fbpx
Sunnudagur 03.desember 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Stjórnarmynstrið gengur ekki upp

Eyjan
Sunnudaginn 15. maí 2022 17:42

Ríkisstjórnin

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um þessar mundir mælir Hagstofan verðbólgu 7,2% og vextir Seðlabankans voru á dögunum hækkaðir í 3,75%. Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor bendir á í nýjasta hefti Vísbendingar að ekki dugi að beita stjórntækjum Seðlabankans einum, samhliða þurfi aðilar vinnumarkaðarins að koma sér saman um hóflegar hækkanir launa og þá verði að auka aðhald í ríkisfjármálum. Gylfi segir ennfremur að skortur á samhæfingu og samstöðu ríkisfjármála og peningastefnu muni að líkindum hafa í för með sér að vextir Seðlabankans hækki enn meira en ella.

Það er nefnilega svo að í umræðum um efnahagsmál er um of einblínt á Seðlabankann og stjórntæki hans en alltof lítill gaumur gefinn að stjórn ríkisfjármála. Þar er þörf á aðhaldi eins og Gylfi nefnir; opinber útgjöld fara hratt vaxandi en skatttekjur aukast ekki með sama hraða. Afleiðingin er viðvarandi hallarekstur. Heildartekjur ríkissjóðs námu rúmum 872 milljörðum samkvæmt ríkisreikningi 2019. Sú tala er komin upp í 955 milljarða í ár. Heildarútgjöld hafa á sama tíma vaxið úr 913 milljörðum í 1.124 milljarða skv. fjárlagafrumvarpi þessa árs. Þá er samkvæmt nýrri fjármálaáætlun gert ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri ríkissjóðs næstu árin en einnig hækkandi opinberum útgjöldum. Ef horft er til ríkis og sveitarfélaga samtals er áætlað að nafnvirði heildarútgjalda fari úr 1.670 milljörðum 2023 í 1.940 milljarða 2027.

Öllu eytt jafnharðan

Í skýrslu fjármálaráðs sem kom út í síðasta mánuði er meðal annars gagnrýnt að öllum tekjum sé eytt jafnharðan. Tekjurnar séu sveiflukenndar og útgjöld sveiflukennd að sama skapi. Því geti reynst erfitt að hemja útgjöldin þegar gefur á bátinn og af þessu hafi hlotist  þrálát skuldasöfnun. En fjármálaráð bendir á að tekjuauki hins opinbera vegna tímabundins hagvaxtar sé í reynd bara „froða sem ekki ætti að nýta til varanlegra ráðstafana í aukningu útgjalda“.

Þá hafi stundum verið stigið „á aflgjöfina þegar þörf var á að stíga á bremsuna í ljósi hagsveiflunnar á þeim tíma“ eins og það er orðað. Slíkt ynni gegn stöðugleika og sýndi þörfina á festu og aga við stjórn opinberra fjármála. Þegar þannig hátti til að veðurspár rætist sjaldnast þurfi að huga að ríkjandi vindáttum. Útgjöld ættu því aðeins að aukast í takti við langtímaleitni vaxtar í efnahagslífinu. Þannig mætti koma í veg fyrir að stjórnvöld falli ítrekað í þá freistni að eyða jafnóðum því sem kemur í kassann. Þá bendir fjármálaráð líka á þá hættu sem getur skapast nú um stundir þegar tekjur hins opinbera aukast tímabundið vegna verðbólgu en þetta kallar ráðið „verðbólgufroðu“.

Ríkisstjórnin er ófær um að taka á vandanum

Fjármálaráð gerir verðbólguspána að umtalsefni en í áætlunum stjórnvalda er gert ráð fyrir að hún verði nær 6% á þessu ári en fari síðan lækkandi og verði um 2,5% þegar á árinu 2025. Ráðið bendir á að þetta gangi þá og því aðeins upp að niðurstaða kjarasamninga verði í samræmi við undirliggjandi stöðu hagkerfisins. Hér reyni enn og aftur á samspil peningamála og fjármála hins opinbera og svo vitnað sé orðrétt til skýrslu fjármálaráðs: „Nægi tekjur hins opinbera ekki fyrir ráðgerðum útgjöldum þarf að hagræða í rekstri, draga úr útgjöldum eða afla aukinna tekna með skattheimtu.“

Við blasir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur getur ekki tekið á vandanum af pólitískum ástæðum. Sjálfstæðismenn hafa fengið því framgengt að skattar verði ekki hækkaðir að neinu marki en á móti fá Framsóknarflokkur og sér í lagi Vinstri grænir að auka útgjöld. Núverandi ríkisstjórnarmynstur gengur nefnilega ekki upp: stjórn getur ekki verið hvort tveggja í senn til hægri og vinstri í efnahagsmálum; áherslan verður að vera í aðra hvora áttina. Niðurstaða flokkanna þriggja hefur einfaldlega orðið sú að gefast upp gagnvart bákninu, eyða um efni fram og velta vandanum yfir á komandi kynslóðir.

Kynt undir verðbólgubálið

Í skýrslu sinni frá því í desember í fyrra benti fjármálaráð á að ef ekki væri til staðar formfest umgjörð hefðu ríkisfjármálin tilhneigingu til að færast til verri vegar en ella. Það birtist þá í þrálátum hallarekstri og skuldasöfnun yfir langan tíma. Rannsóknir hefðu sýnt að veikleiki í fjármálastjórnun og skekktir hvatar á vettvangi stjórnmála hafi hér mest um að segja. Þetta lýsi sér meðal annars með því að stjórnmálamenn horfi til of skamms tíma og eyði fjármunum umfram það sem aflað er. Þannig sé frestað að taka á undirliggjandi vandamálum.

Þá hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bent á það hvernig miklar sveiflur í opinberum útgjöldum hafi torveldað stjórn opinberra fjármála. Fjármálaráð orðaði það svo í skýrslu sinni í desember sl. að stigið væri á bensínið og bremsuna á víxl — en ekki nóg með það heldur væri stigið á bensínið þegar þörf væri að stíga á bremsuna í ljósi hagsveiflunnar. Þetta hefði allt unnið gegn stöðugleika og sýndi þörfina á festu og aga við stjórn opinberra fjármála.

Kjarni málsins er nefnilega sá að frá því fyrir faraldurinn hefur verið viðvarandi halli á rekstri ríkissjóðs og við blasir áframhaldandi hallarekstur og skuldasöfnun. Ríkisstjórnin ætlar sér bersýnilega ekki að taka á vandanum og kyndir þar með undir verðbólgubálið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Óhófsandi og skattasýki

Björn Jón skrifar: Óhófsandi og skattasýki
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Öfundina má yfirvinna

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Öfundina má yfirvinna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Loksins kom skjaldborgin – skjaldborg heimilanna um fyrirtæki auðmanna

Svarthöfði skrifar: Loksins kom skjaldborgin – skjaldborg heimilanna um fyrirtæki auðmanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Landslag hjartans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Landslag hjartans
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ísrael

Óttar Guðmundsson skrifar: Ísrael
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Afmæli öldungs

Svarthöfði skrifar: Afmæli öldungs
EyjanFastir pennar
28.10.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Þær sitja skörinni neðar, ennþá!

Sigmundur Ernir skrifar: Þær sitja skörinni neðar, ennþá!
EyjanFastir pennar
28.10.2023

Óttar Guðmundsson skrifar: Sr. Friðrik

Óttar Guðmundsson skrifar: Sr. Friðrik