fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Eyjan
Laugardaginn 9. mars 2024 13:15

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sá er munurinn á vinnuskúrum gamalla daga og samfélagsmiðlum síðustu missera að landlægt tuðið var lokað af inni á kaffistofum í eina tíð – og sat þar eftir þegar haldið var til vinnu á ný – en nú er búið að hleypa því út um allar jarðir, svo neikvæðnin nötrar í hlustum landsmanna.

Og sú er líka breytan á tímunum tvennum að nöldrið var áður fyrr nafnlaust, en nú er það undir fullu heiti og stendur eftir sem eilífur vitnisburður um innræti þess sem æmti og skræmti. Og verður aldrei viskaður út af veraldarvefnum.

Eru þá ónefnd enn ein umskiptin í mannlegum samskiptum. Og þau lúta að almennu umburðarlyndi gagnvart margvíslegum skoðunum, háttsemi og líferni. Þar er mildin að mestu að hverfa. Vægðin er alltént á verulegu undanhaldi. Hleypidómaleysið hefur lagt á flótta.

Og þversögnin er þessi: Á meðan landinn getur ekki þakkað það nógsamlega að búa í frjálsu og fullvalda landi þar sem lýðræði á að heita harla pattaralegt, eru skoðanir, sem kunna að vera á skjön við aðrar, hafðar að háði og spotti, ellegar svívirtar og forsmáðar, ef ekki bara afgreiddar sem andstyggilegur og ógnandi málflutningur.

Jafnaðargeðið er heldur ekki meira en svo að það er öskrað ef einstaka sjónarmið þykir ekki að skapi þess sem æpir og orgar á almannafæri. Af því bara að hann var og er ekki alveg sammála því viðhorfi sem veifað hafði verið. Og það er ekki látið nægja að arga einu sinni, heldur lætur nærri að límingarnar gefi sig fyrir fullt og allt – og verði ekki endurnýjaðar.

Út af einu áliti. Öðru en hrópandanum er að skapi.

Það þarf ekki lengur meira til.

„Krafan um að einsleitnin leysi fjölbreytileikann af hólmi bergmálar um allt Ísland.“

Þeim sem hér fer fingrum um lyklaborðið brá stórum þegar hann hélt heim úr tveggja mánaða vetursetu í spænsku fiskimannsþorpi um síðustu helgi, þar sem hann sat við skriftir í ró og næði, en ekki var fyrr lent á landinu bláa en staðið var inni í miðjum hvirfilbyl af bölmóði og níði um náungann. Fyrirganginum linnti ekki fyrr en allir voru asnar í kring. Og miklu heldur skelfileg skítmenni.

Af því einu að vera á öðru máli.

Og sem snöggvast langaði þann hinn sama að snúa við á punktinum. Fljúga til baka í frelsi orðanna – og fá að hugsa sitt og lítið eitt annað, án þess að eiga það á hættu að vera úthrópaður sem hver annar aumingi og ógeð. Fyrir það eitt að hafa skoðun, eða vera sjálfum sér samkvæmur.

En staðan er þessi: Frjálslyndi og vorkunnlæti er að víkja fyrir árásargjörnum ofstopa. Krafan um að einsleitnin leysi fjölbreytileikann af hólmi bergmálar um allt Ísland. Það er búið að reisa mótið. Nú skal allt steypt í sama formið. Og það er ekki lengur pláss fyrir efnið sem út af stendur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð
EyjanFastir pennar
02.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið