fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Eyjan
Sunnudaginn 20. október 2024 16:30

Þriðja ráðuneyti Ólafs Thors á ríkisráðsfundi. Frá vinstri: Jóhann Þ. Jósefsson atvinnumálaráðherra, Björn Ólafsson, fjármála- og viðskiptamálaráðherra, Ólafur Thors, forsætis- og félagsmálaráðherra, Sveinn Björnsson forseti Íslands, Bjarni Benediktsson, utanríkis-, dóms- og menntamálaráðherra., Jón Pálmason landbúnaðarráðherra. Heimild: vefsvæði Stjórnarráðsins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir réttri viku hafði ég gengið frá reglulegum helgarpistli um dauðateygjur ríkisstjórnarinnar (og tilgangsleysi þess að halda hinu vonlausa stjórnarsamstarfi til streitu) rétt áður en Bjarni Benediktsson tilkynnti að komið væri að leiðarlokum. Á þeirri viku sem liðin er hefur mikið vatn runnið til sjávar. Raunar eru fregnir af framboðsmálum flokka svo örar að við hinir fréttaþyrstu höldum vart í við tilkynningaflóðið.

Fyrir fáeinum vikum gerði ég bölmóðinn í samfélaginu að umtalsefni og velti því upp hvort hann stæði ekki að stórum hluta í samhengi við ástandið í stjórnmálunum; enn var við völd ríkisstjórn sem menn vissu að væri ófær um að takast á við vandasömustu úrlausnarefnin sem helst brenna á landsmönnum. Þau yrðu þar með látin reka á reiðanum, jafnvel í ár til viðbótar. Sú tilhugsun var út af fyrir sig þrúgandi og nú skynja ég mikinn létti víðast hvar sem ég kem, nema kannski meðal liðsmanna Vinstri grænna sem hugðust sprengja stjórnina á eigin forsendum og hjá sumum framsóknarmönnum sem telja sig engan veginn tilbúna í kosningabaráttu.

Af fyrri minnihlutastjórnum

Nýkjörinn forseti Íslands stóð að málum með fumlausum hætti og segir mér hugur að afskipti forsetans af stjórnmálunum nú séu ekkert í líkingu við það sem lesa má um í nýútgefnum dagbókarfærslum Ólafs Ragnars Grímssonar. Í þeirri bók er meðal annars fjallað um minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og nú er ný minnihlutastjórn sest að völdum um stundarsakir, þar eð sá sögulegi atburður átti sér stað að Vinstri grænir neituðu að eiga sæti í starfsstjórn og ráðherrar þeirra tæmdu skrifstofur sínar í flýti (en mættu þó á ráðherrabílunum til síðasta ríkisstjórnarfundarins).

Minnihlutastjórnir eru fátíðar hér á landi og jafnan setið aðeins skamma hríð en í því ljósi og eftir að hafa hlýtt á umræður um þingrof og þingrofsrétt í liðinni viku varð mér hugsað til ástandsins í stjórnmálunum á fimmta áratugnum. Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, varð þá í tvígang forsætisráðherra minnihlutastjórna en hin síðari var mynduð eftir alþingiskosningarnar 1949. Það var til marks um eldfimt ástandið í pólitíkinni þá að stjórnin hafði ekki nokkurt vilyrði fyrir stuðningi eða hlutleysi enda fór það svo að samþykkt var vantrausttillaga á stjórnina 1. mars 1950 með 33 atkvæðum gegn 18. Þetta er í eina sinn sem Alþingi hefur samþykkt vantraust á ríkisstjórn. Eðli máls samkvæmt hélt Ólafur Thors við svo búið til fundar við Svein Björnsson forseta sem féllst á lausnarbeiðni stjórnarinnar en fór þess á leit við forsætisráðherra að hún sæti sem starfsstjórn uns ný hefði verið mynduð. Hermanni Jónassyni, formanni Framsóknarflokks, var falið að mynda nýja stjórn við svo búið en það bar engan árangur og skilaði hann forseta umboðinu þegar hinn 6. mars.

Í kjölfarið hélt starfandi forsætisráðherra til fundar við forseta ásamt Bjarna Benediktssyni, utanríkis-, dóms- og menntamálaráðherra og varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Þar kom til tals að forseti veitti forsætisráðherra heimild til þingrofs. Þær umræður urðu ekki lýðum kunnar fyrr en þremur áratugum síðar þegar út kom ævisaga Ólafs Thors eftir Matthías Johannessen. Í bókinni segir frá því að Ólafur hefði metið það svo að öngþveiti væri fram undan þar eð enginn gæti myndað stjórn er nyti stuðnings meirihluta þings. Við forseta hefði Ólafur mælt: „Herra forseti, við leggjum því til, að þing verði rofið tafarlaust og gengið verði til kosninga. Við munum þá, ef herra forseti vill gefa okkur þingrofsréttinn, lögfesta gengislækkunina og allt það, sem nauðsynlegt er í því frumvarpi, þegar í stað daginn eftir að þingmenn hafa farið heim.“

Sveinn mun hafa spurt þá hvort þeir væru reiðubúnir að takast á við þá áhættu sem væri samfara þingrofi og svöruðu þeir því játandi. Ekki er hægt að fullyrða hversu formleg beiðni um þingrof var (rétt eins og deilurnar um hina meintu þingrofsbeiðni 2016) og þá er vert að rifja upp að um minnihlutastjórn var að ræða — sem í ofanálag hafði fengið á sig vantraust. Minn gamli prófessor, Sigurður Líndal, hafði þessa sögu þó til marks um að forseta væri heimilt að synja forsætisráðherra um þingrof, enda yrði forseti ekki þvingaður til stjórnarathafna. Svo fór og að Sveinn féllst ekki á veita forsætisráðherra heimild til þingrofs og hugði á myndun utanþingsstjórnar, líkt og hann hafði gert átta árum fyrr við lítinn fögnuð flokksleiðtoga. Sú ógn að eiga yfir höfði sér nýja utanþingsstjórn varð til þess að forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sáu sitt óvænna og mynduðu stjórn undir forystu Steingríms Steinþórssonar búnaðarmálastjóra (en þeir Ólafur og Hermann gátu ekki unað hvor öðrum að vera forsætisráðherra).

Forseti að blanda sér í pólitík

Ég heyrði í umræðum um þingrof í liðinni viku að ýmsir rifjuðu upp þingrofið 1974. Kristján Eldjárn forseti samþykkti ekki þingrofsbeiðni Ólafs Jóhannessonar þegar í stað heldur ráðfærði sig við trúnaðarvini sína fyrst og varð niðurstaðan sú að forseti skyldi fallast á beiðni forsætisráðherra án þess að leitað yrði álits forystumanna annarra flokka.

Eftir að Ólafur Jóhannesson hafði lesið upp forsetabréfin var þing rofið og þingheimur sviptur umboði eins og þáverandi þingrofsákvæði stjórnarskrár gerði ráð fyrir en þessu var breytt með stjórnskipunarlögum 1991 og halda þingmenn nú umboði sínu til kjördags. Þingrof er því ekki sama vopn í höndum forsætisráðherra og áður.

Þingrofið 1974 var í meira lagi umdeilt en í viðtalsþætti Sjónvarpsins 10. maí 1974 sagði Ólafur að forsætisráðherra hefði „rétt til þess að fara til forseta og segja: Ég óska eftir því að þing sé rofið, þá er forseti skyldugur til að verða við þeim tilmælum starfandi forsætisráðherra“. Hann var þá þegar í stað spurður hvort þetta ætti einnig við ef meirihluti Alþingis væri á öndverðum meiði. Ólafur svaraði þá að bragði að það stæðist, færi forsetinn ekki að ósk forsætisráðherra væri hann að blanda sér í pólitík.

Þetta hefur ýmsum þótt kyndugt svar því í fræðiriti því um stjórnskipun Íslands sem Ólafur samdi og notað var við kennslu í Háskólanum um áratugaskeið sagði að við þær aðstæður að ósk forsætisráðherra um þingrof væri í andstöðu við vilja annarra stjórnarflokka væri forseta óskylt að verða við tilmælum um þingrof.

Hér sjáum við líklega mætast tvo menn í Ólafi Jóhannessyni, annars vegar stjórnmálaforingjann og hins vegar fræðimanninn. Því má velta upp hvort Ólafi hafi verið stætt á að taka svo sterkt til orða hefði verið almenn vitneskja um synjun Sveins Björnssonar á beiðni um þingrof 1950 — hversu afgerandi sem sú beiðni annars var. Fyrirmyndirnar skipta meginmáli. Við sjáum til að mynda hvernig ekki er rætt um synjunarvald forseta öðruvísi en nefna dæmin þrjú þegar því var beitt og eins kemur eina landsdómsmálið sem dæmt hefur verið upp í hugann þegar rætt er um landsdóm (þó svo að það teljist seint gott dæmi um mál sem ætti erindi þangað).

Myndin sem við blasir er brotakennd

Sögulegu dæmin verða hluti af heildarmyndinni en þegar ég fletti áðurnefndri frásögn upp í ævisögu Ólafs Thors í liðinni viku varð mér hugsað til þess hversu brotakennda mynd við höfum alla jafna af raunveruleikanum og kannski er það vandi sagnfræðinnar í hnotskurn.

Eins og ég nefndi að framan kann að vera að lykilupplýsingar séu okkur huldar og skynjun á atburðum því að einhverju marki brengluð. Mér þykir blasa við að talsvert mikið vantar inn í myndina nú — hvað gekk á í aðdraganda stjórnarslita, hver var atburðarásin að tjaldabaki? Sagnfræðinga framtíðarinnar bíður það verkefni að segja okkur frá því — en þá verða þýðingarmestu upplýsingarnar þeim mögulega ekki tiltækar. Ýmsir kunna líka að vilja þegja um málin fram til lokadags, menn eru mismálglaðir og misáhugasamir um að skapa sér sess í sögunni.

Segir mér hugur að komandi kosningar muni hafa í för með sér pólitísk umskipti — verði sögulegur viðburður — rétt eins og þeir löngu liðnu atburðir sem ég minntist á hér að framan. En megindrættina verður engin leið að greina fyrr en frá líður. Með það í huga væri óskandi að sem flestir þeir sem nú standa í hringiðunni haldi dagbækur og riti minnispunkta. Slík einkagögn skiptu lykilmáli við skrásetningu þeirra sögulegu atburða sem getið var hér að framan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
29.09.2024

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki
EyjanFastir pennar
28.09.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála
EyjanFastir pennar
22.09.2024

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur
EyjanFastir pennar
21.09.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Litla græna hagkerfið sem brennir olíu

Sigmundur Ernir skrifar: Litla græna hagkerfið sem brennir olíu