Tónlistarkonan Debbie Harry, söngkona hljómsveitarinnar Blondie, kveðst hafa átt örlagaríkt kvöld með fjöldamorðingjanum Ted Bundy. Þetta kemur fram á vef Rolling Stone en til stendur hjá söngkonunni að gefa út ævisögu sína í október á þessu ári, en þar rifjar hún upp söguna af því þegar hún mætti einum alræmdasta morðingja í sögu Bandaríkjanna.
Að sögn Harry mætti hún Bundy þegar hana vantaði far heim í austurhluta Manhattan-eyjunnar um sumarið árið 1972. Eftir margar misheppnaðar tilraunir til þess að ná í leigubíl þáði hún far hjá bláókunnugum manni. Hafði hún þá ekki hugmynd um hvaða mann væri að ræða fyrr en mörgum árum síðar. Hún segir manninn hafa verið afar ákveðinn í að veita henni far þetta sumarkvöld.
„Þessi náungi keyrði hringi í marga hringi og kallaði til mín: „Svona nú, ég skal gefa þér far.“ Þá ákvað ég að þiggja loksins boðið en ég áttaði mig strax á því að þarna gerði ég stór mistök,“ segir hún.
Harry segir að um leið og hún settist í bílinn hafi hún séð að allt væri ekki með felldu. „Ég ætlaði að rúlla niður bílgluggann en þá sá ég að það var enginn hurðarhúnn í farþegasætinu. Meirihlutinn af öllu innan bifreiðarinnar hafði verið strípað burt. Þar sem hefði til dæmis átt að vera útvarp eða hanskahólf voru bara göt,“ segir Harry.
Það leið ekki langt á bíltúrinn þegar hún ákvað að forða sér. Þetta gerði hún með því að stinga höndinni út um gluggann til að opna hurðina utan frá. „Hann sá hvað ég var að gera og reyndi að taka snögga beygju, en þá skaust ég út úr bílnum og lenti á götunni.“
Söngkonan hafði reynt að loka á þessa minningu og segist hafa rifjað allt saman upp árið 1989, árið sem Bundy var tekinn af lífi í rafmagnsstól í Flórída. Allt small saman þegar hún las um aftökuna í blöðunum og sá myndina af Bundy. „Ég hugsaði: Almáttugur, þetta er maðurinn!“ segir Harry.
„Ég hafði ekki hugsað um þetta atvik í áraraðir. Þetta var áður en hljómsveitin var stofnuð, en á þessum degi áttaði ég mig á því að ég væri ein af þessum heppnu.“
Ted Bundy myrti tugi kvenna vítt um Bandaríkin á árunum 1974 til 1978. Eftir að hafa haldið fram sakleysi sínu í meira en áratug, játaði Bundy að lokum að hafa framið 30 morð. Raunverulegur fjöldi fórnarlamba er þó talinn vera á huldu.
Venjulega nauðgaði Bundy fórnarlömbum sínum og myrti þau að lokum með barefli eða kyrkti.
Bundy átti það einnig til að nauðga fórnarlömbum sínum eftir að hafa myrt þau. Í mótsögn við grimmd glæpa sinna, var Bundy oft lýst sem þokkafullum og vel menntuðum einstaklingi. Daginn sem hann var tekin af lífi gerði hann tilraun til að fresta aftökunni með því að játa á sig, með réttu eða röngu, fleiri morð en varð ekki úr þeirri hinstu ósk mannsins.