fbpx
Mánudagur 06.maí 2024
Eyjan

Fréttaskýring Eyjunnar: Stríðið gegn reiðufé harðnar

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 4. febrúar 2017 21:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir Ernu Ýr Öldudóttur:

Stríðið gegn reiðufé er nú háð af miklum krafti. Það má merkja á undanförnum mánuðum og árum, þar sem að hraðbönkum hefur fækkað og peningalaus bankaútibú eru að líta dagsins ljós hérlendis. Á Norðurlöndunum er það orðin stefna stjórnvalda að útrýma reiðufé og búa til samfélög rafrænna viðskipta á forræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja eingöngu. Fjármálaráðherra Íslands, Benedikt Jóhannesson, hefur nú lýst því yfir í fjölmiðlum að hann vilji banna launagreiðslur með reiðufé og banna viðskipti yfir ákveðinni fjárhæð með reiðufé. Þar með vill hann líklega fara að fordæmi Norðurlandanna og ESB og skylda almenning til að vera í viðskiptum við fjármálastofnanir og eigendur þeirra.

Reiðufé og peningastefna

Þó svo að Norðurlandabúar séu nánast hættir að nota reiðufé, þá er það enn mjög mikið notað af öðrum Evrópubúum. Kannanir sýna að 70% Þjóðverja eru á móti frekari höftum á notkun reiðufjár og svissneski seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann muni alls ekki draga úr prentun/slætti eða hætta notkun á svissneskum frönkum í formi reiðufjár.

Í Danmörku hefur fjármálaráðuneytið hefur lagt til að kaupmenn megi neita að taka við reiðufé frá janúar 2016. Stærstu bankarnir þar hafa nýlega hætt að leyfa úttekt á reiðufé í flestum útibúum. Fjármálageirinn þar hefur hvatt fólk til að hætta að nota reiðufé til að „vernda umhverfið og berjast gegn glæpum“.

Erna Ýr Öldudóttir viðskiptafræðingur.

Fjármálaráðherrar í ESB hafa óskað eftir könnun á viðeigandi takmörkunum á greiðslum með reiðufé umfram ákveðin viðmiðunarmörk í öllu ESB. Seðlabanki Evrópu vill láta hætta prentun á €500 seðlum. Ástæðan fyrir stríðinu gegn reiðufé í Evrópu er talin vera fyrst og fremst vegna þess að evrópskar ríkisstjórnir og seðlabankar hafa viljað stýra peningum með höftum og stjórna reiðufé í umferð, en reiðufé í eigu almennings hefur truflað peningastefnur þeirra.

Nokkur evruríki hafa þegar sett strangt eftirlit með úttektum á reiðufé og þak á það hvaða viðskipti mega fara fram með reiðufé og hvað þarf að fara í gegnum bankastofnun. Í Frakklandi og á Spáni leyfa stjórnvöld t.d. ekki að viðskipti fyrir meira en €1000 séu gerð með reiðufé, á Grikklandi €500 og ítölsk stjórnvöld flagga og rannsaka fólk sem reynir að taka út meira en €3000 í reiðufé í bankanum.

Sveigjanleiki fjármagnaður af almenningi

Þróunin í dag er orðin sú að umdeildar aðferðir stjórnvalda, að auka peningamagn í umferð til að blása lífi í staðnað hagkerfið í Evrópu, virka ekki lengur. Nýlega útgefnir peningar hækka bara fasteignaeignaverð og fyrirtækin greiða út arð eða endurfjármagna sig, frekar en að kaupa vörur og þjónustu. Ef vextir verða of lágir eða neikvæðir, þá tekur fólk peninga úr bönkunum til að geyma í hólfum eða „í dýnunni“ þar sem að þeir rýrna minna þar en á bankareikningunum. Þessu hafa bankarnir áhyggjur af.

Að banna eða takmarka notkun reiðufjár virðist hafa aukið vantraust almennings á fjármálakerfinu eins og nýlegar tölur um vaxandi notkun á reiðufé sýna í Evrópu og Bretlandi. Einnig gæti það orðið til að hvetja til útgöngu ríkja úr ESB og sett hæfi þeirra til að endurfjármagna skuldir sínar á kostnað almennings í hættu, en ríkin eiga erfiðara með það ef að peningar fólks eru ekki inni á reikningum bankanna.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. Skjáskot úr Kastljósinu.

Ef gert væri út af við reiðufé, hefðu stjórnvöld fullkomna stjórn á peningastefnu sinni til skamms tíma. Þau gætu lækkað vexti niður fyrir núll í viðleitni til að örva fjárfestingu og þar með þvingað almenning til að fjárfesta peningunum sínum í áhættusömum skuldabréfum og hlutabréfum, þar sem að ekki verður hægt að taka rýrnandi peningana út. Verra er að ríkisstjórnir og bankar geta gert fé upptækt eða sett á það álögur og höft ef það eru allt inni á bankareikningum, án þess að fólk fái rönd við reist. Það sem fáir vita er að bankinn á peninga fólks á meðan þeir eru inni á bankareikningum. Að lokum, ef fólk getur ekki tekið peningana sína út af reikningunum, þá mun það líklega draga úr hvata bankanna til að stunda ábyrga starfsemi.

Almenningur yfirgefur gjaldmiðilinn

Andstæðingar reiðufjár gleyma oft eðli peninga en það er að þeir verða til í viðskiptum og án aðkomu ríkisvaldsins, sbr. hinn virti austurríski hagfræðingur Carl Menger (Principles of Economics, 1871). Að banna reiðufé eða setja aðrar hömlur á peninga leiðir til þess að fólk finnur sér staðgöngugjaldmiðla til að nota í viðskiptum sínum í staðinn. Gjaldmiðlar annarra landa, gull og silfur eða jafnvel rafrænir gjaldmiðla eða greiðsluleiðir sem eru minna háðir eða óháðir ríkisvaldinu og fjármálakerfinu eins og t.d. PayPal eða bitcoin. Að banna reiðufé mundi á endanum leiða til hruns á hinum opinbera gjaldmiðli. Hagfræðingar sem mæla með að hætta notkun reiðufjár líta framhjá þessum staðreyndum og sýnir það hvað þeir skilja lítið um eðli peninga og afleiðingar þess að leggja reiðufé af.

Það er firra að halda því fram að reiðufé sé bara notað fyrir ólöglega starfsemi. Sérfræðingurinn Friedrich Schneider við Háskólann í Linz í Austurríki hefur sýnt fram á að peningaþvætti fer aðallega fram í gegnum skúffufyrirtæki staðsett í hinum ýmsu lögsagnarumdæmum. Til dæmis í aflöndum eins og Íslendingar þekkja úr fjölmiðlaumræðu í sambandi við skattaskjól. Í öðrum lögsagnarumdæmum verða einnig til faktúrufölsun og verðhækkanir í hafi sem eru aðferðir sem eru notaðar til að okra á neytendum og svíkja undan skatti. Til að þetta gerist þarf ekkert reiðufé.

Ekki eru allir sáttir. Þjóðverjar tóku því afar illa nú þegar stjórnvöld þar í landi reyndu að leggja til að draga mörkin fyrir viðskipti með reiðufé við €5000 og Austurríkismenn telja sig eiga stjórnarskrárvarinn rétt til einkalífs með notkun reiðufjár skv. vara-viðskiptaráðherra þeirra Harald Mahrer. Efasemdir eru einnig byrjaðar að heyrast í Noregi og Svíþjóð á meðal almennings.

Ábyrgðarleysi stjórnvalda og fjármálastofnana

Það eru margar góðar ástæður til að andmæla einokun stjórnvalda á gjaldmiðlum. Reiðufé getur þó fríað almenning undan slæmri stefnu stjórnvalda að hluta. Nýleg dæmi frá Evrópu sýna hvernig bankar og ríkisstjórnir hafa gert fé upptækt á bankareikningum til að bjarga eigin mistökum, sbr. 50% rýrnun á innistæðum almennings á Kýpur í mars 2013 og ýmis höft á innistæðum bankareikninga sem Grikkir hafa mátt þola eftir hrun fjármálakerfisins þar.

Afnám reiðufjár verður óbætanlegt tjón á persónufrelsi og réttindum borgaranna. Rafrænar greiðslur munu auðvelda skattheimtur og eftirlit, en aðeins til skamms tíma. Peningalaust samfélag gæfi stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum ótakmarkaðan aðgang að einkalífi fólks. Peningalausu samfélagi er afar hætt við tölvuglæpum en rafræn peningasvik eru að vaxa gríðarlega í löndum eins og t.d. Svíþjóð.

Ekkert svið mannlífsins er ósnert af peningum. Reiðufé þarf að vera valkostur ef stjórnvöld, fjármálakerfin eða tæknin bregst okkur. Reiðufé er trygging gegn tjóni á eigum fólks hjá fjármálastofnunum og frelsi ef eitthvað fer alvarlega úrskeiðis. Reiðufé er ekki háð gjaldþoli banka eða stjórnvalda. Í markaðshagkerfi er það ekki heldur stjórnvalda að ákveða greiðslutilhögun almennings fyrir vörur og þjónustu, heldur neytenda. Gleymum því ekki hve reiðufé er mikilvægt þeim milljörðum manna um heim allan sem ekki hafa aðgang að fjármálakerfinu, þ.e. fá ekki bankareikning eða kreditkort.

Ljósið í myrkrinu gegn alræðistilburðum stjórnvalda virðist þó vera hvatning til þróunar á gjaldmiðlum utan við fjármálakerfin eins og t.d. bitcoin. Reiðufé er svo sem engin lokalausn, en bráðnauðsynlegt til þess að halda í grundvallar réttindi almennings, mannlega hegðun og möguleikann á að lifa í friði. Reiðufé og frelsi borgaranna eru tvær hliðar á sama peningi.

 

Greinin er lauslega þýdd, staðfærð og byggð á greinunum:

„Why There’s a War on Cash in Europe“ eftir Fabio Andreotti og birtist fyrst í eldri útgáfu í Cayman Financial Review í maí 2016 en var endurbirt á Foundation For Economic Education 10. október 2016 á netinu.

 

„Things Just Got Serious in Europe’s War on Cash“ eftir Don Quijones birtist Jan 28, 2017 í vefritinu Wolf Street.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir – fólkið velur forsetann, ekki fjölmiðlar eða skoðanakannanir

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir – fólkið velur forsetann, ekki fjölmiðlar eða skoðanakannanir
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Atli Þór ráðinn til Pírata

Atli Þór ráðinn til Pírata
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kristrún greinir frá breytingum í reglum um framboðslista flokksins – Möguleiki á prófkjöri um efsta sæti og uppstillingu á þau næstu

Kristrún greinir frá breytingum í reglum um framboðslista flokksins – Möguleiki á prófkjöri um efsta sæti og uppstillingu á þau næstu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir í hljóði og mynd

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir í hljóði og mynd
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Biden grínaðist með aldursumræðuna um forsetaframbjóðendurna – „Ég er í framboði gegn sex ára“

Biden grínaðist með aldursumræðuna um forsetaframbjóðendurna – „Ég er í framboði gegn sex ára“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?