fbpx
Þriðjudagur 03.október 2023
Eyjan

Vilhjálmur vill efla rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna í lækningaskyni

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 18. september 2023 12:00

Vilhjálmur Árnason. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Kveður tillagan á um að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra, í samstarfi við aðra ráðherra er málið snertir, að undirbúa og leggja til nauðsynlegar breytingar, hvort sem er á lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti, sem heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni og skapa skýra umgjörð fyrir sérhæfða meðferðaraðila um notkun efnisins í þeim tilgangi. Tillögur ráðherra liggi fyrir eigi síðar en á vorþingi 2024.

Meðflutningsmenn að tillögunni eru Jón Gunnarsson, samflokksmaður Vilhjálms og þingmenn Flokks fólksins þau Jakob Frímann Magnússon, Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Í greinargerð með tillögunni segir að hún hafi verið lögð fram á síðasta þingi og sé nú lögð fram óbreytt.

Í greinargerðinni segir enn fremur að markmið tillögunnar sé að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni, en alþjóðlegar rannsóknir bendi til þess að umrædd efni geti valdið straumhvörfum í meðhöndlun geðraskana. Markmið tillögunnar er jafnframt að rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efni í geðlækningaskyni verði alfarið í höndum fagfólks í heilbrigðisþjónustu.

Jafnframt kemur fram í greinargerðinni að hugvíkkandi efni á borð við sílósíbín (psilocybin), sem er virka efnið í um 250 mismunandi sveppategundum, falli í dag undir skilgreiningu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, og sé varsla slíkra efna þar af leiðandi óheimil. Síðustu ár hafi rannsóknum á hugvíkkandi efnum, sér í lagi sílósíbíni, fleygt fram samhliða aukinni notkun efnanna.

Minnka fordóma

Fordómar gagnvart notkun efnisins séu þó töluverðir og brýnt sé að vinna á þeim bug svo að unnt sé að stunda frekari og útbreiddari rannsóknir á efninu.

Í greinargerðinni er vitnað til ýmissa rannsókna og fræðimanna sem gefa til kynna að hugvíkkandi efni geti verið gagnleg í baráttunni við geðræn veikindi. Meðal annars er vitnað til rannsóknar sem gerð var af fræðimönnum við læknadeild Johns Hopkins-háskóla sem bendi til þess að hægt sé að draga verulega úr alvarlegum einkennum þunglyndis með notkun sílósíbíns. Einnig er vísað til rannsóknar fræðimanna við New York-háskóla (NYU) sem bendi til þess að notkun efnisins við meðferð vegna áfallastreituröskunar og annarrar úrvinnslu áfalla geti verið gagnleg. Þá bendi niðurstöður klínískrar rannsóknar, sem greint var frá í JAMA, tímariti bandarísku læknasamtakanna, árið 2022 til að sílósíbín skili árangri við að hjálpa ofdrykkjufólki að draga úr áfengisneyslu eða hætta alfarið.

Í lok greinargerðarinnar segir:

„Flutningsmenn tillögunnar telja brýnt að rannsóknir á notkun sílósíbíns í geðlækningaskyni verði alfarið framkvæmdar á vegum fagfólks og að kannað verði til þrautar hvort efnið geti valdið þeim straumhvörfum í geðlækningum sem ýmsir fræðimenn hafa boðað. Ávinningurinn gæti orðið verulegur, ekki síst á Íslandi þar sem um 60.000 einstaklingar glíma við geðræn vandamál. Geðlyfjanotkun á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast á síðustu 15 árum. Árið 2005 var 627 skömmtum af geðlyfjum ávísað á hverja 100.000 íbúa, en árið 2020 voru skammtarnir orðnir 1.317. Talið er að hefðbundin þunglyndislyf gagnist ekki í um þriðjungi tilfella.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt