Flugfélagið PLAY hefur hafið miðasölu til tveggja nýrra áfangastaða. Annars vegar til Marrakesh í Marokkó og hins vegar Madeira í Portúgal. Flogið verður einu sinni í viku á þriðjudögum til Madeira en allt að tvisvar í viku á fimmtudögum og sunnudögum til Marrakesh.
Fyrsta flugið til Madeira verður 15. október og fyrsta flugið til Marrakesh verður 17. október. Áætlunarflug PLAY til Marrakesh verður fyrsta áætlunarflugið á milli Íslands og Afríku. Flugtíminn til Marrakesh frá Íslandi eru rétt rúmir fimm tímar en til samanburðar er flugtíminn til Tenerife um fimm og hálfur tími.
Borgin Marrakesh uppfyllir kröfur þeirra sem þurfa útrás fyrir ævintýraþrána. Götumarkaðir og einstök byggingarlist setja svip sinn á þessa sögufrægu borg þar sem er hægt að gleyma sér við að skoða handverk innfæddra. Matarmarkaðirnir sem teygja sig út í hið óendanlega eru einnig upplifun út af fyrir sig þar sem bragðlaukar munu sannarlega fá nægju sína.
Eyjan Madeira tilheyrir Portúgal og er flugtíminn frá Íslandi tæpar fimm klukkustundir. Ævintýralegar gönguferðir, sundsprettir með höfrungum og Madeira-vínið bíður þeirra sem sækja eyjuna heim og mun hún sannarlega láta engan ósnortinn.
„Við höldum áfram að stækka úrvalið sem við bjóðum upp á af áfangastöðum fyrir sólþyrsta Íslendinga og er leiðakerfið okkar í suður Evrópu eitt það veglegasta sem sést hefur á Íslandi. Við erum með átta áfangastaði á Spáni og nú þrjá sem tilheyra Portúgal. Þar að auki bætum við hinni töfrandi borg Marrakesh við leiðakerfið okkar og ég hef fulla trú á að Íslendingar muni taka vel í þessar fyrstu áætlunarferðir á milli Íslands og Afríku,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.