fbpx
Þriðjudagur 05.desember 2023
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Leiða skattahækkunaráformin til blokkamyndunar?

Eyjan
Fimmtudaginn 9. nóvember 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hlutfall heildarskatta af þjóðarframleiðslu hefur ekki breyst í neinum grundvallaratriðum á þessari öld. Kosningar hafa því ekki í langan tíma haft afgerandi áhrif á þetta helsta bitbein hægri og vinstri hugmyndafræði.

Trúlega er það ein helsta ástæðan fyrir því að hér hafa ekki myndast tvær blokkir hægri og vinstri flokka við stjórnarmyndanir eins og á öðrum Norðurlöndum.

Brestur sáttin um stærð ríkiskerfisins?

Þetta gæti nú verið að breytast.

Samfylkingin hefur kynnt hugmyndir um meiri hækkun skatta en elstu menn muna til að skapa svigrúm til aukinna velferðarútgjalda. Hún gengur jafnvel lengra en VG fyrir sex árum.

Skattamálin gætu því haft meiri áhrif á stjórnarmyndun eftir næstu kosningar en áður.

Ísland er í hópi þeirra velferðarríkja, sem innheimta mesta heildarskatta. Útgjöld til heilbrigðismála eru á hinn bóginn heldur lægri en hjá þeim velferðarþjóðum, sem við jöfnum okkur helst við eins og önnur Norðurlönd.

Þetta segir okkur að vandi velferðarkerfisins hér stafar ekki af of lágri skattheimtu. Við verjum hins vegar hærra hlutfalli útgjalda í vexti.

Spurningin er hvort sáttin um stærð ríkiskerfisins og hlut atvinnulífsins í þjóðarbúskapnum gæti verið að bresta.

Skattahækkunaráform ríkisstjórnarflokkanna

Ríkisstjórnin er líka með umfangsmikil plön um hærri skatta vegna framkvæmda í samgöngumálum, auk hækkunar umferðarskatta, sem kynnt var á dögunum.

Mesta hækkunin felst í svokölluðum flýtigjöldum. Þau eiga að standa undir stórum framkvæmdum í samgöngumálum, þar á meðal hluta samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Ríkisstjórnin hefur dregið í mörg ár að leggja þessar boðuðu skattahækkanir fyrir Alþingi.

Komi öll skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar vegna samgöngumála til framkvæmda gætu þau jafngilt þegar boðuðum skattahækkunum Samfylkingar á fyrirtæki og einstaklinga vegna heilbrigðismála, sem ætla má að nemi allt að sextíu milljörðum króna á átta árum.

Samfylkingin á svo eftir að kynna skattahækkanir vegna útgjaldaaukningar til annarra velferðarverkefna.

Samgöngusáttmálinn eða velferðarmálin

Klári ríkisstjórnin sitt dæmi fyrir kosningar gæti það þrengt svigrúm til annarra skattahækkana að þeim loknum.

Hiki ríkisstjórnin aftur á móti fram yfir kosningar með sínar hækkanir gæti Samfylkingin og þeir flokkar, sem fylgja skattahækkunarstefnu hennar, staðið andspænis erfiðu vali:

Er hægt að skella skattahækkunum á báðum sviðum samtímis á almenning? Ef ekki: Hvort verður samgöngusáttmálinn settur í forgang eða velferðarmálin?

Þrjár mögulegar blokkir

Flest bendir til þess að VG, Píratar, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn gætu myndað blokk með Samfylkingu um skattahækkunaráfom hennar.

Samkvæmt skoðanakönnunum hafa þessir flokkar öruggan meirihluta til að hrinda þeim í framkvæmd. Vinstri blokk um þennan málstað hefur eins og sakir standa meirihluta í könnunum án Sósíalistaflokks.

Lengst til hægri eru svo Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur. Þeir tala um samdrátt ríkisumsvifa. Miðflokkurinn styður væntanlega samgönguskattahækkanir, aðrar en þær sem snúa að almenningssamgöngum. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn klofinn. Báðir flokkar eru andvígir hækkun auðlindagjalda.

Næst miðjunni eru svo Framsókn og Viðreisn. Báðir flokkar styðja hækkun auðlindagjalda og samgönguskatta. Þeir hafa hins vegar ekki tekið undir þær miklu almennu skattahækkanir sem Samfylkingin boðar.

Miðjuflokkarnir eru svipaðir að stærð í könnunum. Þeir þyrftu nokkra fylgisaukningu til að tryggja jafnvægi í þessu stærsta hugmyndafræðilega viðfangsefni stjórnmálanna við næstu stjórnarmyndun.

Sami hræringur kann þó að vera borinn á borð

Á lýðveldistímanum hefur einu sinni verið mynduð hrein vinstristjórn og einu sinni hrein hægri stjórn.

Líkurnar á því að endurskilgreining nýrrar forystu Samfylkingar á kjarna jafnaðarstefnunnar leiði til skarpari blokkamyndunar flokka á Alþingi velta á því hvort hún ætlar að standa og falla með hugmyndinni um stærra ríkiskerfi með hærri sköttum til að auka velferðar- og heilbrigðisútgjöldin.

Ekki er þó unnt að loka augunum fyrir hinu að ný forysta Samfylkingar hefur sett mörg stór umbreytingamál í salt. Það á við um aukinn jöfnuð á fjármálamarkaði með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru og tímabindingu aflaheimilda með uppboði.

Þetta gæti þýtt að markmiðið sé að halda opnum möguleika á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á sömu forsendum og VG. Þá yrði sami hræringur áfram borinn á borð í stað blokkamyndunar um hugmyndafræði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gaman að vera ráðherra

Svarthöfði skrifar: Gaman að vera ráðherra
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Óhófsandi og skattasýki

Björn Jón skrifar: Óhófsandi og skattasýki
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við höfum brugðist landbúnaðinum

Sigmundur Ernir skrifar: Við höfum brugðist landbúnaðinum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hamfarir, skattar og pólitík

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hamfarir, skattar og pólitík
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Loksins kom skjaldborgin – skjaldborg heimilanna um fyrirtæki auðmanna

Svarthöfði skrifar: Loksins kom skjaldborgin – skjaldborg heimilanna um fyrirtæki auðmanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum öll Grindvíkingar

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum öll Grindvíkingar
EyjanFastir pennar
04.11.2023

Óttar Guðmundsson skrifar: Ísrael

Óttar Guðmundsson skrifar: Ísrael
EyjanFastir pennar
03.11.2023

Svarthöfði skrifar: Afmæli öldungs

Svarthöfði skrifar: Afmæli öldungs
EyjanFastir pennar
28.10.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Þær sitja skörinni neðar, ennþá!

Sigmundur Ernir skrifar: Þær sitja skörinni neðar, ennþá!
EyjanFastir pennar
28.10.2023

Óttar Guðmundsson skrifar: Sr. Friðrik

Óttar Guðmundsson skrifar: Sr. Friðrik