fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Ríkisendurskoðandi kastar fram röngum og villandi staðhæfingum um Sigurð Þórðarson og Lindarhvol í útvarpsviðtali

Ólafur Arnarson
Mánudaginn 24. júlí 2023 14:23

Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, var í löngu og mjög sérkennilegu viðtali á Sprengisandi í gær, sunnudaginn 23. júlí. Þar setti hann fram hverja staðhæfinguna á fætur annarri um Lindarhvolsmálið, skýrslu Ríkisendurskoðunar og greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda um málefni Lindarhvols, sem flestar ef ekki allar virðast vera gersamlega galnar, komandi frá háttsettum embættismanni.

Guðmundur Björgvin fullyrti að setning Sigurðar Þórðarsonar hefði sjálfkrafa fallið niður 1. maí 2018, þegar Skúli Eggert Þórðarson tók við embætti ríkisendurskoðanda af Sveini Arasyni. Eftir það hafi Sigurður verið bara einhver maður úti í bær þótt samkomulag hefði orðið milli hans og Skúla Eggerts að hann Sigurður skilaði Skúla Eggert greinargerð um sína vinnu og stöðu mála.

Þessi söguskýring Guðmundar Björgvins heldur ekki vatni. Eyjan hefur undir höndum bréf Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi forseta alþingis, dags. 20. ágúst 2018, þar sem hann staðfestir móttöku bréfs Sigurðar, dags. 27. júlí 2018, ásamt margumræddri greinargerð.

Steingrímur skrifar: „Eins og rakið er í bréfi þínu hefur þú lokið starfinu og ríkisendurskoðandi tekið við frekari meðferð málsins. Ert þú því hér með leystur frá starfi þínu sem settur ríkisendurskoðandi.

Forseti Alþingis vill fyrir hönd Alþingis þakka þér fyrir störf þín.“

Þetta er 10. ágúst en ekki 1. maí.

Skilningur allra að umboð Sigurðar væri virkt

Þá má geta þess að vinnuskjöl og -gögn sem Sigurður viðaði að sér í starfi sínu sem settur ríkisendurskoðandi og nýtti við vinnslu greinargerðarinnar sumarið 2018 voru áfram í hans vörslu þar til hann skilaði af sér greinargerðinni til Alþingis. Þetta var með samþykki Skúla Eggerts. Hafi Sigurður ekki verið settur ríkisendurskoðandi heldur bara einhver einstaklingur úti í bæ á þessum tíma hlýtur að vakna sú spurning hvort Skúli Eggert hafi ekki gerst sekur um alvarleg afglöp í stafi með því að leyfa einstaklingi alls ótengdum Ríkisendurskoðun haf hafa slík gögn trúnaðargögn í fórum sínum í þrjá mánuði.

Af ofangreindu er ljóst að Skúli Eggert Þórðarson, ríkisendurskoðandi, Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, litu allir svo á að setning Sigurðar héldi gildi sínu þar til hann skilaði greinargerð sinni til forseta Alþingis.

Fabúleringar Guðmundar Björgvins um annað eru hugarfóstur hans sjálfs og eftiráskýringar sem henta hans málflutningi en hafa engin tengsl við staðreyndir og atvik.

Guðmundur Björgvin staðhæfði einnig í viðtalinu við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi að Sigurður Þórðarson hefði farið út fyrir sitt umboð er hann óskaði eftir upplýsingum frá stjórn Lindarhvols um tiltekna þætti í starfsemi félagsins og viðskipti þess við aðra aðila.

Mögulega er Guðmundur Björgvin svo illa að sér um starfsemi og hlutverk ríkisendurskoðanda að einhverjum hafi tekist að ljúga því að honum að Sigurður Þórðarson hafi haft takmarkað umboð sem settur ríkisendurskoðandi. Löggiltir endurskoðendur lýstu áhyggjum sínum af því á síðasta ári, er Alþingi kaus Guðmund Björgvin sem ríkisendurskoðanda til sex ára, að hann hefur ekki menntun á sviði endurskoðunar heldur er hann stjórnmálafræðingur. Gerðar voru athugasemdir við að í þetta mikilvæga embætti væri kosinn stjórnmálafræðingur þegar sex löggiltir endurskoðendur voru meðal umsækjenda.

Fullt og óskorað umboð sem ríkisendurskoðandi

Í setningarbréfi Einars Kr. Guðfinnssonar, þáverandi forseta Alþingis, til Sigurðar Þórðarsonar, dags. 19. september 2016, stendur orðrétt: „… eruð þér hér með settur ríkisendurskoðandi til að annast endurskoðun reikninga félagsins og hafa eftirlit með starfsemi félagsins og framkvæmd ofangreinds samnings.“ Af þessu er greinilegt að forseti Alþingis felur Sigurði almennt umboð sem ríkisendurskoðandi varðandi alla hluti sem snúa að Lindarhvoli, enda var Sveinn Arason, þáverandi ríkisendurskoðandi vanhæfur vegna þess að stjórnarformaður Lindarhvols var bróðir hans.

Samningurinn sem vísað er til er samningur milli fjármála- og efnahagsráðherra og Lindarhvols, sem meðal annars kveður á um að stjórn Lindarhvols skuli sjálfstætt meta verðmæti þeirra eigna sem félagið ráðstafar.

  1. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga eru svohljóðandi:
  • Ríkisendurskoðandi getur krafist reikningsskila, upplýsinga og gagna af aðilum sem falla undir eftirlit hans og þeim sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu, þ.m.t. um það hvernig fjármunum var ráðstafað.
  • Til þess að sannreyna efni innsendra reikninga og greiðsluskyldu ríkissjóðs hefur ríkisendurskoðandi aðgang að frumgögnum eða skýrslum sem færðar eru samhliða reikningsgerð á hendur ríkinu eða ríkisstofnunum fyrir vinnu eða þjónustu á grundvelli laga, verksamninga eða gjaldskrársamninga við einstaklinga, félög eða stofnanir.
  1. mgr. 11. gr. sömu laga er svohljóðandi:
  • Í störfum sínum hefur ríkisendurskoðandi aðgang að öllum gögnum sem máli skipta, þar á meðal bókhaldi, fylgiskjölum, skýrslum og bréfum. Þá getur hann krafist upplýsinga og gagna sem geta haft þýðingu við störf hans. [Ríkisendurskoðandi hefur aðgang að þeim upplýsingum sem geymdar eru í upplýsingakerfum opinberra aðila sem nauðsynlegar teljast svo að hann geti haft eftirlit með og endurskoðað eignir og fjárreiður ríkisins hverju sinni. Í því felst m.a. að skattyfirvöld skulu veita ríkisendurskoðanda aðgang að niðurstöðum álagningar með viðeigandi afstemmingum á því formi sem ríkisendurskoðandi óskar. Þá skulu skattyfirvöld veita ríkisendurskoðanda aðgang að þeim skattgögnum sem nauðsynleg eru hverju sinni svo að unnt sé að staðfesta að tekjur ríkisins séu rétt ákvarðaðar. Aðgangur að upplýsingum framangreindra aðila skal veittur án endurgjalds. Ríkisendurskoðandi heldur skrá yfir öll skattframtöl einstaklinga og lögaðila sem veittur er aðgangur að í því skyni að sannreyna réttar tekjur ríkisins. Viðkomandi einstaklingi eða lögaðila verður tilkynnt um slíka uppflettingu.] 1)

Með hliðsjón af þessu er það fráleit staðhæfing hjá Guðmundi Björgvin að halda því fram að Sigurður Þórðarson hafi farið út fyrir umboð sitt sem settur ríkisendurskoðandi þegar hann bað um frumgögn og svör við spurningum um óútskýrð fjárútlát.

Ríkisendurskoðandi ekki menntaður endurskoðandi

Guðmundur Björgvin kveinkaði sér í viðtalinu undan því að fjölmiðlar gerðu að umfjöllunarefni menntun hans, eða öllu heldur menntunarskort þar sem hann er ekki endurskoðandi en gegnir engu að síður embætti ríkisendurskoðanda. Hann er heldur ekki lögfræðingur en telur sig samt þess umkominn að gefa lögfræðiskýringar.

Fyrr var þess getið að löggiltir endurskoðendur gerðu athugasemdir við að Guðmundur Björgvin, stjórnmálafræðingur, skyldi í fyrra vera kosinn ríkisendurskoðandi af Alþingi. Stjórnmálafræðingurinn hefur líka talið sig til þess bæran að slengja fram lögfræðilegum staðhæfingum sem ganga þvert gegn lögfræðiálitum færustu lögspekinga, þar með talið lagatúlkun Skúla Magnússonar, umboðsmanns Alþingis, um heimildir/skyldu til að birta opinberlega greinargerð Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol.

Sigurður Þórðarson furðaði sig nýlega í viðtali við Morgunblaðið á glannalegum yfirlýsingum Guðmundar Björgvins um störf hans og nálgun í starfi sem settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols. Menn yrðu að átta sig á því út á hvað endurskoðun gengur, sagði Sigurður meðal annars.

Leikurinn stendur enn

Guðmundur Björgvin greip til íþróttalíkingar og sagði Lindarhvolsmálið vera fótboltaleik þar sem búið væri að skipta Sigurði Þórðarsyni út af. Raunar væri leiknum lokið og Skúli Eggert Þórðarson hefði átt boltann og farið heim með hann. Núna væri boltinn í fórum Guðmundar Björgvins.

Með þessu átti Guðmundur Björgvin við að leiknum hefði lokið þegar Skúli Eggert skilaði skýrslu sinni um Lindarhvol til Alþingis vorið 2020.

Guðmundi Björgvin til upplýsingar ver vert að benda á að Lindarhvols leiknum er hvergi nærri lokið. Hann er í framlengingu og Sigurður Þórðarson er enn í fullu fjöri inni á leikvellinum. Leiknum er ekki lokið vegna þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur ekki treyst sér til að afgreiða skýrslu Skúla Eggerts og liggur hún því óafgreidd inni á borði hjá nefndinni.

Ástæða þess að nefndin hefur ekki getað afgreitt skýrslu Skúla Eggerts er að nefndinni hefur fram til þessa verið meinað að hafa greinargerð Sigurðar Þórðarsonar til hliðsjónar við umfjöllun um skýrslu Skúla Eggerts, en greinargerðin og skýrslan eru svo ólíkar að engu er líkara en þær séu um tvö óskyld mál.

Guðmundur Björgvin sakaði Sigurð Þórðarson um að vera með dylgjur í greinargerð sinni og nefndi sem dæmi söluna á Klakka, en Klakki var seldur á hálfan milljarð til hóps fjárfesta sem stjórnendur félagsins fóru fyrir. Sagði Guðmundur Björgvin það ekki benda til að selt hafi verið á undirverði að síðar hafi komið í ljós að verðmæti félagsins var tvöfalt söluverð.

Þarna skautar ríkisendurskoðandi fram hjá því að nokkrum mánuðum fyrir söluna á Klakka lá fyrir verðmat á félaginu, sem stjórn Klakka lét Deloitte vinna fyrir sig, sem sýndi að verðmæti þess væri milljarður en ekki hálfur milljarður. Framkvæmdastjóri Lindarhvols sat í stjórn Klakka fyrir hönd stjórnar Lindarhvols og því þarf ekki að deila um að stjórn Lindarhvols var fullljóst að verið var að selja félagið á hálfvirði.

Eitt af því sem gagnrýnt var við söluna á Klakka var að stjórn Lindarhvols veitti engar upplýsingar um eignina og seldi hana svo á hálfvirði til þess eina hóps fjárfesta sem vissi mæta vel hvert verðmæti félagsins var.

Hvert er hlutverk ríkisendurskoðanda?

Guðmundur Björgvin sagði í viðtalinu að umræðan um Lindarhvol væri upp úr því sprottin að fyrrverandi eigendur og stjórnendur Exista héldu þessu máli á lofti því að þeir væru svo vonsviknir með að hafa ekki hreppt Klakka í útboðinu haustið 2016.

Þarna reiðir ríkisendurskoðandi hátt til höggs og óvíst er að mat hans á áhrifamætti Existamanna sé raunsætt. Samkvæmt þessum orðum ríkisendurskoðanda eru Existamenn með alla stjórnarandstöðuna á Alþingi í vasanum og geta beitt henni fyrir sig að vild. Ætli Guðmundur Björgvin treysti sér til að standa við þær dylgjur?

Þá er ónefnt að Sigurður Þórðarson sendi greinargerð sína til ríkissaksóknara ásamt fylgibréfi þar sem farið er yfir helstu álitaatriði hennar og óskað eftir því að málið verði tekið til viðeigandi meðferðar.

Eftir að hafa farið yfir greinargerðina og fylgigögn hennar var það mat ríkissaksóknara að ástæða væri að vísa málinu til embættis héraðssaksóknara til efnislegrar meðferðar og þar er málið nú statt – komið í eðlilegt ferli sakamáls hvað sem líður og bíður tauti ríkisendurskoðanda. Enda blasir við þeim sem vilja skoða þetta mál fordómalaust að Í Lindarhvoli kunna að hafa verið framin alvarleg umboðssvik sem hafa kostað íslenska ríkið – og þar með skattgreiðendur – milljarða og jafnvel milljarðatugi.

Maður skyldi ætla að eitt hlutverk ríkisendurskoðanda væri að afhjúpa slíkt og standa vörð um hagsmuni ríkisins en ekki þeirra sem ræna það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta