Stöðugt kemur betur í ljós að Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins og helsti „leiðtogi“ stjórnarandstöðunnar, ræður engan veginn við verkefni sitt. Hún hefur þingflokk Sjálfstæðisflokksins ekki einu sinni á bak við sig. Hún vildi skipta þar um formann enda má öllum vera ljóst að Hildur Sverrisdóttir er afleitur formaður þingflokks sem fælir kjósendur frá flokknum í hvert skipti sem hún kemur opinberlega fram. Þegar Guðrún vildi skipta um formann gekk hún á vegg í þingflokknum þar sem meirihluti stóð með Hildi þó að breyting hefði verið flokknum til góðs. Eftir því sem málþóf minnihlutaflokkanna á Alþingi dróst á langinn og styttist í þinglok varð Guðrún æ orðljótari og ómálefnalegri í tali, bæði á þingi og í fjölmiðlum. Stundum virtist henni ekki vera sjálfrátt og mörgum þótti hún dansa á brúninni. Fáir hafa sennilega fagnað sumarleyfi Alþingis meira en hún enda von til þess að hún jafni sig eitthvað í sumar áður en átökin halda áfram í september þegar þing kemur saman að nýju.
Orðið á götunni er að Guðrún hefði trúlega átt að spara sér stóryrði varðandi stutta heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hingað til lands í gær. Vitanlega hefur það verið sárt fyrir Guðrúnu að horfa á forsætisráðherra og utanríkisráðherra landsins taka á móti frú Leyen því auðvitað hefði hún viljað vera sjálf í þeim sporum. Það gerðist ekki og mun trúlega ekki gerast að óbreyttu. Tal Guðrúnar um að þessi stutta heimsókn hafi verið „skipulegt skref á átt að aðild að ESB“ er í besta falli kjánalegt. Utanríkisráðherra hefur þegar svarað þessu og bent á að engin slík skref verði tekin nema með samþykki þings og þjóðar. Hér eru ekki á ferðinni sömu vinnubrögð og formaður Sjálfstæðisflokksins beitti árið 2001 þegar hann lét Ísland fylkja sér í flokk „viljugra þjóða“ án nokkurs samráðs við Alþingi Íslendinga, sem mikið hefur verið gagnrýnt.
Formaður Sjálfstæðisflokksins ætti að vera óumdeildur leiðtogi stjórnarandstöðunnar enda er flokkurinn stærsti minnihlutaflokkurinn og með næst stærsta þingflokkinn. Veruleikinn er samt sá að Guðrúnu hefur ekki tekist að leiða stjórnarandstöðuna. Þar hafa farið fremstir þeir Bergþór Ólason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem báðir gátu sér orð á sínum tíma fyrir vafasama framkomu á Klausturbar sem frægt er. Í málþófsruglinu sem stóð yfir í heilan mánuð, þar til forseti Alþingis beitti neyðarhemli þingsins til að stöðva innihaldslaust málþóf, höfðu nokkrir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sig meira í frammi en sjálfur formaðurinn. Fæst af því sem þeir létu frá sér fara var þeim eða flokknum til sóma. Hefði formaður flokksins haft stjórn á liði sínu má ætla að hann hefði reynt að minnka skaðann með því að hvetja þingmenn sína til að reyna að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan. Það gerðist hins vegar ekki því að formaðurinn ræður ekki við verkefni sitt.
Athygli vekur að fyrrverandi varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, tók ekki þátt í atkvæðisgreiðslu um veiðigjaldið sem mestur styr hafði staðið um. Hún gætti þess að vera stödd erlendis í erindum á vegum Alþingis og greiddi því ekki atkvæði. Margt bendir til þess að henni hafi ofboðið ruglið í félögum sínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins vegna veiðigjaldamálsins og því kosið að vera fjarverandi. Þórdís Kolbrún er almennt talin hæfasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir og margir telja að staða flokksins væri önnur og betri ef hún hefði gefið kost á sér til að taka við formennsku í flokknum og náð kjöri á landsfundi fyrr á þessu ári.
Orðið á götunni er að Þórdísi Kolbrúnu hugnist nú best að taka að sér verkefni erlendis, t.d. á vegum Evrópuráðsins eða Evrópusambandsins. Erfitt er að sjá framtíð hennar fyrir sér í Sjálfstæðisflokknum. Fari hún ekki til starfa erlendis gæti hún hreinlega skipt um flokk á Íslandi og gengið til liðs við stjórnarmeirihlutann. Það yrði saga til næsta bæjar!
Þórdís Kolbrún er ekki sú eina sem unir sér illa innan stjórnarandstöðunnar. Í Morgunblaðinu í dag birtist afar löng grein eftir Andreu Sigurðardóttur, formann Hvatar í Sjálfstæðisflokknum. Hún sinnir nú blaðamennsku í Hádegismóum. Andrea birtir heilsíðugrein með gagnrýni á Höllu Hrund Logadóttur, þingmann Framsóknar, og hefur nánast í hótunum við hana. Halla Hrund hefur áttað sig á þeim ógöngum sem stjórnarandstaðan hefur komið sér í með málþófi og tafaleikjum sem eru engum til sóma. Halla Hrund hefur líst yfir stuðningi við ríkisstjórnina í nokkrum málum, meðal annars í veiðigjaldamálinu. Andrea, Hvatarformaður, telur að skoðanir Höllu séu svik við formann Framsóknarflokksins. Hún gerir sér væntanlega ekki grein fyrir því að þingmenn hafa heitið því að láta samvisku sína ráða för enn ekki flokksaga. Halla Hrund er menntuð og skynsöm manneskja sem hefur kjark til að taka málefnalega afstöðu til mikilvægra viðfangsefna. Hún ákvað að láta ekki bjóða sér upp á það rugl sem stjórnarandstaðan hefur borið á borð fyrir þing og þjóð.
Orðið á götunni er að Höllu Hrund hafi þótt nóg um vitleysuna og gæti þess vegna skipt um lið og gengið í einhvern ríkisstjórnarflokkanna og unnið þar af heilindum að framgangi mikilvægra mála. Ef Halla Hrund og Þórdís Kolbrún yfirgefa báðar minnihlutaflokkanna þá yrði það enn eitt áfallið fyrir þá – en þyrfti ekki að koma á óvart.