fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði
Fimmtudaginn 14. mars 2024 16:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði hefur þann sið í morgunsárið að fá sér bolla af rjúkandi heitu, svörtu og sykurlausu kaffi frá Johnson & Kaaber og lesa Morgunblaðið gaumgæfilega. Þá fyrst getur hann horfst í augu við daginn sem fram undan er.

Í morgun vakti það athygli Svarthöfða að 26 oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum landsins skrifuðu sameiginlega undir aðsenda grein þar sem spjótum var beint gegn formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Heiða Björg Hilmisdóttir var sökuð um að hafa virt vilja sveitarstjórnarmanna að vettugi og leikið einleik þegar hún samþykkti fyrir hönd sambandsins aðkomu sveitarfélaganna að aðgerðum hins opinbera til að liðka fyrir stöðugleikasamningunum sem skrifað var undir á dögunum.

Skrifin komu Svarthöfða nokkuð í opna skjöldu. Í fyrsta lagi man hann ekki eftir viðlíka samstöðu sjálfstæðismanna í sveitarstjórnum í háa herrans tíð – raunar er það svo í höfuðborginni að borgarstjórnarflokkurinn er líkast til þrí- fremur en tvíklofinn. Þá tala sveitarstjórnarmenn hans á höfuðborgarsvæðinu þvers og kruss og út og suður um almenningssamgöngur á svæðinu.

Í annan stað virðist öllum sveitarstjórnarmönnum, nema þessum 26 oddvitum íhaldsins, hafa verið löngu ljóst að sveitarfélögin myndi leika lykilhlutverk í aðkomu hins opinbera til að liðka fyrir stöðugleikasamningnum.

Þá taldi Svarthöfði að helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum landsins væru sæmilega læsir á það hvernig kaupin gerast á eyrinni innan SÍS.

Þar deildi Sjálfstæðisflokkurinn löngum og drottnaði, yfirleitt með fulltingi Framsóknar en stundum í samfloti með Krötum. Nú er íhaldið hins vegar heillum horfið innan sambandsins og ný valdablokk hefur myndast. Samfylkingin og Framsókn hafa náð saman, formaðurinn kemur úr röðum Samfylkingarinnar og framkvæmdastjórinn  frá Framsókn. Allt samkvæmt samkomulagi sem handsalað var fyrir síðasta þing sambandsins.

Svarthöfði er enn fremur handviss um að þeir sem ríkjum ráða í Sjálfstæðisflokknum sjá alveg hvað skrifað er í skýin. Það sem gerist innan SÍS er nefnilega jafnan fyrirboði þess sem gerast mun í landsmálunum. Samstarf Samfylkingar og Framsóknar innan SÍS er því skýr vísbending um að þessir tveir flokkar muni mynda næstu ríkisstjórn og væntanlega taka með sér Viðreisn.

Þetta þýðir að forystu og ráðandi öflum í Sjálfstæðisflokknum er fullljóst að eftir næstu þingkosningar býður hans ekkert annað en stjórnarandstaða. Svarthöfði veit mæta vel hve lítt mönnum þar á bæ hugnast slík framtíðarsýn. Sjálfstæðisflokkurinn er valdaflokkur sem þrífst ekki í stjórnarandstöðu. Nærtækt dæmi um slíkt er borgarstjórnarflokkurinn.

Svarthöfði býst fastlega við að nú fari fjölgandi fimm ára skipunum flokksmanna í feit og mikilvæg embætti hjá ríkinu, á borð við sendiherrastöður, ráðuneytisstjórastöður og forstjóra ríkisfyrirtækja. Sjálfstæðisflokkurinn veit sem er að í þau fáu skipti sem flokkurinn lokast úti í kuldanum og kemst ekki í ríkisstjórn er gott að geta reitt sig á trausta embættismenn sem hafa skilning á þörfum flokksins og hans helstu bakhjarla. Stjórnmálamenn og -flokkar koma og fara en flokkur embættismanna er en fer ekki.

Svarthöfði á frekar von á að Katrín Jakobsdóttir, sem þegar er farin að máta sig við forsetaembættið svo eftir er tekið, muni stíga skrefið til fulls og bjóða sig fram. Hún veit sem er að við þessar aðstæður getur hún horfið úr ríkisstjórninni án þess að stjórnin riði til falls. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki undir neinum kringumstæðum að stytta setu sína á valdastóli um meira en heilt ár.

Svarthöfði sér fram á að líklegt sé að Sigurður Ingi Jóhannsson taki við embætti forsætisráðherra hverfi Katrín Jakobsdóttir úr ríkisstjórn og af þingi til að fara í forsetaframboð. Svandís Svavarsdóttir mun væntanleg í pólitíkina á ný og stígur þá væntanlega inn sem nýr foringi VG og innviðaráðherra.

Leið Sjálfstæðisflokksins aftur til áhrifa kann að byggjast á því að flokknum takist á ný að ná töglum og högldum í SÍS. Svarthöfði sér það ekki gerast í bráð. Til að það gerist þyrfti annað hvort Samfylkingin eða Framsókn að halla sér að Sjálfstæðisflokknum en litlar líkur eru á því, ekki síst eftir þessa dæmalaust óheppilegu grein í Morgunblaðinu í morgun þar sem Sjálfstæðisflokkurinn veitist að forystu SÍS, sem er jú Samfylkingin og Framsókn. Eyðimerkurgangan gæti orðið löng og ströng.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund