fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Eyjan
Sunnudaginn 24. mars 2024 13:30

Søren Kierkegaard. Teikning í safni Konunglegu bókhlöðunnar í Kaupmannahöfn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég var á dögunum að grúska fyrir tilviljun í 158. árgangi Skírnis, tímariti Hins íslenska bókmenntafélags, og rakst þar á ágæta grein Þorsteins Gylfasonar heimspekiprófessors sem ber heitið „Hvað er réttlæti?“. Hann leggur þar út af vel kunnum hendingum í fjórtánda Passíusálmi: 

Þú veist ei hvern þú hittir þar 

heldur en þessir Gyðingar 

Þorsteinn kallaði þessar ljóðlínur „dýpstu speki undir sólinni“. Það væri speki af því að það væri satt og djúpt vegna þess að við gleymdum því jafnt og þétt. Réttlætið væri að hans mati í því fólgið að menn nytu sannmælis en þar með réðist réttlætið af verðleikum. Frumkrafa réttlætisins væri að verðleikar mannsins fengju komið fram í sinni fjölbreytilegustu mynd og vísaði hann þar til orða Wilhelms von Humboldt sem sagði „að um mannlegan þroska í ýtrasta margbreytileika sé meira vert en alla hluti aðra“. Réttlætið skipti máli einfaldlega vegna þess að sannleikurinn skipti máli og sannleikurinn yrði að koma fram, eða með orðum Þorsteins sjálfs: „Og sannleikurinn um hvert mannsbarn kemur því aðeins fram að þetta mannsbarn fái að njóta sín, því að hann sér enginn maður fyrir.“ 

Verðleikaræði 

Verkskipt og tæknivætt nútímaþjóðfélag þarf á sérhæfðum kunnáttumönnum að halda á ótal sviðum og þeim sviðum fer sífellt fjölgandi. Farsæld þjóðfélagsins er að miklu leyti komin undir því að fremstu menn fái tileinkað sér bestu þekkingu til hugar og handa og reynist þrautgóðir námsmenn alla starfsævi. Þessu tengt er stundum talað meritókratí að hinir hæfustu menn séu við stjórnvölinn. Orðstofninn merit kemur úr latínu, sem merkir verðleikar eða manngildi, og kratos (gr. κράτος) grískur og þýðir styrkur eða kraftur. 

Við gætum því talað um verðleikaræði sem er þá andstæðan við aristókratí sem áður ríkti og fólst í því að tilteknar stéttir nytu forgangs til mennta og æðstu embætta og þar með forystu í þjóðfélaginu. Verðleikaræðið er aftur á móti stjórnmálakerfi þar sem menn komast til æðstu metorða á grundvelli getu og hæfileika, frekar en auðs og þjóðfélagsstéttar. Forsenda slíks þjóðskipulags er öflugt menntakerfi þar sem menn hljóta framgang í krafti frammistöðu sinnar sem mæld er með prófum. Hugmyndir af þessu tagi eru ævafornar þó svo að hugtakið sjálft sé tiltölulega nýlegt. 

Andverðleikar 

Jónas Kristjánsson ritstjóri notaðist stundum við hugtakið „andverðleikar“ í ádeilum sínum á íslenskt þjóðfélag — vanhæfir menn hlytu framgang í störfum hvert sem litið væri og gilti einu hvort um væri að ræða starfsemi ríkis og bæja eða einkamarkaðinn.  

Sjálfsagt voru þetta að einhverju leyti sleggjudómar en samt sem áður blasir víða við hrópandi vanhæfni á hæstu stöðum þrátt fyrir meinta menntabyltingu og hvers kyns „hæfnismat“. Traust á æðstu stofnunum þjóðfélagsins mælist sáralítið og ef til vill stefnir æðsta embættið sjálft sömu leið af nýjustu fréttum að dæma, eða ætli okkar bestu menn muni etja kappi um forsetastólinn? Svari hver fyrir sig.  

Sum forsetaefnin sem fram eru komin hafa fengið spunameistara til að „hanna atburðarrás“ og látið snjalla auglýsingamenn setja saman runur af frösum sem láta vel í eyrum, skreyttum með orðaleppum eins og jafnræði, samfélagssáttmáli og sjálfbærni, án þess að djúp merking liggi endilega að baki. Þetta er tímann tákn en svo virðist í okkar samtíma sem ytri ásýnd skipti miklu meira máli en innihaldið. Ef eitthvað klúðrast er gjarnan spurt hver hafi eiginlega séð um „almannatengslin“ — rætur vandans eru oft orðnar aukaatriði og ef til vill er raunveruleg þekking farin sömu leið í mörgum tilfellum. 

Grín eða dauðans alvara? 

Forsetaefnin hafa ekki öll látið „ímyndarhönnuði“ fara um sig höndum. Sum eru mætt grímulaus á svið í framhaldsþætti sem tekur á sig sífellt furðulegri myndir. Ég ætla nú ekki að gerast svo andstyggilegur og tala um komandi forsetakjör sem „trúðasýningu“ eins og sumir hafa gert, en það er umhugsunarefni að stór hluti almennings láti sér fíflaganginn vel lynda, skemmti sér jafnvel dável yfir öllu saman. Að svona sé komið virðingu þessa æðsta embættis kann að vekja áleitnar spurningar um stöðu þessa litla eyríkis hér á miðju Atlantshafi norðanverðu. Hefur ríki sem svona er ástatt um einhvern ljóma í hugum þegnanna? Upptendrar það baráttuanda og fórnfýsi? Hrærir það hjörtu mannanna? Er líklegt að margir væru tilbúnir að falla í orrustu undir gunnfánum þessa ríkis? Svari hver fyrir sig. 

Þegar ég færði þetta í tal við ágætan vin minn á dögunum varð honum umsvifalaust hugsað til Kierkegaards sem notaði líkinguna af leikhúsi þar sem kviknaði í leiktjöldunum en þá 

„kom loddari og sagði áhorfendum frá því. Þeir héldu, að það væri spaug, og klöppuðu. Hann sagði það aftur, og fólk klappaði ennþá meira. Þannig held ég að heimurinn muni farast, við almenn fagnaðarlæti gamansamra manna, sem halda, að það sé spaug.“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar