til hliðar og var svo heppinn að kúlan fór bara í gegnum löppina á mér. Hún fokkaði ekki upp neinum beinum eða neitt. Þarna var ég með fimm dollara á mér og ræningjarnir tóku allan peninginn, en tóku sem betur fer ekki viskípelann minn,“ segir Friðgeir, sem sagðist ekkert hafa stressað sig á þessu atviki. „Ef þú ætlar að vera skotinn er langbest að vera skotinn svona. Ég tók bara John Wayne á þetta, hélt kúlinu, drakk viskí og setti plástur á þetta. En svo fríka allir út í kringum mig og hringja á lögguna og sjúkrabíl. Það versta við það var að löggan tók af mér helvítis viskíflöskuna.“

Friðgeir segir að það ríki gífurlegt ofbeldi í New Orleans og há glæpatíðni, sem hefur aðeins aukist ef eitthvað er. „Eins og alls staðar annars staðar í hinum vestræna heimi er bilið á milli fátækra og ríkra að aukast stöðugt. Eftir fellibylinn Katrínu jókst þetta allt og ástandið var þó slæmt fyrir. Í vinnunni á þessum tíma vorum við félagarnir oft með veðmál, svokallað „dead pool“, um hver lokatalan á morðtíðni hvers árs yrði. Á tímabili var hún yfir þrjú hundruð og þetta var í borg þar sem bjuggu rétt svo í kringum þrjú eða fjögur hundruð þúsund manns.“

„Nei, andskotinn. Endar sagan mín svona?“

Friðgeir segist hafa verið orðinn „agaleg fyllibytta“ þegar hann flutti til Los Angeles árið 1996. Lífið tók miklum stakkaskiptum þegar hann flutti frá New Orleans og varð aldrei hið sama að sögn matreiðslumeistarans.

„Ég var nánast búinn að vera í dagneyslu og drukkinn frá unglingsaldri. Þetta var komið á þann stað að ég var alltaf fullur í vinnunni og ég gat ekki unnið með áfengisneyslunni. Ég var að vinna fyrir bestu kokkana í Bandaríkjunum og gat ekki haldið mér saman. Ég drakk lífið alveg frá mér og tók áfengið fram yfir vinnuna,“ segir Friðgeir. „Það var farið að halla svolítið undan fæti. Ég var kominn inn og út af stofnunum og hættur að funkera sem manneskja.“

Upphaflega fór Friðgeir til Los Angeles til að fara í meðferð. „Ég var ekki tilbúinn eða búinn með kvótann og féll alltaf aftur. Ég var alveg kexruglaður. Ég var orðinn geðveiki róninn sem aðrir benda á til að sýna öðrum hvað hann er illa farinn.“

Friðgeir var staddur í Greyhound-rútu á leiðinni til Los Angeles og í ljósi þess hversu illa farinn hann var orðinn, ákvað rútubílstjórinn að henda honum út, í bænum Vanhorn í Texas-fylki.

„Ég var skilinn eftir og sá þá lögreglustjórann koma að mér. Ég hugsaði með mér: „Nei, andskotinn. Endar sagan mín svona?“ Að vera settur í fangelsi í Texas. Þá komu tveir lögreglumenn upp að mér og köstuðu yfir mig neti til að handtaka mig. Þeir drösluðu mér í bílinn og fóru með mig til læknis í bænum, sem sprautaði mig niður. Þegar ég fékk svo einhverjar pillur hjá lækninum skutlaði lögreglustjórinn mér að staðnum þar sem hann fann mig á og sagði svo við mig: „Aldrei framar sýna á þér smettið hér í Vanhorn!““

Á götum Los Angeles

Skid Row í Los Angeles.

Friðgeir endaði þá á stað, sem að hans sögn var mestmegnis ætlaður glæpafólki. „Reglan er þannig í Kaliforníu ef þú ert dæmdur, að þú getur farið í níu tíu daga meðferð eða í fangelsi í fimm til tíu ár. Í þessu hverfi var allt morandi í einhverjum „gangsterum“, sem flestir völdu fangelsisvistina frekar en að verða sínum mönnum til skammar og vera edrú í níutíu daga,“ segir Friðgeir. Meðferðin gekk ekki og hann náði ekki að halda sér edrú fyrr en hann var kominn á Skid Row, hið alræmda hverfi heimilislausra í Los Angeles. Þá var loksins botninum náð.

„Í þessu hverfi er ótrúlega margt heimilislauss fólks að sprauta sig eða reykja krakk. Geðveikin var svakaleg, en í miðjunni á þessu öllu tekst mér að verða loksins edrú,“ segir Friðgeir og bætir við að ástand heimislauss fólks á þessu svæði fari hríðversnandi með árunum. „Þetta er ekki lengur neyslutengt eða geðtengt, heldur bara eðlilegt fólk sem missir vinnuna og íbúðina og endar á götunni.“

Friðgeir fékk í kjölfarið aðsetur í Midnight Mission-búðunum á Skid Row. Þar bjó hann með 300 manns í stórum sal, fékk koju og þrjár máltíðir á dag.

 

Skafmiðinn sem breytti öllu

Friðgeir segir reynslu sína af Skid Row bæði vera skemmtilega og hörmulega. Hann sá marga nána vini deyja á götunum í kringum hann og segir það vera átakanlegt að horfa upp á samfélagið þar almennt. Hann segir það kaldhæðnislega við Skid Row vera hvað glæpatíðnin er lág, en aftur á móti ríki mikið stjórnleysi innan samfélagsins þar. „Fólk sem var orðið gamalt og átti enga ættingja var oft bara keyrt til Skid Row og skilið eftir úti á götu til að deyja,“ segir hann. „Þetta eru ógeðslega ómannúðlegar aðstæður og þetta er verra í dag.“

Friðgeir deildi rými á Midnight Mission með þremur öðrum einstaklingum sem hann myndaði tengsl við, en allir þrír létu lífið á meðan þeir bjuggu á Skid Row. „Þetta byrjaði allt með því að einn þessara þremenninga vann sjötíu þúsund dollara í skafmiðaleik,“ segir Friðgeir. „Þegar upphæðin kom í ljós var haldið svakalegt partí á svæðinu og mennirnir þrír misstu sig gjörsamlega með peningum og eiturlyfjum. Þeir voru allir dauðir á nokkrum mánuðum.“

Að sögn Friðgeirs tókst honum að halda edrúmennskunni á þessum tíma og langaði hann hvorki í áfengi né eiturlyf meðan á dvöl hans stóð. „Hversu slæmir margir voru orðnir þarna varð til þess að mig langaði frekar að vera áfram edrú. Ég hafði fyrir löngu fyllt minn kvóta, en fram að þessu langaði mig ekkert bara að koma mér á rétta braut. Ég hélt alltaf áfram að falla þangað til ég kynntist þessum stað og þessu fólki. Ég komst í gegnum þetta allt án þess að drepast,“ segir Friðgeir sem leit á sorgarsögu vina sinna sem hvata.

„Þegar þú ert kominn á svona stað í lífinu, þá verður þú annaðhvort edrú eða dauður. Á þessum tíma var ég sjálfur búinn að missa allt; vinnuna, fjölskylduna, allt mögulegt. Það var enga leið að fara nema upp eða í gröfina.“

Með gott auga

Með edrúmennskunni var Friðgeir farinn að elda fyrir meðferðarheimili í Los Angeles og kom sér hægt og rólega aftur á atvinnumarkaðinn í kjölfar heimilisleysisins. Auk þess hefur hann lengi verið landslagsljósmyndari og hefur haldið fjölda sýninga á Íslandi og í Bandaríkjunum. Þá fyrstu hélt hann í Reykjavík árið 2010.

Friðgeir segir áhugann á ljósmyndun hafa kviknað sökum þess að hann var með gríðarlega kvikmyndadellu. Þá ákvað hann að prófa að fara í kvikmyndaskóla í Los Angeles en umhverfið og verkferlarnir þótti honum svo kaotísk að hann valdi ljósmyndun í staðinn. „Peningalega séð hefði ég frekar átt að sleppa náminu og fara í húsvarðaskóla,“ segir Friðgeir og skellir upp úr.

„Kvikmyndagerð er svo mikið vesen, en í þessu námi tók ég byrjandakúrs í ljósmyndun og þar fann ég strax þessa köllun. En ljósmyndunin hefur alltaf verið áhugamál. Það borgar aldrei reikninginn. Ég uppgvötvaði ljósmyndun þegar ég var að stúdera kvikmyndatöku og þurfti að taka byrjendabekk í ljósmyndun. Þar fann ég strax að ég gat farið að skapa einn og milliliðalaust.“

Eldaði fyrir stjörnurnar

Á meðal þeirra verkefna sem Friðgeir hefur tekið að sér í Los Angeles eru veisluþjónustur og kokkaverkefni fyrir margar frægar stjörnur. „Ég hef líka mikið eldað fyrir börn stórstjarnanna og þau eru mörg hver enn ruglaðri og verr farin en foreldrar sínir,“ segir Friðgeir, sem bætir við að samningar hindri að hann geti nafngreint hvaða stjörnur hann hefur unnið fyrir, en hann fullyrðir að þær séu margar hverjar stórfrægar og skrautlegar, eins og sögur af þeim vitni um.

Hann segist þó hafa hitt átrúnaðargoð sitt á einum tímapunkti en það hafi verið á Íslandi. „Ég hitti „aðalædolið“ mitt árið 1986 þegar við vinir mínir fluttum inn Nick Cave og hljómsveitina hans. Þeir voru að spila á skemmtistaðnum Roxy þá og ég braust inn í bát til að stela dópi handa Nick svo hann gæti spilað,“ segir hann.

Fegurðin á Flatey

Friðgeir er sæll og sáttur við lífið í dag að eigin sögn og segir að heimildamynd sé í vinnslu um líf hans. Hann er kvæntur Susan Bolles sem vinnur sem leikmyndahönnuður í sjónvarpi í Hollywood. Þau eru búsett við rætur San Gabriel-fjallanna, í Altadena, fyrir ofan Los Angeles þar sem þau eru með sex appelsínutré og þrjú sítrónutré í garðinum.

Síðustu þrjú sumur hefur Friðgeir starfað sem yfirkokkur á Hótel Flatey og segir hann það vera einn af fallegri stöðum jarðar, það jafnist fátt á við að fara í kyrrðina á Íslandi eftir hasartörn í Kaliforníu.

„Það er ómetanlegt að stíga úr átján milljóna manna borg yfir á litla eyju í þrjá mánuði. Eftir alla geðveikina í Los Angeles var ég farinn að íhuga að gefa upp kokkaríið, en svo kom það allt saman aftur þegar ég var ráðinn á Hótel Flatey,“ segir Friðgeir.

„Áhuginn kviknaði alveg á hundrað í kjölfarið á því. Það er íslenskt yfirbragð á matnum sem ég geri á Hótel Flatey, en svo kemur alltaf bakdyramegin þessi keimur frá New Orleans, sem gerir matinn bragðmeiri að mínu mati. Þetta er svolítið sambland af öllu sem ég hef lært í kokkamennsku um allan heim.“

Friðgeir stendur í því þessa dagana að „hössla“ sig út í Los Angeles með matseld sinni, sem hann segir vera nýja áskorun fyrir sig. Hann segist hafa verið vanur því í gegnum árin að elda fyrir aðra en honum líst vel á tilbreytinguna sem fylgir því að vera sinn eigin yfirmaður, með sinn eigin matarstíl. Þá bætir hann við að það sé lúmskur aukadraumur hjá honum að spreyta sig meira í glútenlausri kleinugerð.

„Konan mín er með glútenóþol, þannig að ég ákvað að prófa mig áfram með ýmsu. Næsta viðskiptaplanið mitt er að vera glútenlausi kleinukóngur Kaliforníu,“ segir Friðgeir hress.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Detox-drottningin ánægð með Krýsuvík

Detox-drottningin ánægð með Krýsuvík
Fókus
Fyrir 3 dögum

Haukur deilir á foreldra sem hlífa börnum sínum of mikið

Haukur deilir á foreldra sem hlífa börnum sínum of mikið
Fókus
Fyrir 1 viku

Minning um köttinn Jón Stúart: Hafði meiri áhuga á páskaungum en hugvísindum

Minning um köttinn Jón Stúart: Hafði meiri áhuga á páskaungum en hugvísindum
Fókus
Fyrir 1 viku

Andstæðingur Fjallsins gerði 100 uppsetur á hverjum degi í mánuð og þetta gerðist

Andstæðingur Fjallsins gerði 100 uppsetur á hverjum degi í mánuð og þetta gerðist
Fókus
Fyrir 1 viku

Varð hræddur þegar tölur yfir sýkta æddu stjórnlaust upp

Varð hræddur þegar tölur yfir sýkta æddu stjórnlaust upp
Fókus
Fyrir 1 viku

Gagnrýnandi The Spectator lofsyngur frammistöðu Arndísar: „Hin íslenska Frances McDormand“

Gagnrýnandi The Spectator lofsyngur frammistöðu Arndísar: „Hin íslenska Frances McDormand“