fbpx
Laugardagur 09.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna

Eyjan
Sunnudaginn 6. október 2024 17:30

Stríðsfyrirsögn á forsíðu DV 12. maí 2004. Forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, Friðrik krónprins Dana, María heitkona hans og Sigurður Líndal lagaprófessor.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrsta dag febrúarmánaðar 2004 skyldi þess minnst að öld var liðin frá heimastjórn með íslenskum ráðherra. Þegar komið var fram um miðjan janúar 2004 barst Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta lýðveldisins, boð um að vera viðstaddur sérstaka hátíðardagskrá í Þjóðmenningarhúsinu þar sem aldarafmælisins skyldi minnst. Ekki var þó gert ráð fyrir því að forsetinn hefði skyldum að gegna við athöfnina sjálfa. Ólafi Ragnari var misboðið að fá ekki að taka beinan þátt í hátíðarhöldunum og afréð því að sniðganga athöfnina. Hann skellti sér í staðinn á skíði í Sun Valley í Idaho í Bandaríkjunum. 

Á fyrsta degi frísins hringdi Örnólfur Thorsson, þá skrifstofustjóri forseta, til Ólafs Ragnars og tilkynnti honum að haldinn hefði verið ríkisráðsfundur um morguninn, með handhafa forsetavalds við borðsendann, þá Davíð Oddsson forsætisráðherra, Halldór Blöndal, forseta Alþingis, og Markús Sigurbjörnsson, forseta Hæstaréttar. Ólafur Ragnar renndi sér ekki meira á skíðum þann daginn.  

Davíð Oddsson hafði boðað til ríkisráðsfundar í tilefni aldarafmælis heimastjórnar án þess að forseti hefði vitneskju þar um. Ólafi Ragnari var alvarlega misboðið og í samtali við fréttamann Ríkissjónvarpsins kvaðst hann líta á það sem eina af æðstu, ef ekki æðstu, skyldum forsetans að stjórna fundum í ríkisráði og hefði hann því komið heim með hraði til að stjórna fundinum, hefði honum verið kunnugt um hann. Ólafur Ragnar leit á þetta mál sem „alvarlegustu stjórnskipulagskreppu“ sem komið hefði upp á milli forseta og forsætisráðherra frá upphafi lýðveldisins. Það voru stór orð. 

Í nýbirtum dagbókarfærslum Ólafs Ragnars Grímssonar kemur skýrt í ljós hversu alvarlegum augum hann leit þá ákvörðun að halda ríkisráðsfund að honum fornspurðum og fjarstöddum. Fyrri hluti umræddrar bókar hefur að geyma dagbókarfærslur Ólafs Ragnars frá vordögum og fram á haust 2004, einkum þær vikur sem fjölmiðlamálið svokallaða skók samfélagið. Ólafur hneykslast meðal annars á því viðhorfi ráðamanna sem þá hefði komið fram að ekki þyrfti að ræða við forseta eftir að hann væri farinn úr landi — handhafarnir færu þá einir með forsetavaldið. Og í dagbókarfærslunum rifjar hann reglulega upp ríkisráðsfundinn fræga; hann er hvarfpunktur í átökum Davíðs og Ólafs Ragnars. 

Leikþættir og slúður 

Þegar hillir undir samþykkt fjölmiðlalaganna á Alþingi skrifar Ólafur Ragnar í dagbók sína að í húfi sé „forsetaembættið, staða þess, áhrif og völd, og staða mín bæði nú, í kosningunum, og á spjöldum sögunnar“. Og þegar hann kemur til landsins ákveður hann að fara inn um aðaldyr Bessastaða (en ekki beint í íbúðarhús forseta eins og hann gerði alltaf) „til að auka á dramatíkina enda heimkoman viðvörun til valdhafanna í ríkisstjórninni“.  

Athygli vekur hversu upptekinn Ólafur Ragnar er af sögusögnum og slúðri annars vegar og þeirri ímynd sem birtist í fjölmiðlum hins vegar. Uppeldisdóttir Ólafs Ragnars hringir til hans og hefur eftir blómasölukonu í Hveragerði hvað Jóni G. Tómassyni, fyrrv. borgarlögmanni, og áðurnefndum Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar, þyki um fjölmiðlamálið. Ólafur lætur þess svo getið að hann sé mjög upp með sér vegna afstöðu umræddrar manna sem þeir hefðu greint blómasölukonunni frá, hún sagt uppeldisdótturinni sem síðan hefði komið á framfæri við Ólaf Ragnar. 

Dorrit Moussaieff forsetafrú fer ein í brúðkaup krónprinshjónanna Friðriks og Maríu og Billet-Bladet velur kjól Dorritar „kjól vikunnar“. Örnólfur Thorsson, skrifstofustjóri forsetaembættisins, talar við „Kalla á Fréttablaðinu til að koma þessu áfram og þetta kom í blaðinu í dag!“. En Ólafur telur að gott hafi verið fyrir Dorrit að mæta eina í brúðkaupið, hún hafi orðið þar með „sjálfstæðari þátttakandi í forsetaembættinu“. Dorrit ráðleggur honum að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin og segir: „They are already your enemies and all your supporters want you not to sign.“ 

Össur Skarphéðinsson er bersýnilega aðalheimildarmaður Ólafs Ragnars á Alþingi og lýsir því fyrir forsetanum að Davíð Oddsson hefði á fundi í Stjórnarráðinu barið í borðið, sagt að svona töluðu menn ekki við sig í „sínum húsum“ og „hér ræð ég“. Aldrei fyrr hefðu þeir séð hann svona en Ólafur Ragnar skrifar svo að hann hafi aftur á móti „kynnst svona æði í honum“. Forsetinn ræðir síðan við Össur um myndun nýrrar stjórnar Framsóknarflokks og Samfylkingar til að „losna undan þessu æði DO“.  

Þrá eftir að komast á spjöld sögunnar 

Nú er um að ræða hráar dagbókarfærslur, en margt í skrifum Ólafs Ragnars um Davíð Oddsson er ekki smekklegt í ljósi þess að skömmu síðar kom á daginn að Davíð var fársjúkur af krabbameini. Ólafur segir á einum stað að margir telji Davíð vera orðinn „alveg ga-ga. Svo mun hann hafa hagað sér eins og fífl niðri á þingi, leitað að forsetanum inni í skáp, ofan í dósum. Alveg brjálað. Hann er orðinn veruleikafirrtur og hömlulaus, í sínum versta ham“. Ólafur Ragnar nefnir í lok umræddrar dagbókarfærslu enn og aftur heimastjórnarafmælið og ríkisráðsfundinn sem þá var haldinn og álítur að Davíð hafi reynt að fá ógilta giftingu þeirra Dorritar. 

Þegar Ólafur Ragnar efnir til blaðamannafundarins er öll umgjörð hans útpæld: „… fáninn, málverkið sem ég nota í áramótaávarpinu, gyllti ramminn og ég einn! Þessi message, þessi tákn hafa líka skilað sér vel í stöðunni í morgun. Ég sé líka í blöðunum, forsíðunum, hvað þetta fær stóran sögulegan sess.“ „Tíu núll,“ segir Stefán Lárus Stefánsson forsetaritari. Blóm og heillaóskaskeyti berast og þegar Ólafur Ragnar mætir við opnun nýs gallerís Ingibjargar Pálmadóttur „ætlaði fólk að fara að klappa en ég stoppaði það“.  

Þegar Halldór Ásgrímsson kemur til fyrsta fundar síns sem forsætisráðherra með Ólafi Ragnari í september ræða þeir um Davíð og segir Halldór að fjandskapur Davíðs í garð Ólafs Ragnars hafi hafist frá og með alþingiskosningunum árið áður, en Davíð líti svo á að Ólafur hafi unnið með Samfylkingunni, meðal annars með þátttöku í umræðum um fátækt. Að sama skapi ræddi Ólafur Ragnar þarna um „leiðangur“ Davíðs til að sýna fram á að hjónaband þeirra Dorritar væri ógilt. Síðan barst talið að heimastjórnarafmælinu og ríkisráðsfundinum og kvaðst Halldór ekkert hafa vitað af því. 

Menn fóru fram úr sér 

Frá sjónarhóli sagnfræðings er fagnaðarefni að Ólafur Ragnar hafi ráðist í að birta umræddar dagbókarfærslur. Sjálfur skrifaði ég bók sem út kom árið 2017 og bar heitið Í liði forsætisráðherrans eða ekki? Þar greini ég meðal annars frá ríkisráðsfundinum fræga og fjölmiðlamálinu sem ákveðnum hápunkti í harðvítugum þjóðfélagsátökum sem hverfðust að stórum hluta um fyrirtækjasamteypuna Baug annars vegar og Davíð Oddsson hins vegar. 

Í viðtali sem undirritaður átti við Davíð árið 2016 sagði hann synjunina á fjölmiðlalögunum „alvörumálið í deilum okkar Ólafs Ragnars“. Áróðurinn hefði verið „ofboðslegur og Ríkisútvarpið tók undir með 365 [Norðurljósum raunar þá] svo merkilegt sem það var, það var aldrei „ballans“ á eitt eða neitt í þjóðfélaginu. Þannig að það var bara allt heila galleríið sem lagðist gegn fjölmiðlalögunum þannig að umræðan svo sem helgaðist af því“. 

Átökin um fjölmiðlamálið (og upptakturinn með ríkisráðsfundinum á heimastjórnarafmælinu) voru hvorki Ólafi Ragnari né Davíð til sóma. Báðir fóru þeir fram úr sér í orðum og gjörðum — en þarna höfðu magnast áðurnefnd þjóðfélagsátök. Samfylkingin hafði í kosningunum 2003 velgt Sjálfstæðisflokknum undir uggum og notið mikils fjárstuðnings stórfyrirtækja og velvildar fjölmiðla sem lengi síðar voru nefndir Baugsmiðlar með réttu eða röngu. 

Stjórnmálin voru eyðilögð 

Mig langar að setja fram þá tilgátu að synjun fjölmiðlalaganna 2004 marki upphafið að stórkostlegri hnignun íslenskra stjórnmála, en vart þarf að fjölyrða um það afleita ástand sem ríkt hefur á Alþingi undanfarin kjörtímabil. Svo virðist sem forystumenn Sjálfstæðisflokks hafi í kjölfar fjölmiðlamálsins dregið þá ályktun að þeir hafi misst það forskot í fjáröflun og velvild einkarekinna fjölmiðla sem þeim var búið fyrrum og því tóku þeir þátt í að ná samstöðu á Alþingi árið 2006 um að ríkisvæða stjórnmálaflokkanna og svo gott sem banna styrki fyrirtækja — þar sem þeir máttu ekki vera hærri en 300 þúsund krónur. Sjálftaka flokkanna úr vösum skattgreiðenda síðan þá er gríðarleg, en á árunum 2010 til 2022 úthlutuðu flokkarnir sér sjö milljörðum króna úr ríkissjóði (miðað við verðlag ársins 2022). Hér eru ótaldir styrkir sveitarfélaga og laun pólitískra aðstoðarmanna þingmanna og ráðherra sem eru samtals orðnir um fimmtíu talsins.  

Afleiðing þessa er sú að félagsstarf í flokkunum, hið eiginlega flokksstarf, er farið veg allrar veraldar, lítil sem engin stefnumótun á sér stað, ríki og flokkar hafa ruglað saman reytum og svokölluð „grasrót“ í flestum flokkum ekkert annað en samansafn fáeinna bitlingaþega. Ólafur Ragnar orðaði það svo á sínum tíma að myndast hefði „gjá milli þings og þjóðar“. Leiða má að því rök að ein alvarlegasta afleiðing átakanna um fjölmiðlamálið til langs tíma hafi orðið fullkomið vantraust á stjórnmálin. „Lýðræðisbyltingin“ sem Ólafur Ragnar sá fyrir sér varð ekki — þvert á móti átti sér stað niðurbrot stjórnmálastarfs, atgervisflótti af þingi og afleiðingin er sambandsleysi almennings og sístækkandi stjórnmálastéttar. 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sisona

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sisona
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
27.09.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri