fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Eyjan
Sunnudaginn 10. mars 2024 19:15

Unnið að framkvæmdum á Laugavegi árið 1987. Fjöldi verslana og iðandi mannlíf.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykjavík er dálítið einkennileg í laginu. Hún byggðist í fyrstu utarlega á nesi svo vaxtarmöguleikar voru einkum og sér í lagi í austri. Þetta hafði í för með sér að gamli bærinn — miðbærinn — færðist sífellt fjær þungamiðju byggðar. Því var ekki að undra að verslun og þjónusta dreifðist með tímanum vítt og breitt um borgarlandið en vegna losarabrags á skipulagsmálum í Reykjavík breyttust iðnaðarhverfi í Múlum og Skeifu til að mynda í verslunarhverfi. Þrátt fyrir að hús á þessum slóðum þjóni vel hlutverki sínu sem verslunarhús með greiðu aðgengi skortir þetta svæði flesta þá eiginleika sem prýða góðar verslunargötur. Þá er umhverfið heldur ekki sérlega aðlaðandi.

Varnaðarorð að engu höfð

Þrátt fyrir að verslun og þjónusta hyrfi að stærstum hluta úr gamla bænum á síðustu áratugum tuttugustu aldar var enn fram í byrjun þessarar aldar allnokkur miðbæjarstarfsemi við Laugaveg og Skólavörðustíg. Mér er málið skylt þar sem ég hóf störf í einni kunnustu verslun bæjarins haustið 2000, Verslun Guðsteins Eyjólfssonar sf. sem stofnuð var 1918 og rekin hafði verið af sömu fjölskyldu alla tíð. Þá voru enn nokkur gamalgróin verslunarfyrirtæki við götuna sem þjónað höfðu kynslóðum Reykvíkinga, stöndug fyrirtæki með mikla sögu. Það var gæfa mín að kynnast flestum hinna rótgrónu kaupmanna í nágrenninu og þegar borgaryfirvöld undir forystu Jóns Gnarrs borgarstjóra hófu að þrengja að atvinnurekstri á svæðinu stofnuðu hinir gamalreyndu kaupmenn með sér samtök og báðu mig að aðstoða sig. Mér rann blóðið til skyldunnar enda mjög annt um miðbæinn.

Þegar ég set þessar línur á blað líður mér satt best að segja eins og ég sé að rita minningarorð um náin vin því varla er neitt eftir af þeim Laugavegi sem ég þekkti. Það var engu líkara en borgaryfirvöld hefðu að takmarki að útrýma verslun úr miðbænum með götulokunum, fækkun bílastæða, þrengingu gatna, síhækkandi bílastæðagjöldum, framkvæmdum sem drógust úr hömlu og við bættist að strætisvagnasamgöngur við miðbæinn voru skertar til muna. Við vöruðum ítrekað við því hvaða afleiðingar þetta hefði en allt kom fyrir ekki — ekki var hlustað á neinar mótbárur þeirra sem besta þekkingu höfðu á umhverfinu og rekið höfðu fyrirtæki í miðbænum um áratugaskeið.

Eina ljósið í myrkrinu var stóraukinn ferðamannastraumur til landsins sem glæddi gamla bæinn lífi en Íslendingar hafa lítið sem ekkert þangað lengur að sækja nema á síðkvöldum um helgar. Og á dögunum var sagt frá því fréttum að verslunin þar sem ég starfaði sé á förum af Laugaveginum — en hún á sér sem betur fer framhaldslíf í Ármúlanum. Þrátt fyrir þetta má velta því upp hversu áhugaverður áfangastaður miðbærinn er í reynd fyrir erlenda ferðamenn — þar sem þeir hitta varla nokkra landsmenn, áletranir eru jafnan ekki á íslensku og alls kyns sóðaskapur er látinn viðgangast, til að mynda að þriðja flokks popptónlist sé látin óma í hátölurum utan við miskræsileg öldurhús.

Brenglað verðmætamat

Bolli Kristinsson, kaupmaður í versluninni Sautján, var í forsvari fyrir samtök kaupmanna sem við stofnuðum. Hann orðaði það svo í viðtali fyrir tólf árum að Reykjavík væri

„ein besta borg í heimi til að búa í, við eigum hús til að þjóna öllum hlutum, flott gatnakerfi og torg, sundlaugar, íþróttamannvirki, útivistarsvæði og svo mætti lengi telja. En við eigum aðeins einn laskaðan miðbæ og ef hann deyr alveg verður borgin miklu fátækari. Miðbærinn hefur staðnað mikið síðustu áratugi og borgaryfirvöld hafa beinlínis staðið í vegi fyrir eðlilegri framþróun hans og þá hefur litlu skipt hvaða flokkar eru við völd.“

Það er verulega umhugsunarvert hvers vegna borgaryfirvöld vildu ekki hlýða á raddir þeirra sem best til þekktu. Einu gilti hversu ígrundaðar röksemdir við tíndum til, hversu rækilegar greinargerðir voru unnar á grundvelli besta fáanlegu gagna, talnaefnis og erlendra skýrslna um miðbæjarmál — við vorum vart virtir viðlits af hinum háu herrum í Ráðhúsinu.

Hroki ráðamanna í þessu efni hefur valdið mér heilabrotum en merki hins sama má sjá víða þar sem bestu þekkingu er hafnað, ekki er hlýtt á raddir þeirra sem gerst til þekkja. En þarna birtist líka að einhverju marki brenglað verðmætamat: að sjá ekki gildi í mannlífinu sem fylgir verslunarrekstri. Að sama skapi var um að ræða virðingarleysi gagnvart því fólki sem staðið hafði vaktina í verslunum sínum um áratugaskeið, greitt skatta og skyldur til samfélagsins, veitt fjölda fólks atvinnu og glætt borgina lífi. Reykjavík er orðin til muna fátækari án eiginlegrar verslunargötu. Hún hefur glatað hluta af sál sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
30.10.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?