fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Eyjan
Sunnudaginn 13. október 2024 16:30

Sísyfus í túlkun ítalska málarans Tiziano Vecellio. Mynd frá því um miðja sextándu öld. Varðveitt á Prado-safninu í Madrid.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt forngrískri arfsögn var Sísyfus (gr. Σίσυφος) konungur í Efýru sem síðar hlaut nafnið Kórinþa. Sísyfus var harðstjóri og hafði þann leiða ósið að slátra gestkomandi mönnum og vildi með því sýna hreysti sína — þetta var kannski ekki ósvipuð hugsun og hjá nafna mínum á Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi löngu síðar. Axlar-Björn hlaut þungan dóm veraldlegra yfirvalda en Sísyfus var dæmdur af guðunum á Ólympstindi til þess hörmulega hlutskiptis að rogast með geipistóran stein báðum höndum. Hann streittist við með knúum og knjám, og velti steininum upp eftir hól nokkrum, en í hvert sinn er hann ætlaði að koma honum upp á brúnina spennti þunginn hann niður aftur og valt þá hinn ofsalegi steinn ofan á jafnslettu. Sveinbjörn Egilsson þýddi þessa frásögn Ódysseifskviðu snilldarlega og segir svo frá að þegar stórgrýtið var runnið niður hefði Sísyfus tekið til við að velta því aftur „og herti sig af öllu afli, svitinn bogaði af honum öllum, og rykmökkinn lagði upp yfir höfuð hans“. Hann hafði hlotið þann dóm að endurtaka þessa athöfn til eilífðarnóns.

Líking við landsstjórnina

Sú myndlíking sem birtist í þessari einföldu goðsögn er svo sterk að til hennar er gjarnan vísað. Franska Nóbelsskáldið Albert Camus notaði líkinguna af Sísyfusi til að skýra tilgangsleysi tilverunnar; menn hafi allir fyrir höndum einhver viðfangsefni sem reyni á þá andlega jafnt sem líkamlega en kunni engu að síður að vera með öllu tilgangslaus. Hann taldi mannshjartanu nóg að komast upp á fjallstindanna og líklega væri Sísyfus því hamingjusamur (fr. „La lutte elle-même vers les sommets suffit à remplir un cœur d‘homme. Il faut imaginer Sisyphe heureux.“).

Við sjáum líkindi þessa í landsstjórninni þessi misserin. Ríkisstjórnin kynnir reglulega með pompi og prakt að hún hafi komist að samkomulagi um hin og þessi veigamiklu mál og ekki er annað að sjá en ráðherrarnir trúi því í barnslegri einlægni að brátt fari Eyjólfur að hressast — en allt kemur fyrir ekki. Ríkisstjórnin velti stórgrýtinu upp hæðina til þess eins að það rynni niður aftur. Nú seinast var það samkomulag sem flokkarnir höfðu gert með sér um afgreiðslu lykilmála, þar með talið lausn þess ófremdarástands sem ríkir í útlendingamálum. Nýr formaður örflokksins Vinstri grænna hefur að vanda beitt synjunarvaldi gegn stærsta flokknum, stórgrýtið rennur niður hæðina og þá er að bifa því af stað upp aftur.

En nei, nú var þetta orðið gott.

Myndlíkingar ná skammt

Albert Camus ræddi um Sísyfus í samhengi við þá hugmynd að verða sjálfum sér að aldurtila en hann tók svo sterkt til orða að til væri aðeins eitt mikilvægt úrlausnarefni

heimspekinnar og það væri sjálfsvígið (fr. „Il n‘y a qu‘un problème philosophique vraiment sérieux: c‘est le suicide.“). Fólk sem finnur fyrir tilgangsleysi heldur jafnan áfram að lifa lífinu einfaldlega vegna hins sterka lífsvilja. Ég man þegar ég starfaði í Hjálparsveit skáta voru okkur sagðar ótal sögur af hrakningum þar sem menn hefðu með naumindum komist lífs af. Lærdómurinn af þeim sögum öllum var sá að við slíkar mannraunir skipti lífsviljinn miklu meiru en öll kunnátta og útbúnaður.

En ríkisstjórn er vitaskuld ekki lifandi vera og dauðlegum hlutum má gjarnan farga þjóni þeir ekki lengur tilgangi sínum. Fyrirtæki hættir að vera fært um að bjóða vöru og þjónustu á hagstæðum kjörum og kemst í greiðsluþrot — og venjulega er rétt að jafna við jörðu grotnandi mannvirki sem er engum til gagns lengur.

Náðarhöggið

Ég vitnaði að framan í Hómerskviður sem munu hafa verið ortar á áttundu öld fyrir Kristburð ef við gefum okkur að Hómer sé sjálfur höfundurinn. Það er ekkert skrýtið að yfir svo ævafornum sögnum sé ævintýrablær en Axlar-Björn sem ég nefndi að framan var líflátinn á Laugarbrekkuþingi 1596. Það er umtalsvert nær okkur tíma en samt sem áður getum við lesið ýkjusögur af Birni í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Þar segir svo frá dauðdaga hans að Ólafur nokkur, náfrændi hans, hefði verið fenginn sem böðull en áður enn hann var höggvinn braut Ólafur leggi frænda síns „með trésleggju og haft lint undir, svo kvölin yrði meiri“. Og þegar allir útlimir Axlar-Björns voru brotnir mun kona hans hafa mælt: „Heldur tekur nú að saxast á limina hans Björns míns.“ Bóndi mun þá hafa svarað að einn væri þó eftir — „og væri hann betur af“. Við svo búið var Björn höggvinn.

Líkingin er síður en svo falleg en vitaskuld var ekki um annað að ræða en veita ríkisstjórninni langþráð náðarhöggið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland