Í staðinn varð daðrið og nektarmyndasendingin að fjárkúgun þar sem „Charlie“ þvingaði Wragg til að láta í té símanúmer annarra þingmanna.
Wragg skýrði frá þessu í viðtali við The Times nýlega. „Þeir voru með viðkvæmt efni í höndunum og vildu ekki láta mig í friði. Þeir spurðu út í aðila og ég lét þá fá nokkur símanúmer en ekki hjá öllum þeim sem þeir báðu um,“ sagði hann.
The Guardian segir að auk þess að hafa játað þetta, hafi Wragg lýst yfir mikilli eftirsjá. „Ég hef sært fjölda fólks því ég var veiklyndur og hræddur. Ég er svo leiður yfir að veiklyndi mitt hafi orðið til þess að annað fólk hafi orðið fyrir barðinu á þeim,“ sagði hann og bætti við að hann væri leiður yfir að hafa ekki leitað strax til lögreglunnar.
Wragg er ekki eini þingmaðurinn sem hefur lent í svokallaðri „hunangsgildru“ af óþekktum aðilum. „Hunangsgildra“ er orð sem er notað yfir svik og svindl sem á sér stað með táldrætti af einhverju tagi.
Politico segir að 13 aðilar, sem starfa í Westminister, hafi fengið skilaboð í gegnum Whatsapp með nektarmyndum og/eða skilaboðum. Tveir þeirra svöruðu þeim með því að senda nektarmyndir, annar þeirra var Wragg. Meðal annarra sem fengu skilaboðin voru ráðherrar, ráðgjafar og blaðamenn.
Skilaboðin eru öll svipuð, Maður að nafni „Charlie“ setti sig í samband við viðkomandi eins og í tilfelli Wragg. Þess utan voru skilaboðin yfirleitt send seint að kvöldi og í þeim var því haldið fram að sendandinn og viðtakandinn hafi hist áður og „daðrað“ á bar í Westminister eða á pólitískri samkomu.