Rithöfundurinn Margrét Tryggvadóttir var, eins og fleiri, límd við eina útsendingu frá Alþingi í morgun en þar ákvað forseti þingsins að beita ákvæði í 71. gr. þingskaparlaga til að stöðva 2. umræðu um veiðigjaldafrumvarpið sem þá hafði staðið í rúmlega 160 klukkustundir. Margrét hlustaði á ræður stjórnarandstöðunnar í kjölfarið sem mótmæltu þessu útspili með miklum gífuryrðum.
„Á eiginlega ekki orð yfir gífuryrðunum, kjarnorkusamlíkingunum og vanþekkingunni á sögunni, svona fyrst verið er að vísa í hana ítrekað.“
Margrét bendir á bloggfærslu Marðar Árnasonar, fyrrum þingmanns Samfylkingarinnar, frá árinu 2013 þar sem hann fór yfir sögu ákvæðisins. Því hafi verið beitt fimm sinnum þar til í dag.
Árið 1937 var ákvæðinu beitt í áköfum umræðum í efri deild Alþingis um frumvarp um Síldarverksmiðjur ríkisins. Þegar önnur umræða hafði staðið í þrjá klukkutíma beitti forseti ákvæði þingskapalaga sem svarar til núverandi 71. gr. til að takmarka ræðutíma þingmanna við tíu mínútur. Þá var fyrsta ríkisstjórn Hermanns Jónassonar við völd, stjórn hinna vinnandi stétta sem svar samsteypustjórn Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins.
Árið 1947 var til umræðu í neðri deild frumvarp um dýrtíðarráðstafanir. Þá lagði forseti til að takmarka ræðutíma hvers þingsmanns við 10 mínútur eftir að umræður höfðu staðið yfir í 8 klukkustundir. Þá var við völd ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, samsteypustjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Árið 1949 fjallaði þingið um þingsályktun til staðfestingar á aðild Íslands að NATO. Við síðari umræðu lagði forseti sameinaðs Alþingis til við upphaf umræðu að hún stæði ekki lengur en þrjár klukkustundir alls. Þá var enn við völd ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, samsteypustjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Árið 1959, skömmu fyrir þingfrestun, lauk neðri deild fyrstu umræðu um stjórnarfrumvarp um ýmis fjármál. Umræður hófust á þriðja tímanum eftir hádegi en miklar umræður höfðu verið í þinginu um önnur mál. Laust eftir miðnætti lagði forseti til að umræður yrðu takmarkaðar eftir klukkan eitt um nóttina. Þá var Viðreisnarstjórnin svokallaða við völd, ríkisstjórn Ólafs Thors sem samanstóð af Sjálfstæðis- og Alþýðuflokki.
Loks var það árið 1989 sem þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, flutti árlega skýrslu um utanríkismál. Klukkan rúmlega þrjú um nóttina ákvað forseti að stytta ræðutíma þeirra sem enn voru á mælendaskrá og voru að því er virðist engar athugasemdir gerðar við það. Síðar kom reyndar á daginn að forseta láðist að bera tillögu sína um takmörkun umræðu undir atkvæði og baðst í kjölfarið velvirðingar. Þá var við völd ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem samanstóð af Framsóknarflokki, Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi.
Frá þessum tíma kom ekki til beitingu ákvæðisins þar til í dag, en það kom þó ítrekað til umræðu í gegnum árin og þá einkum í tengslum við málþóf. Skemmst er að minnast þess þegar Bryndís Haraldsdóttir skrifaði grein árið 2019 um að málþófið væri séríslenskt og ætti ekkert skylt við málfrelsi eða lýðræði. Taldi hún eðlilegt að þingheimur færi að huga að heimildum 71. gr. til framtíðar þar „núverandi fyrirkomulag, þar sem fámennur hópur stjórnarandstæðinga getur tekið þingið í gíslingu, gengur ekki til framtíðar.“