fbpx
Þriðjudagur 14.maí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Eyjan
Sunnudaginn 28. apríl 2024 18:30

Katrín Jakobsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Það er ekkert launungarmál að sá sem hér heldur á penna er sjálfstæðismaður, en líkt og margir flokksmenn hef ég aldrei getað fellt mig við samstarf flokksins með Vinstri grænum, enda orðið ljóst hversu hörmulega er komið þeim málefnum sem sjálfstæðismönnum eru (eða voru) kærust, til að mynda einstaklingsfrelsi, öryggi borgaranna og skynsamlegri meðferð almannafjár. Í ofanálag er fylgi flokksins í frjálsu falli og traust til formanns flokksins og forsætisráðherra hverfandi. Frá sjónarhóli sjálfstæðismanna fæst engu markverðu áorkað í samstarfinu sem aldrei átti að stofna til. Það er því þeim mun undarlegra í mínum huga hversu margir sjálfstæðismenn hyggjast greiða Katrínu Jakobsdóttur atkvæði sitt í komandi forsetakosningum, sé tekið mið af könnunum.

Vísir greindi frá því í fyrradag að Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi og fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, starfaði að framboði Katrínar. Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður Vísis, spurði Friðjón eðlilega hvers vegna svo margir sjálfstæðismenn styddu Katrínu. Borgarfulltrúinn kvað tvennt koma til, íhaldsmenn styddu Katrínu því hún talaði „fyrir íslenskri menningu og íslenskri tungu og þeir hafa það á tilfinningunni að hún fari ekki á taugum í erfiðum aðstæðum“.

Fyrrnefnda röksemdin stenst ekki skoðun, enda Katrín varla sýnt nokkra viðleitni til að efla og styðja við íslenska tungu, sem átt hefur verulega undir högg að sækja allan þann tíma sem hún hefur gegnt embætti forsætisráðherra. Katrín er ekki forsetaefni þeirra sem unna þjóðmenningunni. En svo er það hin röksemdin að hún sé svo sjóuð í samskiptum við útlenska ráðamenn eftir alla NATO-fundina. Gott og vel, en telja sjálfstæðismenn þá rétt að slá striki yfir fyrri gjörðir og hugsjónir Katrínar sem ganga í berhögg við borgaraleg grunngildi?

 

Hugmyndafræðilegt öngstræti

Í viðtali Stefáns Einars Stefánssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, við Katrínu á dögunum kom meðal annars fram að hún hefði ekki beðið Geir H. Haarde afsökunar á hennar þætti í að reyna að koma honum á bak við lás og slá. Einnig var rifjað upp að hún hefði verið og væri fylgjandi fóstureyðingum án allra tímamarka. Þá hefur flokki Katrínar tekist að viðhalda útlendingastefnu sem leitt hefur stórkostleg vandræði yfir þjóðina — stefnu sem er fullkomlega í andstöðu við sjónarmið mikils meginþorra sjálfstæðismanna. Og Vinstri grænum hefur sömuleiðis auðnast að koma í veg fyrir nauðsynleg virkjanaáform og þar með atvinnuuppbyggingu, vítt og breitt um landið. Ótalmargt fleira mætti tína til en mikill stuðningur yfirlýstra sjálfstæðismanna við Katrínu er að mínu viti til merkis um að Sjálfstæðisflokkurinn sé lentur í öngstræti hugmyndafræðilega.

Ekki er óeðlilegt að sitthvað sé rifjað upp af stjórnmálaferli Katrínar Jakobsdóttur í aðdraganda forsetakjörsins. Ýmislegt hefur verið nefnt en hér má líka tæpa á þeim málum sem ekki hafa náð fram að ganga, en mig langar sér í lagi að geta tillögu þeirrar sem hún flutti fyrir Alþingi í fyrra og nefndist „Aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023–2026“. Þar var gert ráð fyrir stofnun framkvæmdasjóðs vegna verkefna er beinast að „hatursorðræðu“. Samhliða stóð til að hefja „vitundarvakningarherferð“ um þessi mál.

Það alvarlegasta í tillögum voru þó námskeið um „hatursorðræðu“ sem nálega öllum opinberum starfsmönnum yrði gert að sækja, þar með talið kennurum, skólastjórnendum, lögregluþjónum, saksóknurum og meira að segja dómurum! Þá yrði að auki boðið upp á fræðslu fyrir „vinnumarkaðinn“. Þetta var ekki allt því þarna var líka áformuð úttekt á refsilöggjöfinni til að kanna hvort hún væri ekki nægjanlega í takti við nýju reglurnar og þá skyldu starfsaðferðir lögreglu og ákærenda sömuleiðis endurskoðaðar í sama tilgangi. Samfélagið allt átti meira og minna að fara á endurmenntunarnámskeið í pólitískum rétttrúnaði.

 

Orð eru ekki ofbeldi

Ég hef áður gert að umtalsefni hér á þessum vettvangi þá kyndugu staðreynd að íslenskir sósíalistar eru upp til hópa gegnsýrðir af amerískri lágmenningu og gína við hvers kyns öfgum úr Vesturheimi. Þetta er gerbreytt staða frá þeim tíma er vinstrimenn voru brjóstvörn íslenskrar þjóðmenningar. Annars er svo skrýtið hvernig margt hið versta í amerísku þjóðlífi virðist eiga greiða leið hingað í gamla heiminn á sama tíma og hið fegursta í stórbrotinni hámenningu Vesturheims ratar miklu síður til okkar.

Hugmyndin um „hatursorðræðuna“ kemur vestan um haf og hefur fest rætur víða hér í álfunni. Þannig hefur Nancy Faeser, innaríkisráðherra Þýskalands, nú uppi hugmyndir um að leggja höft á tjáningarfrelsi undir sömu formerkjum þar sem Hassrede geti leitt af sér líkamsmeiðingar og manndráp. Þetta minnir á frumvarp ríkisstjórnar Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sem lagt var fram á þinginu í Ottawa í febrúar sl. og kölluð eru Online Harms Act, og við gætum nefnt vefskaðalög. Þar er að finna ákvæði þess efnis að menn geti átt á hættu að sæta stofufangelsi ellegar rafrænu eftirliti sé talin hætta á að þeir fremji það sem kallað hefur verið „hatursglæpur“ á íslensku. Þetta er farið að minna illþyrmilega á hina víðfrægu kvikmynd Steven Spielbergs, Minority Report, sem látin er gerast árið 2054 þegar tæknin er komin á það stig að unnt er að afstýra morðum. Við fylgjumst með Tom Cruise í hlutverki lögreglumannsins John Anderton á flótta vegna morðs sem hann hefur ekki framið — en í ofanálag er honum alls ókunnugt um hvers vegna hann vill viðkomandi feigan.

Anna Schneider, blaðamaður Welt, bendir á í pistli fyrir fáeinum dögum að tilgátur um „hatursorðræðu“ byggi meðal annars á þeirri skoðun að unnt sér að leggja að jöfnu tungutak og ofbeldi. Þessar hugmyndir séu sprottnar úr kenningum sem á þýsku eru kallaðar Sprachakttheorie en samkvæmt þeim þá lýsi tungumálið ekki aðeins heiminum heldur breyti honum. En móðganir og ærumeiðingar séu, ef betur er að gáð, ætíð háðar viðbrögðum þess sem fyrir þeim verður. Hafi markmiðið með tiltekinni tjáningu verið af skaða einhvern nær hún aðeins tilgangi sínum samþykki viðtakandinn þær — telji æru sína hafa verið meidda (og hátti svo til er fyrir hendi skýr meiðyrðalöggjöf). Schneider segir því grundvallarmun á meiðandi tali og ofbeldi, því hið fyrrnefnda missi alveg marks ef sá sem fyrir því verður er ekki sjálfkrafa gerður að fórnarlambi. Tal um Hasskriminialität gefi til kynna að ærumeiðingar séu ofbeldi sem þær geti ekki verið eðli máls samkvæmt — hvað þá ummæli sem beinast að hópi manna.

 

Hugsanalögreglan

Winston sem vinnur í sannleiksmálaráðuneytinu í bók George Orwells 1984 hefur þann starfa að falsa það sem stendur í gömlum dagblöðum svo það falli að nýjustu yfirlýsingum „Stórabróður“ og „Flokksins“. Á sama tíma er nýja tungumálið í sífelldri mótun og „úrelt“ orð eru afnumin, en unnið er að búa til nýtt tungumál, einfaldaða ensku. Ég hygg að flestir séu sammál um að boðskapur Orwells sé að lifandi og fjölskrúðugt tungumál sé eitthvert besta vopn gegn harðstjórn sem fyrirfinnst og að sagnfræðin sjálf sé vopn gegn einræðinu. Tilvísanir til Orwells í umræðu um þessi mál eru orðnar allt að því klisjukenndar, svo mjög sem þeim er beitt — en staðreyndin er sú að frásögn hans (eða kannski spásögn) fellur ótrúlega vel að mörgu í okkar samtíma.

Anna Schneider vitnar til kanadíska sálfræðingsins Jordan Petersons sem segir helsta vanda við framkvæmd löggjafar um „haturðsorðræðu“ hver eigi að skilgreina hatur. Svarið við þeirri spurningu sé alltaf tvíþætt; það séu þeir sem þú vilt síst að verði falið það verkefni og þeir sem hatast við málfrelsi („and those who hate speech“). Þeir eru nefnilega margir og háværir í okkar samtíma sem unna í raun ekki þeim gildum sem samfélagsskipan okkar byggir á og vilja jafnvel kollvarpa vestrænum þjóðfélögum. Þess vegna er brýnt að stjórnmálaumræðan beinist á nýjan leik meira að grunnþáttum í pólitískri hugmyndafræði í stað þeirrar flatneskju og þess doða sem nú er ríkjandi og mun að óbreyttu leiða yfir okkur stofnun sannleiksmálaráðuneytis og hugsanalögreglu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
EyjanFastir pennar
13.04.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda
EyjanFastir pennar
13.04.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?
EyjanFastir pennar
31.03.2024

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
30.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns