Stóru tíðindin í nýrri skoðanakönnun Maskínu um fylgi stjórnmálaflokka er að Viðreisn er orðin stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Fylgi beggja flokka er um 16 prósent en Viðreisn er með 16,1 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn með 15,9 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins heldur áfram að hríðfalla, lækkar um 2,7 prósentustig milli mánaða, á meðan Viðreisn hækkar um 1,8 prósentustig og er komin upp fyrir kosningafylgi sitt.
Samfylkingin er áfram langstærsti flokkur landsins með tæplega 30 prósenta fylgi og Miðflokkurinn bætir við sig 4,7 prósent og mælist með 13,8 prósent. Framsókn og Flokkur fólksins eru með nokkurn veginn óbreytt fylgi milli mánaða, með í kringum 6,5 prósenta fylgi hvor flokkur.
Píratar eru með rétt tæp fimm prósent og eru samkvæmt því rétt undir mörkunum sem myndu tryggja þeim þrjá þingmenn. Sósíalistar og Vinstri græn eru sem fyrr nokkuð frá því að ná inn á þing. Yrðu þetta úrslit kosninga myndi Samfylkingin fá 21 þingmann, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn 11 hvor flokkur, Miðflokkurinn 10 og Flokkur fólksins og Framsókn fimm þingmenn hvor. Samkvæmt því fengju ríkisstjórnarflokkarnir 37 þingmenn en hafa nú 36.
Orðið á götunni er að úr þessari könnun megi lesa að megnið af fylgistapi Sjálfstæðisflokksins milli mánaða stafi af því að Viðreisn sé að höfða til kjósenda sem áður kusu Sjálfstæðisflokkinn. Athyglisvert er að síðan í mars, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk mikla fylgisaukningu í kjölfar þess að kosinn var nýr formaður, hefur flokkurinn tapað þriðjungi fylgis síns og mælist nú talsvert undir kosningafylgi sínu.
Miðflokkurinn bætir við sig fylgi og orðið á götunni er að þar njóti flokkurinn þess að hafa verið mjög áberandi á þeim tíma sem könnunin fór fram, en Miðflokkurinn hélt flokksþing sitt helgina 11.-12. október og kaus sér varaformann. Áhugi fjölmiðla á kosningunni var mikill og nýtur flokkurinn þess ríkulega í þessari könnun, sem var í raun tvær kannanir. Sú fyrri var frá 3.-8. október og sú seinni 8.-15. október. Vænta má þess að fylgisaukning Miðflokksins hjaðni nokkuð þegar frá líður og flokkurinn ekki lengur nánast einn í kastljósi fjölmiðla.
Orðið á götunni er að niðurstöður könnunarinnar staðfesti gríðarlega sterka stöðu ríkisstjórnarinnar en ríkisstjórnarflokkarnir bæta við sig fylgi á kostnað stjórnarandstöðunnar. Þessi sterka staða stjórnarinnar endurspeglar svo aftur ánægju kjósenda með verk hennar, ekki síst leiðréttinguna á veiðigjöldum, sem stjórnarandstaðan barðist gegn með slíku offorsi að hún varð sér til skammar og fældi frá sér kjósendur.
Orðið á götunni er að könnunin bendi til þess að Miðflokkurinn sé orðinn trúverðugri kostur á ysta hægri kanti stjórnmálanna en Sjálfstæðisflokkurinn sem virðist lítt vita fyrir hvað hann stendur lengur. Hann reynir að höfða til öfgahægrisins, rétt eins og Miðflokkurinn, en verður lítið ágengt, mögulega vegna þess að í sjö ár sat hann í vinstristjórn, lengst af undir forsæti formanns VG. Í öllu falli virðist Sjálfstæðisflokknum hafa mistekist að vinna aftur traust kjósenda hvað sem líður breytingum á forystu flokksins. Hægt og bítandi tínist fylgið af flokknum.