Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur vakið mikla athygli síðan að hann kom inn á þing, aðallega fyrir undarlega framkomu, farsakenndar ræður um plasttappa og að hafa verið einn þeirra þingmanna sem gekk hvað lengst í að málþæfa frumvarp um leiðréttingu veiðigjalda á Alþingi. Þar hefur málflutningur hans að miklu leyti snúist um þróun hlutabréfaverðs í skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum á borð við Brim, Síldarvinnsluna og Ísfélagið. Auk þeirra eru ýmis fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi skráð í Kauphöll, eins og sölufyrirtækið Iceland Seafood.
Orðið á götunni er að þingmaðurinn, sem var um tíma skólastjóri í grunnskóla, hafi ekki getað setið auðum höndum eftir að þingið fór í sumarfrí og heldur sent frá sér hverja furðufærsluna á fætur annarri á samfélagsmiðlum, sem hafa hlotið litlar undirtektir og mikla gagnrýni. Sú sem mesta athygli hefur vakið birtist á Facebook á fimmtudag. Færslan er sett upp eins og könnun og hefur það endamarkmið að flokka fólk í tvo flokka, þá sem kynna sér málin og styðja stjórnarandstöðuna og þá sem vita ekkert og styðja ríkisstjórnarflokkanna.
Á meðal spurninga í færslunni voru: „Finnst þér erfitt þegar öðrum gengur vel, hvers vegna ekki ég?“ og hvort viðkomandi borgi „minna til samfélagsins en þú þiggur? Þeir sem eru vel stæðir hafa skarað eld að eigin köku með óeðlilegum hætti. Þeir sem þurfa tímabundna hjálp til sjálfshjálpar eiga að fá að rotna í helvíti enda aumingjar. Ertu stjórnlyndur?“ Niðurstaða Jóns Péturs er að ef svarendur eru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, sem nýtur um þessar mundir stuðnings 63% kjósenda, þá séu þeir „líklega bitrir. Einhver hefur komið illa fram við þà og þeir eru í vandræðum með sjálfsmynd sína. Þeim finnst þeir ekki metnir að verðleikum og að heimurinn sé ÓSANNGJARN. Að allt sé einhverjum ÖÐRUM að kenna og því nærtækt að kenna þeim um sem hafa það betur.“
Orðið á götunni er að áhugi Jóns Péturs á hlutabréfamarkaði og stöðu þeirra vel stæðu í samfélaginu sé engin tilviljun. Hann kemur úr fjölskyldu þar sem nokkrar kynslóðir hafa fengið ríflegt fjárhagslegt forskot vegna auðs sem gengið hefur í erfðir. Í frétt Viðskiptablaðsins frá því í ágúst 2013 segir: „Zimsen-systkinin eru einkar auðug fjölskylda. Þau eru afkomendur Christian Zimsen sem stofnaði Laugarnesapótek og sat í stjórn lyfjafyrirtækisins Pharmaco hf. […] Zimsen-systkinin eru hins vegar ekki mjög þekkt en samanlagt eiga þau Kristinn, Nils, Else og Jón rúmlega sjö milljarða króna samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Miðað er við greiðslu þeirra á auðlegðarskatti samkvæmt álagningarskrá Ríkisskattstjóra.“
Nils Hafsteinn Zimsen er faðir Jóns Péturs Ziemsen. Hann og Ásta Sylvia Rönning, eiginkona hans, voru í frétt Viðskiptablaðsins sögð eiga auð upp á 920 milljónir króna á þeim tíma. Í frétt DV frá sama ári segir að auðæfi Nils megi rekja til arfs frá foreldrum hans, en allir hluthafar Pharmaco (sem síðar varð Actavis) voru keyptir út af Björgólfi Thor Björgólfssyni og tengdum aðilum árið 2007 fyrir 350 milljarða króna á þávirði.
Þegar Jón Pétur settist á þing þurfti hann að skrá umsvif sín í viðskiptalífinu í hagsmunaskráningu. Samkvæmt henni á hann hlut í þremur einkahlutafélögum: JÖKÁ ehf., Alnitak ehf. og RZ ehf. Samkvæmt síðustu birtu ársreikningum, sem eru frá árinu 2023, er JÖKÁ þeirra umsvifamest, en Jón Pétur er stærsti eigandi félagsins með 41,1 prósent og félagið er skráð með heimilisfesti heima hjá honum. Aðrir eigendur eru Nils, Óli Björn og Jóhann Tómas Zimsen. Eigið fé félagsins í lok þess árs var rúmlega 830 milljónir króna. JÖKÁ var skuldlaust á þeim tíma fyrir utan ógreiddan fjármagnstekjuskatt og eignir þess samanstóðu að mestu af hlutabréfum og skuldabréfum. Það ár, var gott hjá JÖKÁ, enda nam söluhagnaður af hlutabréfum félagsins um 246 milljónum króna.
Í ársreikningnum kemur fram að á meðal þeirra hlutabréfa sem JÖKÁ átti í lok 2023 voru bréf í sjávarútvegsrisanum Brimi. Félagið fjárfesti líka í skráðum hlutabréfum í ýmsum öðrum félögum sem starfa í tengslum við sjávarútveg, svo sem Marel, Hampiðjunni og Iceland Seafood International. Þá átti JÖKÁ hlut í Kerecis, sem var síðar selt til Coloplast í Danmörku fyrir 175 milljarða króna. Söluhagnaður félagsins vegna þeirrar sölu var margfalt bókfærð virði hlutarins í lok árs 2023 og því ljóst að Zimsenarnir eiga sennilega umtalsvert meiri auð inni í JÖKÁ í dag en kemur fram í síðasta birta ársreikningi.
Auk ofangreinds fjárfesti JÖKA í skuldabréfum, meðal annars útgefnum af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, stærsta eiganda Brims með 44 eignarhlut, og víxli upp á 80 milljónir króna sem Iceland Seafood gaf út. Jón Pétur á svo 55,4 prósent hlut í Alnitak ehf. á móti Magnúsi Júlíussyni, en tilgangur þess félags er útleiga á atvinnuhúsnæði auk þess sem það á hluti í öðrum félögum. RZ ehf. hefur einnig þann yfirlýsta tilgang að leigja út atvinnuhúsnæði en átti aðallega verðbréf í lok árs 2023, sem metin voru á 325 milljónir króna. Ekki kemur fram í ársreikningi RZ ehf. um hvaða verðbréf var að ræða en RZ ehf. er skráð heima hjá Jóni Pétri og á vef Skattsins er hann skráður forráðamaður og stjórnarmaður í öllum félögunum þremur
Orðið á götunni er að kjör Jóns Péturs Zimsen á þing og stórundarleg framganga hans þar eigi sinn þátt í því að Sjálfstæðisflokkurinn fjarlægist fólkið í landinu æ meir og tapar sífellt fylgi.