Þrír af þessum andstæðingum hans stigu nýlega á svið á „Principles First“ ráðstefnunni í Washington D.C. og hlutu standandi lófaklapp fundargesta.
Markmiðið með ráðstefnunni var, eftir því sem Cassidy Hutchinson, sem starfaði fyrir síðasta starfsmannastjóra Trump í Hvíta húsinu, segir að sameina íhaldskrafta og koma þeim „aftur til raunveruleikans“. „Að fá fólk til að hætta að trúa á samsæriskenningarnar og lygarnar sem Trump stendur á bak við,“ sagði hún.
Ásamt henni tóku Sarah Matthews, fyrrum talskona Trump í Hvíta húsinu, og Alyssa Farah Griffin fyrrum forstjóri samskiptamála Hvíta hússins, þátt í ráðstefnunni. Faðir Griffin er einarður stuðningsmaður Trump og sniðgekk brúðkaup dóttur sinnar eftir að hún varaði kjósendur opinberlega við að styðja Trump í forsetakosningunum.
Þessar þrjár konur eru langt frá því að vera einu andstæðingar Trump úr hópi fyrrum starfsmanna hans að sögn Jótlandspóstsins.
Stór hópur fyrrum starfsmanna hans hringir viðvörunarbjöllum og horfir áhyggjufullur á hvernig Trump sigrar í hverju forvalinu á fætur öðru. Meðal þeirra eru Mike Pence varaforseti hans, margir starfsmannastjórar, fólk úr ríkisstjórn hans, háttsettir hernaðarráðgjafar, lögmenn og fjölmiðlafólk.
Samantekt, sem var gerð á síðasta ári, sýndi að minnst 24 háttsettir aðilar úr innsta hring hans vara nú opinberlega við honum endurkjöri hans.
Á móti hafa aðeins sex háttsettir aðilar úr ríkisstjórn hans lýst yfir stuðningi við framboð hans og aðeins einn af fjórum starfsmannastjórum hans.
Í samtali við Washington Post, sagði John F. Kelly, sá starfsmannastjóri Trump í Hvíta húsinu sem gegndi embætti lengst, að hann horfi með vaxandi örvæntingu á yfirburði Trump í forkosningum Repúblikanaflokksins. „Það er ofar mínum skilningi að hann fái þann stuðning sem hann fær,“ sagði hann.