fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Eyjan
Laugardaginn 12. október 2024 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnmálaskýrendum hefur verið tíðrætt um laskaða ímynd Sjálfstæðisflokksins á síðustu vikum og mánuðum og stöðugan flótta úr röðum hans til annarra afla sem kúra hvor sínu megin við hann, í afturhaldi Miðflokksins og frjálslyndi Viðreisnar, þótt vísast hafi undanhaldið reikað víðar um pólitíska sviðið hér á landi.

Vitaskuld eru hér komin stærstu tíðindi íslenskra stjórnmála nú um stundir, enda er svo komið fyrir sjálfum burðarflokki íslenskra stjórnmála, sem farið hefur allra lengst með völdin á lýðveldistíma þjóðarinnar, að hann er varla eða ekki á vetur setjandi.

Þá er hún Snorrabúð stekkur. Svo mikið er víst.

En hinum megin á ysta vængnum er ástandið þó engu skárra. Róttækustu flokkar landsins eru báðir á mörkum þess að ná manni inn á þing – og á það jafnt við um nýlegan Sósíalistaflokk og öllu ráðsettari Vinstri græna sem sjá nú þann kostinn vænstan að slíta stjórnarsamstarfinu að nafninu til, en þó ekki formlega, sem mun vera nýlunda við valdstjórnina.

Eftir sjö ára sæluvist með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki við ríkisstjórnarborðið hafa þeir áttað sig á því að breyta verði um kúrs, því takast verði á við verkefnin á „félagslegum grunni,“ en samstarfsflokkarnir þjóni „hagsmunum fjármagnsaflanna umfram almannahagsmuni.“ Fyrir vikið „sækja gróðaöflin í sig veðrið,“ á meðan að „venjulegt fólk glímir við afleiðingar“ stjórnarstefnunnar.

Það tók flokkinn sumsé sjö ár að komast að þessu. Og mun vart vera hægt að finna aðra stjórnmálahreyfingu á Íslandi sem hefur verið eins illa áttuð í jafn langan tíma.

Vandi VG eru öðru fremur eftirmælin að afloknum þessum ótrúlega umþóttunartíma. Hann hefur haldið Sjálfstæðisflokknum – og raunar báðum gömlu valdaflokkunum – að kötlum jafnt og völdum í bráðum tvö kjörtímabil. Það er Íslandsmet róttæklinga í að rækja erindi íhaldsins.

Og miðað við ummæli síðasta samfundar þessara vinstrimanna gleymdu þeir einfaldlega áherslum sínum og inntaki allan þennan tíma. Og viðurkenna það raunar fúslega.

Hvernig er hægt að treysta svona stjórnmálahreyfingu? Það er von að spurningin vakni.

„Og mun vart vera hægt að finna aðra stjórnmálahreyfingu á Íslandi sem hefur verið eins illa áttuð í jafn langan tíma.“

Vandi vinstrimanna á lýðveldistímanum hefur verið margþættur. Samheldni hefur þeim ekki verið í blóð borin, hvorki fyrr né síðar. Óvinafagnaðurinn hefur þvert á móti skrifað sögu þeirra. Þeirra stærstu sigrar hafa ekki einu sinni dugað til að berja í brestina, svo sem eftir þingkosningarnar 1978 þegar sameiginlegt fylgi Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins reis í fjörutíu prósent, og eins þegar Samfylkingin og Vinstri græn komust eftirminnilega til valda 2009 í fyrstu raunverulegu vinstri stjórninni á Íslandi. Í fyrra tilvikinu sprakk stjórnin svo að segja strax, en í seinna tilvikinu lá sprengjufnykurinn í loftinu um árabil með afsögnum, úrsögnum, uppþotum og almennri fýlu.

Þess utan er vandi vinstriflokkanna sá að þeir leggja sig eiginlega oftar niður en þeir stofna til samfundarins. Flokkar þeirra koma og fara. Það er leiðarstefið. Samtök frjálslyndra og vinstri manna kom og fór, sömuleiðis Bandalag jafnaðarmanna og Þjóðvaki, að ekki sé talað um Alþýðubandalagið og alla forvera þess, og svo að sjálfsögðu Alþýðuflokkinn. Eru þá ótaldar allar sellurnar sem ljómuðu í stund af roðanum í austri. Og báru fána framtíðarlandsins.

Svo staðan er þessi. Það eru talsverðar líkur á því að enginn hefðbundinn róttæklingaflokkur nái kjöri á Alþingi landsmanna í haust, vetur eða vor. Það eru jafn stór tíðindi og þau hin sem blasa við hægra megin á pólitísku rófi eyjarskeggja.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar