Þriðjudagur 18.febrúar 2020
Fókus

Óskar Ellert er látinn: „Það er einhver æðri máttur sem verndar mig“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 20. júlí 2019 11:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óskar Ellert Karlsson er látinn. Hann kvaddi þennan heim föstudaginn 12. júlí. Óskar var fæddur 28. júlí 1954 og varð því rétt tæplega 65 ára. Óskar gekk undir viðurnefninu Skari skakki og undi því vel. Hann taldist til utangarðsmanna en var þekktur af einstöku ljúflyndi, kurteisi og fágun í framkomu. Óskar þótti með skemmtilegri mönnum og var vinsæll af samborgurum sínum. Á unga aldri blómstraði hann við ýmis störf, meðal annars sem fyrsti launaði hljómsveitarótarinn hér á landi.

Árið 2015 birtir Pressan stutt viðtal við Óskar og var höfundur þess sá sami og ritar þessa frétt.  Þar sagði Óskar frá áhugaverðu lífshlaupi sínu og lífsýn í stuttu máli. Viðtalið endurbirtist hér að neðan, um leið og við sendum vinum og ættingjum Óskars innilegar samúðarkveðjur.

Óskar opnar sig um samfylgdina með Bakkusi: Átti allt en var sviptur sjálfræði – Stoltastur af börnunum

Óskar Ellert flokkast sem utangarðsmaður en hann er þó ólíkur þeim mörgum: Hann hefur þak yfir höfuðið, er snyrtilega klæddur, kurteis og ljúfur í viðmóti, hvergi til vandræða. En hann drekkur og drekkur stíft. Óskar Ellert segir okkur frá áhugaverðu lífshlaupi sínu.

Hann er fæddur á Ísafirði og ólst þar upp til sjö ára aldurs. Síðan flutti hann með móður sinni til Akraness:

„Ég man að við sigldum með strandferðaskipi og fósturfaðir minn tók á móti okkur uppi á Akranesi“, segir Óskar með minningarblik í augunum er myndir úr barnsminni lifna við í hugskotinu.

Við sitjum á veitingastofunni Studio 29 á horni Laugavegs og Snorrabrautar, gegnt Tryggingastofnun. Það er hráslagalegt úti, snjókoma og rok og fyrir utan borgina er víða orðið ófært. Óskar lætur veðrið hafa lítil áhrif á sig enda njóti hann verndar æðri máttarvalda. Við komum betur að því síðar.

Blaðamaður og ljósmyndari koma inn á veitingastofuna um 12-leytið, Óskar er þá nýmættur á staðinn, en hann kom með strætisvagninum frá heimili sínu á Miklubraut þar sem hann býr á sambýli með sjö öðrum karlmönnum. Hann tekur daglega strætisvagn niðri í bæ og eyðir deginum við drykkju niðri á Hlemmi eða nálægt Lækjartorgi. Hann hittir gjarnan vini og kunningja í bænum og lyndir vel við alla.

Hann er byrjaður á fyrsta bjór dagsins þegar við komum og á meðan viðtalinu stendur drekkur hann annan bjór og koníaksglas. Blaðamaður fær sér súpu og kaffi en ljósmyndari stillir tæki sín og fær hvorki vott né þurrt.

Einn af fyrstu launuðu róturunum – sviptur sjálfræði 26 ára

„Ég hafði gaman af íþróttum sem krakki og var mikið í sundi, æfði sund fyrir vestan,“ segir Óskar um æskuárin sem hann lætur nokkuð vel af.

En á unglingsárum Óskars flutti fjölskyldan til Keflavíkur og þar komst Óskar í kynni við fræga poppara þessa tíma. Hann varð rótari hjá hljómsveitinni Júdas sem var gríðarvinsæl á sínum tíma, túraði með henni um landið og var á launum hjá bandinu þegar best lét.

„Við erum bestu vinir“, segir Óskar brosandi um félagana í Júdasi, en hann hefur mest verið í sambandi við bræðurna Finnboga og Magnús Kjartanssyni.

„Svo kom Trúbrot og þegar Maggi fór í Trúbrot þá flosnaði Júdas upp“, segir Óskar. En hvað starfaði hann annað fyrir utan hljómsveitarvafstrið?

„Um tíma vann ég á steypistöð, ég var líka á netabát frá Sandgerði og vann hjá Olíuversluninni í Njarðvík. Líka í byggingarvinnu.“

En hvernig kom það til að þú fluttir til Reykjavíkur?

„Ég var sviptur sjálfræði árið 1980 og fluttur á Klepp. Ég var tekinn með valdi og fluttur inn á þetta geðræna svið. Þannig festist ég í Reykjavík“

Það má greina töluverða eftirsjá í þessum orðum Óskars en um leið er hann hugsi, það má skilja á honum að málið sé ekki einfalt.

Hverjir voru það sem sviptu þig sjálfræði?

„Það voru foreldrar mínir. Ég var auðvitað mikið fyrir sopann og svo var ég í kannabis. En á þessum tíma átti ég allt: Bíl, græjur, peninga, fullt af vinnu. Svo enda ég inni á Kleppi.“

Tónninn virðist færast frá ásökun í garð þeirra sem sviptu hann sjálfræði og yfir að orsökinni sjálfri, fíkninni. Hann átti allt til alls en var í stjórnlausri neyslu. Hann átti síðan aldrei afturhvarf til þessara veltuára. Af kannabisneyslunni á þessum árum fékk Óskar viðurnefnið Skari Skakki sem margir þekkja.

Ég spyr Óskar hvernig honum líki á sambýlinu við Miklubraut:

„Ég get eiginlega ekki svarað því. Það eru ekki eins strangar reglur og voru. Við verðum að vera komnir inn fyrir 12 á miðnætti, annars eigum við ekki húsaskjól yfir nóttina. Og við megum ekki drekka á staðnum. En það er frítt fæði. Ég er lystarlaus á morgana en ég fæ mér oft góðan hádegismat þarna.“ 

Stoltur af börnunum og segist njóta verndar æðri máttar

Ég spyr út í kvennamál og barneignir.

„Ég giftist einu sinni. Það var sparimerkjagifting. Ég þurfti að fá út sparimerkin“, segir hann og hlær. „En þetta var samt barnsmóðir mín og góð vinkona.“

Hann eignaðist tvö börn, strák og stelpu, og hann er svo stoltur af börnunum sem hafa komist vel áfram í lífinu að hann fær glampa í augun þegar hann talar um þau, en þau hafa náð langt í lífinu.

Ég spyr Óskar hvort hann hitti börnin eitthvað:

„Neinei, þau hafa ekkert með mig að gera“, svarar hann, alveg sárindalaust og svo virðist sem honum nægi að börnunum vegni vel og hann er ákaflega stoltur af þeim.

Við ræðum dálítið um tíðarfarið en Óskar kippir sér lítið upp við veðrið:

„Ég kemst í gegnum allt, sama hvernig veðrið er. Það er einhver æðri máttur sem verndar mig.“

Þú ert þá trúaður.

„Já, ég er það, ég má heita strangtrúaður.“

En þú hefur ekki beðið guð um  hjálpa þér að hætta að drekka?

„Nei, það hef ég ekki gert. Mig langar ekki til þess. Annars held ég að það sé eitthvað mikið að gerast í náttúrunni. Þegar maðurinn lifir ekki í friði við náttúruna er ekki von á góðu. Ég sé fyrir mér óveður, eldgos og jafnvel allsherjareyðileggingu.“

Óskar ræðir þennan myrka spádóm nokkuð ítarlega en það er mjög áberandi að þegar hann fer að ræða djúp og flókin málefni verður hann óskýr í tali, áfengisáhrifin verða þá greinilegri og það verður erfiðara að skilja hvað hann segir. Hugtök og hugsun verða afar sértæk.

En er Óskar sáttur við tilveruna?

„Já“, svarar hann fyrst og brosir. Síðan hugsar hann sig um og bætir við: „Og þó. Ekki beint. En aðalatriðið er samt að vera sáttur við sjálfan sig og ég er það. Ef maður er ekki sáttur við sjálfan sig er ekki hægt að vera ánægður með tilveruna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Svanasöngur örvitanna – Ástir, eldgos og martraðir meðvirkra

Svanasöngur örvitanna – Ástir, eldgos og martraðir meðvirkra
Fókus
Fyrir 2 dögum

Söngvakeppnin 2020 – Seinni undanúrslit í kvöld

Söngvakeppnin 2020 – Seinni undanúrslit í kvöld
Fókus
Fyrir 3 dögum

Skærustu stjörnur heims fá ekki nóg af Hildi – Knús frá Elton John og trúnó með Renée

Skærustu stjörnur heims fá ekki nóg af Hildi – Knús frá Elton John og trúnó með Renée
Fókus
Fyrir 3 dögum

Manst þú eftir því þegar þessi óveður skullu á? „Ég á mínum 30 árum hef aldrei upplifað annað eins“

Manst þú eftir því þegar þessi óveður skullu á? „Ég á mínum 30 árum hef aldrei upplifað annað eins“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Hvernig þekkjum við Íslendinga í útlöndum? – „Hávært gasprið og fötin er eitthvað sem ég tek eftir“

Hvernig þekkjum við Íslendinga í útlöndum? – „Hávært gasprið og fötin er eitthvað sem ég tek eftir“
Fókus
Fyrir 1 viku

Sjáðu viðtal við fimmtán ára Hildi: „Ég vil að stelpur séu þær sjálfar“

Sjáðu viðtal við fimmtán ára Hildi: „Ég vil að stelpur séu þær sjálfar“