fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Agaleysi er þjóðarböl

Eyjan
Sunnudaginn 7. ágúst 2022 16:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Við félagarnir fengum okkur drykk eitt kvöldið á dögunum á hinu vinsæla öldurhúsi Röntgen við Hverfisgötu. Komið var fram yfir miðnætti þegar ég hélt heim á leið og tók mér stöðu í stuttri röð fólks í Lækjargötu þar sem beðið var leigubifreiðar. Örskömmu síðar kom par aðvífandi og stillti sér fremst í röðina. Ég benti þeim á með nokkrum þjósti hvar röðin endaði, þau báðust innilega afsökunar, færðu sig og vissu bersýnilega upp á sig sökina.

Flest verðum við reglulega vör við dæmi þessu lík og mér finnst ég verða mun oftar var við það hér en í nágrannalöndunum að fólk ryðjist fram fyrir raðir. Þetta atvik leiddi mig til umhugsunar um hversu margt í samskiptaháttum hér á landi er losaralegt. Birtingarmyndir landlægs agaleysis eru ýmsar.

Þeir sem verið hafa í skólum erlendis (ellegar átt börn í skólum í útlöndum) verða alltaf jafnundrandi þegar heim er komið að sjá það virðingarleysi og þar með agaleysi sem ríkir oft í skólum landsins. Nemendur hafa gjarnan ekki vinnufrið og ástæðan er oftar en ekki að ónóg virðing er borin fyrir kennaranum til þess að hann geti sinnt kennslunni. Ég er ekki frá því að þessi mál hafi meira verið til umræðu fyrir nokkrum áratugum en séu frekar orðin feimnismál á seinni tímum. Gamalreyndur kennari sagði mér að agaleysi í skólum væri orðið tabú. Rétt er að hafa í huga að ekki er við kennarann að sakast í þessu efni. Hann á ekki að þurfa að kenna nemendum almenna mannasiði. Vandinn er heimanfenginn.

 

Ranghugmyndir um aga og agaleysi

Hér á landi halda sumir því fram að agaleysi sé jákvætt þjóðareinkenni — landsmenn séu frjálsari í fasi en þeir sem búa handan hafsins. Á dögunum las ég viðhorfspistil úr einu dagblaðanna frá því snemma árs 2007 þar sem því var velt upp hvort agaleysið væri galdurinn á bakvið velgengni íslenskra athafnamanna á erlendri grundu — Íslendingar hefðu til að bara meiri drifkraft en aðrar þjóðir og eitthvað sem höfundur kallaði „vertíðarstemningu“ gerði það að verkum að Íslendingar fengju meiru áorkað en ella. Ég er á því að þessi orð pistlahöfundarins hafi ekki enst vel og af tillitssemi við hann læt ég hjá líða að nefna hann á nafn. En þessi viðhorf voru alltént býsna algeng og eru kannski enn.

Lengi hafa líka verið upp þær ranghugmyndir hér á landi að agi sé andstæða sjálfstæðis og þar með sjálfstæðrar hugsunar. Staðreyndin er einfaldlega sú að bestu hæfileikar manna fara hreinlega forgörðum ef þeir hafa ekki til að bera þann sjálfsaga sem þarf til að rækta þá. Mestu snillingar heims til hugar og handa hafa sjálfsagann til að bera í miklum mæli. Og því miður eru þess alltof mörg dæmi hér á landi að efnilegir menn sólundi hæfileikum sínum vegna skorts á sjálfsaga.

 

Tillitsleysið

Agaleysi birtist meðal annars í margs konar tillitsleysi fólks við samferðamenn sína, hvort sem það er ókurteisi (margir heilsa ekki og taka ekki undir kveðjur), brotum á umferðarreglum og slælegum vinnuafköstum. Ég hef setið á fyrirlestrum þar sem stór hluti fundarmanna lítur á símaskjáinn í stað þess að veita ræðumanni athygli. Í stjórnsýslunni er erindum illa sinnt — bréfum jafnvel alls ekki svarað. Víða er óregla á skjalahaldi ráðuneyta og stofnana. Löggjafarsamkundan fer ekki varhluta af agaleysinu, þar komast menn upp með málþóf vikum saman (með öllu því tillitsleysi sem því fylgir) eða eru í barnalegu stríði við siðvenjur með því að neita að bera hálsbindi.

Einn mesti ósómi hér á landi er óstundvísin. Gjarnan hendir að fundir hefjist tíu til fimmtán mínútum of seint því einhverjir komu ekki á tilsettum tíma. Og þeim sem mæta of seint finnst það mörgum hverjum hreint ekkert tiltökumál!

 

Snýst ekki um boð og bönn

Líkast til er agaleysið af stórum hluta sprottið af því að hér þroskaðist seint borgaralegt samfélag. Í sveitasamfélaginu var fjarlægðin meiri milli manna og ekki sama þörfin á tillitssemi og þar sem fleiri koma saman. Ýmsar siðvenjur borgaralegs samfélags eins og þéranir festu illa rætur hér. Þérun hefur þann kost að með henni er hægt að halda kurteislegri fjarlægð við ókunnuga og sömuleiðis milli kennara og nemenda þar sem ekki er valmöguleiki að mætast á fullkomnum jafnréttisgrundvelli.

Aukin fjölþjóðleg samvinna krefst þess að Íslendingar temji sér agaðri vinnubrögð og öðrum þræði snýst þetta um aukna samkeppnishæfni þjóðarinnar. Hér eiga vitaskuld að gilda sömu kurteis- og hátternisvenjur og almennt eru við lýði í nágrannalöndunum. Allt er þetta nauðsynlegt til að okkur líði betur að búa í samfélagi og rétt að taka fram að þetta snýst ekki um harðari reglur, boð og bönn heldur er þörf á að við flest temjum okkur meiri tillitssemi í háttum og agaðri vinnubrögð.

Og eins og með svo margt annað er mikilvægt að ræða þessi mál — skortur á aga og reglu má ekki vera feimnismál. Um er að ræða slíkan grundvallarþátt í hverju siðmenntuðu samfélagi að honum verður að gefa gaum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð